Það þurfa allir að hreyfa sig daglega

Holdafar þjóðarinnar hefur verið mikið í umræðunni og þá ekki síst aukin tíðni ofþyngdar. Leitað er leiða til að sporna gegn þessari þróun og er ljóst að hollt mataræði og regluleg hreyfing leika þar stórt hlutverk.

Niðurstöður rannsókna benda til að heilsunnar vegna sé æskilegast að vera í kjörþyngd, ekki með of hátt eða of lágt fituhlutfall, en á sama tíma er einnig mikilvægt að minna á að heilbrigði er mun margþættara en svo. Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg og því verður að huga að öllum þessum þáttum þegar heilsurækt er annars vegar.

  • Heilsurækt á að efla okkur andlega, líkamlega og félagslega.
  • Það er öllum mikilvægt að hreyfa sig reglulega, óháð aldri eða holdafari.
  • Njótum fjölbreyttrar útivistar, klædd í samræmi við veður.

Vigtin segir ekki allan sannleikann

Þegar stigið er á hefðbundna vigt segir niðurstöðutalan aðeins til um heildarþyngd líkamans, meðal annars vöðva, beina og fitu. Vigtin segir þannig lítið til um það sem meira máli skiptir, svo sem samsetningu og afkastagetu líkamans, andlega líðan og félagslega virkni.
Þó svo að vigtin geti gefið ákveðnar vísbendingar er hún ein og sér ekki góður mælikvarði á heilsu og er mikilvægt að hafa hugfast að það er ekki sjálfkrafa samasemmerki á milli þess að vera grannur og heilbrigður.

Sjá einnig: Aðgerðir vegna alvarlegrar offitu

Allir þurfa að hreyfa sig reglulega

Með fjölbreyttri hreyfingu er mögulegt er að efla og viðhalda líkamsgetu, þar á meðal afkastagetu hjarta- og æðakerfis og lungna, vöðvastyrk, beinþéttni, liðleika, snerpu og samhæfingu ásamt því að stuðla að skilvirkari efnaskiptum. Hreyfing getur einnig hjálpað okkur að stuðla að æskilegri líkamssamsetningu, þ.e. auka hlutfall vöðva á kostnað fitu.

Regluleg hreyfing getur þannig minnkað líkurnar á mörgum lífsstílstengdum sjúkdómum, svo sem hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki af tegund 2, ofþyngd, beinþynningu, sumum tegundum krabbameina, þunglyndi, streitu og kvíða.

Af þessu má vera ljóst að það er mikilvægt fyrir alla að leitast við hreyfa sig reglulega,
óháð aldri, kyni eða holdafari.

Öll hreyfing er betri en engin

En hvað þarf að hreyfa sig mikið til að það hafi góð áhrif á heilsuna? Öll hreyfing er betri en engin hreyfing en almennar ráðleggingar miða við að fullorðnir hreyfi sig rösklega í minnst 30 mínútur samtals daglega og börn hreyfi sig í minnst 60 mínútur daglega. Hreyfing til heilsubótar þarf því ekki að vera tímafrek en aukinni hreyfingu fylgir aukinn ávinningur. Mestur er ávinningurinn fyrir kyrrsetufólk sem fer að hreyfa sig meira.

Til að auka hreyfingu er gott að staldra við og skoða hreyfimynstrið í daglegu lífi:

  • Hversu mikil hreyfi ég mig í vinnunni, heima við og frístundum?
  • Hvernig ferðast ég á milli staða?
  • Vel ég stigann eða lyftuna?
  • Ýtir klæðnaður minn undir hreyfingu?
  • Hvað fer langur tími daglega í sjónvarpsáhorf eða óvinnutengda setu við tölvuna?
  • Gæti ég með betra skipulagi gengið, hjólað eða nýtt almenningssamgöngur einhverja eða alla daga?
  • Hvernig er hreyfimynstur fjölskyldunnar?

Nú þegar daginn tekur að stytta og kólnar í lofti er enn mikilvægara en ella að vera meðvituð um að fullnægja daglegri hreyfiþörf. Með klæðnaði við hæfi eru óteljandi möguleikar til að stunda útivist í fersku lofti og í kringum hádegi fáum við birtuna í bónus.
Tökum á móti vetrinum með bros á vör og reglulega hreyfingu að vopni. Þá mun sólin hækka á lofti fyrr en við áttum von á.

Höfundur greinar:

Gígja Gunnarsdóttir íþróttafræðingur

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE