Kjúklingabringa í hamborgaraleik.
Þetta er ekki hamborgari þó þetta sé þess legt. Nei þetta er kjúklingabringa í þykjustuleik.
Þær eru steiktar og undir þær sett væn hrúga af klettasalati og yfir er sett tómatsósa sem er mölluð saman áður en farið er að steikja bringurnar.
Tómatsósa
1 dós tómatar
1 lítil dós tómatpúrra
1 laukur smátt saxaður
1 chili smátt saxað
2 lárviðarlauf
½ bolli vatn
3-4 msk af olíu
Salt og pipar eftir smekk.
Olían er hituð í potti og laukurinn settur í og látinn mýkjast aðeins. Þá er chili sett útí. Látið malla smá stund. Þá er öllu bætt í og látið malla við vægan hita í ca 10 mín. Þá er lárviðarlaufið tekið úr og þetta maukað vel og þá er sósan tilbúin.
Borgararnir
4 hamborgarabrauð
4 kjúklingabringur
1 bolli parmesan
½ bolli hveiti
3 egg
Hveiti og parmesan blandað saman og sett á disk og eggin brotin í skál og hrærð vel saman.
Bringurnar eru flattar út. Best er að setja þær milli tveggja plastpoka og finna góðan skaftpott og berja þær til. Þeim er velt uppúr eggjunum, síðan blöndunni og síðan aftur eggjunum og aftur blöndunni. Þetta er steikt á pönnu við miðlungs hita. Passa að hitinn sé ekki of mikill. Gott að hita aðeins brauðin og setja svo saman. First er góð hrúga af klettasalati eða einhverju öðru góðu salati sett á botninn. Þá kjúllinn og sósan ofaná. Með þessu voru svo bara borðaðar gömlu góðu frönskurnar og rauðlaukur skemmir ekki..
Matarkarfan er hugarfóstur mæðgina sem eru „Made in sveitin“. Lífið þeirra snýst að stórum hluta um mat. Hugsa um hann og hvað á að elda? Hvernig á að elda?
Og borða hann , ekki gleyma því..Það er hin unaðlega umbun við að læra að gera góðan mat.