Að eiga barn með adhd

Mig langar að vekja á því athygli að október er ADHD AWARENESS mánuður! (Vitundarvakning á ADHD mánuður!)
Sá mánuður er notaður til þess að vekja athygli á ADHD og þannig reynt að koma á meiri skilningi úti í samfélaginu á þessari röskun!

 

Skilningsleysi er algjörlega óþolandi í vel upplýstu samfélagi en alltaf koma upp neikvæðar raddir og fordómar sem foreldrar ADHD barna og fólk með ADHD þarf að kljást við, stundum er eins og maður sé að berjast við vindmyllur svo skilningslaust er sumt fólk!

 

Það er ekki nóg að fólk sé að berjast við fordóma úti í samfélaginu það er líka að berjast við fordóma heima fyrir og hjá nánustu vinum og ættingjum sem vilja ekki viðurkenna þessa röskun og halda því fram að þú sért vanhæft foreldri og barnið þitt algjörlega óalandi frekt og óþekkt. Það að þurfa að berjast við þessa fordóma frá sínum nánustu er mjög niðurdrepandi og mikið stress og álag fyrir foreldra að þurfa endalaust að kljást við þetta, oft hafa vina og fjölskyldubönd rofnað vegna þessa ágreinings.

 

Heilsubrestur margra foreldra, þó oftast mæðra barna, er því miður staðreynd, álagið og stressið er einfaldlega of mikið fyrir eina manneskju að þola. Skilnaðir hafa ekki bætt úr en það er því miður of algengt að fólk skilji við svona aðstæður þar sem að fólk er hreinlega of þreytt til að standa í því að reyna að halda hjóna/sambandinu gangandi en það veldur barninu oft ennþá meiri vanlíðan og stressi og ennþá meira álagi á móðurina sem oftast er með forræðið og barnið oft meira hjá móður en föður. Sem betur fer eru breyttir tímar og margir feður sem taka meiri ábyrgð á börnum sínum en áður!
Það að eiga ADHD barn er mjög krefjandi og endalaus vinna miklu meiri vinna en með “normal” barn en oftast fylgja aðrar raskanir með eins og árátta og þráhyggja, kvíði, þunglyndi, einhverfa, tourette o.fl. Þessi börn eiga oft mjög erfitt félagslega og því er foreldrið ekki bara foreldri heldur líka “vinur”.

Sjá einnig: Fleiri ráð fyrir þig sem elskar einhvern með ADD/ADHD

Það að horfa upp á barnið sitt niðurbrotið vegna þess að enginn vildi leika við það eða leyfa því að vera með í leikjum í frímínútum eða bjóða því heim eftir skóla, bjóða því í eða koma í afmæli þess, er ólýsanlegur vanmáttur og sorg fyrir foreldra sem erfitt er að lýsa. Það skilur enginn nema þeir sem það hafa upplifað!
Það eru ekki bara fordómar gagnvart röskuninni sjálfri sem við erum að glíma við heldur lyfjagjöfinni líka en margir kjósa að prufa lyf til að hafa hemil á þessari röskun og eru nokkur lyf í notkun en umdeildust eru Ritalín Uno og Concerta en þessi lyf innihalda “amfetamínskyld” efni, margir halda því fram að það sé verið að “dópa” börnin og þau verði “dópistar” þegar fram líða stundir, þetta eru náttúrulega glórulausir fordómar því þessi lyf hafa hjálpað mörgum en þessir fordómar byggja á fáfræði og af því að það er til fólk sem misnotar þau en það eru mörg lyf misnotuð og hefur ekkert með sjúklingana að gera!

Sjá einnig: ADHD og Omega fitusýrur

Það velja þó ekki allir lyfjagjöf heldur vilja þeir prufa aðrar leiðir eins og breytt mataræði en það hefur reynst sumum vel, Bowentækni og Höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun hefur hjálpað mörgum með slökun og einbeitningu. Lyfjagjöf er oft ekkert fyrsta val hjá okkur foreldrum en við eigum að geta gefið barninu okkar lyf án fordóma því þessi lyf eru hjálpartæki þeirra til að vera virk í samfélaginu, í dag hafa allir aðgang að fræðsluefni á netinu og fleiri stöðum og ætti fólk því að kynna sér málin áður en það alhæfir eitthvað sem það veit ekkert um!

Skólar og leikskólar ættu að vera með meiri fræðslu og vitundarvakningu um þessar raskanir fyrir alla foreldra og gott væri ef hver bekkur í skólum landsins gæti verið með fræðslu og umræðu á eftir þar sem foreldrar “normal” barnanna væru sett inn í málefni “óþekku” barnanna þannig að þau skilji að þessi börn eru ekki óþekk heldur er þetta röskun í heilanum sem það ræður ekki við.
Adhd börn eru kannski fyrirferðarmikil en þau eru ákaflega listræn, uppátækjasöm , fjörug og skemmtileg þar sem þau fá að njóta sín, engum ætti að leiðast í kringum þau!
Adhd er taugaröskun en ekki óþekkt eins og þeir fordómafullu halda fram!

Sjá einnig: Að elska einhvern með ADD eða ADHD

Hér er brot úr grein eftir Grétar Sigurbergsson geðlækni: “Rannsóknir undanfarinna áratuga benda eindregið til þess að orsakir ADHD megi rekja til líffræðilegra þátta en ekki uppeldis eða annarra umhverfisþátta. Löngu er vitað að ADHD er ástand sem erfist og að erfðirnar séu mjög ráðandi. Sýnt hefur verið fram á að ADHD erfist á sama hátt og í álíka miklum mæli og t.d. líkamshæð. ADHD er röskun á taugalífeðlisfræðilegum eiginleikum í miðtaugakerfinu og mætti því nefna ástandið taugaröskun til einföldunar. Röskun sú sem veldur einkennum einstaklinga með ADHD er talin vera í svonefndri stjórnstöð heilans.”

Ég er foreldri ADHD og ADD barna og er sjálf haldin eitthvað af þessum röskunum, ég stofnandi og stjórnandi spjallhóps foreldra barna með adhd og skyldra raskana á Facebook.

Höfundur: Harpa Hildiberg Böðvarsdóttir

harpahildiberg proudmom

SHARE