Lifrarbólga C er sjúkdómur með útbreiðslu um allan heim og orsakast af veiru (hepatitis C virus). Veiran greindist fyrst árið 1989 og það hefur sýnt sig að stór hluti lifrarbólgu eftir blóðgjafir, meðferð með storkuþáttum, mótefnum og öðrum afurðum blóðs, orsakaðist af lifrarbólgu C – veirunni. Á undanförnum 15 árum hefur lifrarbólga C breiðst mikið út hér á landi, einkum meðal fíkniefnaneytenda sem sprauta sig.
Lifrarbólgan getur skemmt eða truflað starfsemi lifrarinnar þannig að efni úr blóði skiljist síður út með galli. Meðgöngutíminn, þ.e. tíminn sem líður frá smiti til einkenna af völdum lifrarbólgu C, er um 1-3 mánuðir.
Smitleiðir
Lifrarbólga C smitar með blóðsmitun. Aðalsmitleiðin er við notkun sprautufíkla á óhreinum nálum og sprautum. Smit á sér afar sjaldan stað við samfarir, þó er notkun smokks við skyndikynni ávallt skynsamleg. Smit móður til barns við fæðingu er einnig fremur sjaldgæft
Sjá einnig: Hvernig smitast kynfæravörtur?
Einkenni
Stór hluti þeirra, sem smitast af lifrarbólgu C, fá engin augljós einkenni sjúkdómsins. Helstu undanfarandi einkenni gulu eru almenns eðlis með ónotum í efri hluta kviðar, lystarleysi og ógleði. Nokkrum dögum síðar getur komið fram gula og dökknar þá þvag og hægðir lýsast.
Fylgikvillar
Um það bil 80% þeirra sem smitast af lifrarbólgu C fá viðvarandi lifrarbólgu og er viðkomandi þá smitandi árum saman. Hluti þeirra sem eru með viðvarandi lifrabólgu, fá eftir mörg ár (20 – 30) skorpulifur og lifrarkrabbamein.
Greining
Lifrarbólga C er greind með blóðprófi. Niðurstöður liggja fyrir innan nokkurra daga frá því að próf er tekið.
Meðferð
Flestir sem sýkjast af lifrarbólgu C fá langvinna sýkingu, sem ekki gengur yfir án meðferðar. Það er til meðferð sem getur læknað viðkomandi, en dugar þó ekki í öllum tilfellum. Meðferðin tekur marga mánuði og aukaverkanir eru nokkuð algengar.
Sjá einnig: Ertu búin að fá haustkvefið?
Forvarnir
Enn sem komið er er ekki til bóluefni gegn lifrarbólgu C. Hreinar sprautur og nálar fyrir sprautufíkla fást á lágu verði í lyfjaverslunum landsins. Allt blóð til blóðgjafa og framleiðslu á blóðhlutum er rannsakað m.t.t. lifrabólgu C. Við skyndikynni er rétt notkun smokka ávallt skynsamleg. Lifrabólga C er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis.
Grein fengin af síðu landlæknis og birt með góðfúslegu leyfi þeirra