Eyrnakonfektið hans Svavars Knúts

Fjórða sólóplata Svavars Knúts er komin út og nefnist BROT. Á henni eru tíu frumsamin lög, m.a. titillagið sem hefur á undanförnum vikum verið að klífa vinsældalista Rásar 2 og er komið í 4. sætið á útgáfudegi plötunnar.

a1670875524_16

Á þessari nýju plötu kveður við svolítið annan tón en á þeim fyrri, útsetningar eru fjölbreyttari og margir hljóðfæraleikarar koma við sögu þótt hinn tæri einfaldleiki sem Svavar Knútur er þekktur fyrir fái líka að njóta sín. Þau Markéta Irglóva, Kristjana Stefáns og Maríus Ziska syngja dúetta með Svavari Knúti í þremur ólíkum lögum, en stjórn upptöku annaðist Stefán Örn Gunnlaugsson.

Brot var hljóðrituð sumarið 2015 og kemur samtímis út á Íslandi og í Þýskalandi þar sem Svavar Knútur á vaxandi vinsældum að fagna. Eins og á fyrri sólóplötum Svavars Knúts er það dóttir hans, Dagbjört Lilja, sem myndskreytir umslagið og má geta þess að um er að ræða gjörólíkt myndefni fyrir geisladisk annars vegar og vínylplötu hins vegar, en Högni Sigurþórsson hannaði útlit. Fyrri sólóplötur Svavars Knúts hafa hlotið afbragðs viðtökur, Kvöldvaka (2009), Amma (2010) og Ölduslóð (2012). Fyrr á árinu komu þær allar út á vinyl í nýjum umbúðum og einnig kom stuttskífan Songs of Weltschmertz, Waldeinsamkeit and Wanderlust út í maí síðastliðnum.

Svavar er skemmtilegur og litríkur söngvari sem nær alltaf að toppa sig með hverri plötunni sem hann gefur út. Hann er með fallegan tón sem lætur mann í senn skilja og upplifa lögin hans á sérstakan hátt.

Brot kemur líka út sem lítill konfektkassi, með niðurhalskóða og textablaði og auðvitað súkkulaði. Þetta er líklegast í fyrsta skipti sem plata er gefin út sem konfektkassi.

Svavar segir það vera tilraun til að koma tónlist til fólks sem er hætt að kaupa geisladiska, en er ekki hopað á Vínylvagninn og lúrir því í tónlistarlegu einskismannslandi. Þess má geta að lagið Slow Dance er heiðarlegt lag um upplifun föður af fæðingarferlinu.

SHARE