Gefur þú blóð?

Blóðbankinn er einn af fjölmörgum hornsteinum íslenskrar heilbrigðisþjónustu. Að eiga alltaf tiltækt öruggt blóð og blóðhluta er ein af forsendum þess að Íslendingar geti notið þeirrar heilbrigðisþjónustu sem við gerum kröfu til í dag. Væntingar almennings um öryggi í heilbrigðisþjónustu koma mjög greinilega í ljós á vettvangi blóðbankaþjónustunnar.

Blóðhlutar

Blóðgjafi gefur 450 ml af blóði. Úr þessari einingu eru unnir þeir blóðhlutar sem sjúklingar fá, eftir að bætt hefur verið við næringarlausnum og sérhæfðri blóðhlutavinnslu, sem miðar að því að tryggja bestu mögulegu nýtingu blóðhluta og öryggi blóðþega. Úr hverri einingu blóðs eru unnir þrír aðalblóðhlutar: rauðkornaþykkni (rauðkorn), blóðvökvi (plasma) og blóðflöguþykkni (blóðflögur).

Rauðkornaþykkni

Í rauðkornaþykkni eru rauðu blóðkornin fljótandi í sérstakri næringarlausn sem tryggir geymslu blóðhluta í 6 vikur. Miklar framfarir hafa orðið í næringarlausnum á síðustu áratugum og er það lykillinn að svo löngum geymslutíma rauðkorna. Hlutverk rauðkornanna er að flytja súrefni til vefja, og því er rauðkornaþykkni notað við þær aðstæður að geta blóðsins til að bera súrefni til vefja er minnkuð s.s. vegna blæðingar eða sjúkdóma. Því er rauðkornaþykkni notað við fjölda aðgerða, vegna blæðinga um meltingarveg, vegna slysa og minnkaðrar blóðmyndunar. Ekki er sjaldgæft að sjúklingar þurfi 1-4 einingar við aðgerðir, en við bráð slys og miklar aðgerðir getur þurft nokkra tugi eininga. Þá er mikilvægt að eiga nóg blóð í blóðhlutabirgðum Blóðbankans!

Blóðvökvi (plasma)

Úr blóði er jafnframt unninn blóðvökvi (plasma) sem er notaður til að bæta upp storkuþætti í líkamanum, annaðhvort vegna storkugalla eða mikilla blóðskipta í stóraðgerðum og slysum. Þá er líkamanum lífsnauðsynlegt að fá storkuþætti til að stöðva blæðingar.

Blóðflögur- mikið notaðar við krabbameinsmeðferð.

Blóðflögur eru minnstu frumur blóðsins, en gegna engu að síður lífsnauðsynlegu hlutverki. Þessar kjarnalausu flögur eru með umfrymið hlaðið af mikilvægum efnum, sem tryggja viðloðun þeirra við æðavegg og aðrar blóðflögur ef þess gerist þörf í líkamanum. Ef við skerum okkur lítilllega á fingri er það starfsemi blóðflagnanna sem stöðvar blæðinguna skjótt og vel. Hjá þeim sem eru með gallaðar blóðflögur stöðvast blæðingin ekki, og minnstu áverkar geta orðið lífshættulegir. Hið sama gildir um sjúklinga sem fá erfiða krabbameinsmeðferð, t.d. vegna hvítblæðis og eitlakrabbameins. Sú meðferð sem helst gefur sjúklingunum lífsvon hefur svo alvarleg eitrunaráhrif á beinmerg sjúklingsins að blóðflöguframleiðslan (ásamt annarri mergstarfsemi) stöðvast tímabundið og getur liðið langur tími uns hún kemst í fyrra form. Þá er sjúklingnum lífsnauðsyn að fá blóðflöguþykkni. Ef blóðflöguframleiðslan stöðvast vegna meðferðar og blóðflögur eru ekki tiltækar getur minnsta áfall valdið dauða sjúklingsins. Þeir sem gefa blóð eru því að bjarga mannslífum.

Blóðbirgðir- eigum við nóg blóð?

Það verður aldrei nógsamlega minnt á þá staðreynd að við þurfum daglega a.m.k. 70 blóðgjafa hvern virkan dag til að geta haldið uppi þeirri heilbrigðisþjónustu sem við teljum sjálfsagða ef eitthvað hendir okkur eða okkar nánustu.
Hefur þú leitt hugann að því? Hefur þú gefið blóð nýlega? Þarft þú eða einhver þér nákominn að þiggja blóð á morgun? Hver veit? Það eru ekki einungis fórnarlömb slysa sem þarfnast blóðs. Við hjartaaðgerð er ekki óalgengt að þurfi 1-2 einingar blóðs, sama gildir um liðskiptaaðgerðir s.s. mjaðma- og hnjáaðgerðir. Nýburar á Vökudeild Barnaspítala Hringsins þurfa oft á rauðkornum að halda með reglulegu millibili um nokkurra vikna skeið. Þá útbýr starfsfólk Blóðbankans sérstakar nýburaeiningar með því að skipta einni einingu upp í 5 litlar einingar til að geta gefið sama nýbura blóð úr sama blóðgjafanum á nokkurra vikna tímabili. Þetta bætir nýtingu blóðsins og tryggir betur öryggi nýburanna.

Vilt þú hjálpa okkur? Þörfin er brýn!

Sveiflur í notkun blóðs eru miklar hér á landi með sama hætti og í nágrannalöndunum. Sveiflur í vilja þjóðarinnar til að gefa blóð eru ekki síður miklar. Erfitt er að ná til blóðgjafa yfir sumartímann þegar allir eru með hugann við sumarleyfi, og sömu sögu er að segja um vikurnar fyrir jól og aðrar hátíðir. Þá heyrist oft í starfsfólki Blóðbankans í fjölmiðlum, og við erum minnt á að alltaf er blóðhluta þörf, hvað sem líður fríi þeirra sem frískir eru.  Sjúkrahúsin sofa ekki á verðinum um hátíðar og í sumarleyfinu, það vill oft gleymast í hraða nútímaþjóðfélags, þar sem allt of fátt minnir okkur á að muna eftir öðrum, en við erum sífellt minnt á fleiri og einkennilegri leiðir til að muna eftir okkur sjálfum. Er það ef til villl tímanna tákn? Á hverjum degi er fjöldi sjúklinga sem þarfnast hjálpar til að geta lifað.
Kannski finnst okkur að þetta komi okkur ekki við en ef við spyrjum einhvern sem hefur verið í sporum þessara sjúklinga kynnumst við þakklæti þeirra til blóðgjafanna sem hafa ef til vill bjargað lífi þeirra.

Að meðaltali gefur hver íslenskur blóðgjafi u.þ.b. eina og hálfa einingu blóðs á ári hverju. Þetta er nokkuð svipað og víða tíðkast erlendis. Karlmenn geta hins vegar gefið blóð allt að fjórum sinnum á ári ef heilsa og járnbirgðir þeirra leyfa, þar sem konur mega hins vegar gefa þrisvar árlega. Þetta er vegna þess að af náttúrulegum orsökum hafa konur minni járnbirgðir í líkamanum en karlar.

Blóðgjöf er lífgjöf!

Í hvern skammt af blóðflögum  þarf blóð frá fjórum blóðgjöfum, og því auðreiknað hvað margir lífgjafar koma að því mannúðarstarfi að hjálpa krabbameinssjúklingum á erfiðri leið til heilbrigðis. Án þeirra væri ekki hægt að veita þessa meðferð. Leiðum við hugann að þessu þegar okkur vex í augum að verja 30-60 mínútum til þess að gefa blóð? Er þeim tíma betur varið til einhvers annars? Tæplega, að minnsta kosti þykir krabbameinssjúklingum gott til þess að vita að einhverjir eru reiðubúnir að sjá eftir tíma sínum og gefa blóð til að aðrir geti orðið heilbrigðir.

Heilbrigðir hjálpa sjúkum. Svörum við kallinu þegar þörf er á blóði?

Getum við með nokkrum öðrum hætti betur þakkað góða heilsu en með því að láta þá sem sjúkir eru njóta góðs af? Er það sjálfsagt að vera heilbrigður? Nei. Það er þakkarvert ef við njótum heilbrigðis. Er það sjálfsagt að aðrir hjálpi þeim sem sjúkir eru? Hvar erum við þá? Leiðum hugann að þessu, og gefum blóð – gefum líf ef heilsan leyfir! Þörfin er mikil, og blóðgjafar njóta þakklætis sjúklingsins sem berst fyrir lífi sínu á krabbameinsdeildinni eða foreldra litla barnsins á Vökudeildinni sem á sér ekki framtíðarvon nema með blóðgjöfum. Ættingjar þeirra sem lenda í lífshættulegum slysum óska þess að nóg sé til í Blóðbankanum og lofa í huganum þá sem stóðu þar að baki, þögul þakkarkveðja til blóðgjafanna fylgir í kjölfarið.

Leiddu hugann að þessu. Vertu velkomin(n) í Blóðbankann.

Þeir sem eru heilbrigðir, nota ekki lyf og eru á aldrinum 18-65 ára eru hvattir til að gefa blóð — gefa líf! Vart er hægt að hugsa sér betri gjöf.

Á vefsíðu Blóðbankans: www.blodbankinn.is eru nánari
upplýsingar og margvísleg fræðsla, og e.t.v. eitthvað til gamans.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE