Herpes á kynfærum orsakast af veiru (Herpes simplex II). Hún tekur sér bólfestu í rótum tauga en getur valdið útbrotum á eða við kynfæri. Önnur náskyld veira, Herpes simplex I, veldur með sama hætti áblæstri á vörum. Ekki er vitað með vissu hversu margir smitast af herpes hér á landi, né hversu margir bera sjúkdóminn. Ástæða er til að ætla að sjúkdómurinn sé talsvert útbreiddur.
Smitleiðir
Herpes á kynfærum smitast við slímhúðasnertingu kynfæra, venjulega við samfarir.
Einkenni
Fyrstu einkenni um smit eru sár á eða við kynfærin sem koma í ljós 2-20 dögum eftir samfarir sem leiddu til smits. Upphafið er lítill blettur og fylgir honum stundum töluverður kláði eða sviði. Síðan koma í ljós smáar blöðrur sem springa eftir u.þ.b. 2 daga. Oft vætlar úr sárinu og eftir verður samhangandi hrúður. Sárin geta valdið miklum verkjum og sviða. Eitlar í nára bólgna og verða aumir, aðallega við fyrstu sýkingu. Stundum fylgir þessu hiti. Sárin gróa eftir u.þ.b. 3 vikur. Hjá flestum sem smitast koma sárin þrisvar til fjórum sinnum á ári fyrstu árin eftir smit. Þegar sárin koma aftur eru einkennin oftast vægari en í fyrsta sinn og blöðrurnar hverfa eftir 3-7 daga. Eftir 10-15 ár hverfa einkennin oftast alveg.
Fylgikvillar
Við smit í fyrsta skipti getur herpessýkingin leitt til heilahimnubólgu. Stundum eru útbrotin það svæsin að erfitt er að hafa þvaglát og þarf þá að leggja sjúklinga á sjúkrahús í fáeina daga. Ef þunguð kona er með herpessýkingu við fæðinguna getur barnið smitast af herpes. Þarf þá að grípa til vissra varúðarráðstafana.
Greining
Oftast getur vanur læknir greint herpes með skoðun einni saman. Hægt er að taka sýni úr sári eða blöðrubotni með baðmullarpinna ef blaðran er minna en þriggja daga gömul. Niðurstöður þeirrar rannsóknar fást eftir u.þ.b. viku.
Meðferð
Ennþá er engin lækning til við herpes. Óþægindum er hins vegar hægt að halda í skefjum, t.d. með sótthreinsunarböðum eða deyfandi kremum. Ef óþægindi eru mjög mikil er hægt að nota lyf, bæði í töfluformi og útvortis, sem halda sjúkdómnum í skefjum og draga úr óþægindum.
Lestu fleiri áhugaverðar greinar á