Þessi æðislega uppskrift er fengin af sælkerablogginu hennar Erlu Guðmunds. Flestir hafa nú bakað hefðbunda franska súkkulaðiköku en það er alltaf gaman að breyta aðeins til og prófa eitthvað nýtt. Eins og þetta krem, mmm, það hljómar alveg stórkostlega.
Sjá einnig: Hveitilaus frönsk súkkulaðikaka
Frönsk súkkulaðikaka með hnetusmjörskremi
Botn
- 4 stk egg
- 2 dl sykur
Þetta er þeytt vel saman þar til þetta er orðið svolítið ,,fluffy”.
- 200 gr íslenskt smjör
- 200 gr súkkulaði
- 1 dl hveiti
Smjörinu og súkkulaðinu er skellt saman í pott og brætt saman við vægan hita. Þessari blöndu er síðan hellt varlega út í eggja- og sykurblönduna. Seinast er hveitinu svo bætt við. Kakan er svo bökuð við 175° í ca. 25min. Gott að stinga gaffli í miðjuna þegar að 20 min eru liðnar til þess að athuga hvort hún sé klár.
Hnetusmjörskrem:
- 250 gr íslenskt smjör
- 1 egg
- 4 msk flórsykur
- 1 tsk vanillusykur
- 3 msk hnetusmjör
Byrjið á því að hræra smjörið, næst er egginu bætt út í og þetta látið blandast vel saman. Ég sigta síðan flórsykurinn og vanillusykurinn út í og seinast set ég hnetusmjörið.
Hnetusmjörskreminu er síðan bara skellt ofan á kökuna. Ég skar síðan 3 Snickers, frekar gróft, og dreifði yfir kökuna. Til að toppa sætindin þá bræddi ég Góu karamellukúlur í potti með smá rjóma og sletti yfir kökuna.
Mæli klárlega með þessari, hún er einu númeri of góð.
Guðrún Veiga er fædd og uppalin á Eskifirði. Hún er mannfræðingur að mennt, mikill matgæðingur, mamma og múltítasker. Guðrún Veiga hefur skrifað fyrir hina ýmsu miðla, unnið í sjónvarpi og skrifað eitt stykki matreiðslubók.