Þótt verkur fyrir brjósti geti verið af ýmsum toga, svo sem frá hjarta, vélinda, stoðkerfi eða lungum, er kransæðastífla sá sjúkdómur sem oftast er mikilvægast að greina snemma eða útiloka. Af þeim sem fá bráða kransæðastíflu deyr um fjórðungur og allt að helmingur þeirra innan einnar klukkustundar frá upphafi einkenna. Dauðsföll skömmu eftir upphaf kransæðastíflu eru í meiri hluta tilfella vegna lífshættulegra hjartsláttartruflana sem oft er mögulegt að meðhöndla með lyfjum eða rafstuði. Þannig má koma í veg fyrir flest þessara dauðsfalla með sérhæfðri meðferð. Hún er hins vegar aðeins möguleg eftir að sjúklingur er kominn á sjúkrahús eða í gæslu sérþjálfaðra sjúkraflutningamanna. Á höfuðborgarsvæðinu er sérútbúin sjúkrabifreið með lækni innanborðs sem oftast sinnir útköllum vegna brjóstverkja.
Sjá einnig: Hvað er hjartaögn/hjartakveisa?
Einkenni
Dæmigerður brjóstverkur sem fylgir kransæðastíflu eða blóðþurrð í hjartavöðva er fyrir miðju brjósti, gjarnan með leiðni upp í háls, jafnvel kjálka og út í vinstri handlegg. Honum fylgir stundum ógleði, sviti eða jafnvel andnauð. Stundum er einkennum lýst sem seyðingi eða þyngslum í stað brjóstverkja. Sumir hafa þó einkenni sem ekki eru dæmigerð, t.d. verk sem leiðir aftur í bak, verk um ofanverðan kvið eða verk sem leiðir þvert yfir brjóst og jafnvel út í báða handleggi. Konur er líklegri en karlar til að hafa einkenni sem ekki eru dæmigerð. Þeir sem eru rosknir eða með sjúkdóm s.s. sykursýki fá stundum ekki verk heldur andnauð sem upphafseinkenni kransæðastíflu. Hjartaverkur kemur gjarnan fram við líkamlega áreynslu, andlegt álag, geðshræringu eða jafnvel eftir stóra máltíð. Hjá sumum getur verkur komið í hvíld. Algengast er að blóðþurrð í hjarta eða kransæðastífla komi fram hjá einstaklingum með ákveðna áhættuþætti sem eru m.a. ættarsaga um hjartasjúkdóma, reykingar, sykursýki, háþrýstingur og hækkaðar blóðfitur. Fyrir kemur þó að þeir sem hafa enga af ofangreindum áhættuþáttum fái kransæðasjúkdóm. Konum er jafnhætt við kransæðasjúkdómi og körlumen einkennin gera oft fyrr vart við sig hjá körlum, gjarnan milli fimmtugs og sextugs en hjá konum milli sextugs og sjötugs.
Sjá einnig: Hjartavandamál algengasta dánarorsökin á ferðalögum
Viðbrögð einstaklings við brjóstverk eru mikilvæg
Eftir að brjóstverkur gerir vart við sig líður gjarnan nokkur tími þar til að sjúklingur er kominn undir læknishendur. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að yfirleitt líða meira en tvær klukkustundir frá upphafi verkja og þar til að læknir metur sjúklinginn. Þeir sem eru að fá brjóstverk í fyrsta sinn eru líklegir til að draga það að leita sér aðstoðar. Þessi töf á að markviss meðferð hefjist skiptist gjarnan í þrennt:
1. Töf af völdum sjúklings, þ.e. sjúklingur gerir sér ekki grein fyrir alvarleika ástandsins eða afneitar vandanum og bíður með að leita sér læknishjálpar.
2. Töf sem verður vegna flutnings á næsta sjúkrahús.
3. Töf sem verður eftir að sjúklingur er kominn á sjúkrahús áður en markviss greining fer fram og meðferð hefst.
Af þessum þáttum er sú töf sem verður á því að sjúklingur leiti sér hjálpar oftast lengst. Stundum er unnt að nálgast greiningu og hefja fyrstu meðferð þegar í sjúkrabíl en viðbrögð eftir að sjúklingurinn er kominn á sjúkrahús skipta einnig verulegu máli. Á brjóstverkjamóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss við Hringbraut höfum við einsett okkur að fyrsta mat, þar með talið taka hjartalínurits, fari fram innan 10 mínútna frá komu sjúklings á spítalann.
Fyrsta matið er mjög mikilvægt með tilliti til ákvörðunar um meðferð. Sjúklinga með bráða kransæðastíflu er í mörgum tilfellum unnt að meðhöndla með sérhæfðri segaleysandi meðferð. Hún er oft mjög gagnleg til að opna stíflaða kransæð. Ávinningur slíkrar meðferðar er þeim mun meiri því skemmra sem liðið er frá upphafi einkenna. Mestur er ávinningur af segaleysandi meðferð ef hún hefst innan 4 klukkustunda frá upphafi einkenna og eftir 12 klukkustundir skilar slík meðferð litlum árangri.
Þeir sem fá skyndilegan verk fyrir brjóstið sem er stöðugur í nokkrar mínútur gætu verið með hjartaverk. Hafi þeir áður verið greindir með kransæðasjúkdóm eiga þeir oft nitroglyserin-töflur í fórum sínum. Ráðlagt er að taka eina töflu í senn undir tungu, allt að 3 töflur á 5 mínútna fresti til að reyna að slá á verkinn. Þeir sem hafa enn verk eftir 3 töflur af nitroglyserini ættu að leita læknis tafarlaust. Flestir hjartasjúklingar taka Magnyl eða Aspirín daglega. Ef þeir sem fá brjóstverk eru ekki á slíkri meðferð ættu þeir að tyggja Aspirín-töflu sem allra fyrst eftir að verkur byrjar. Aspirín dregur úr samloðun blóðflagna sem eiga stóran þátt í að stífla kransæð og slík meðferð er mjög árangursrík við kransæðastíflu.
Allir ættu að þekkja númer neyðarlínu (112). Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur og fá skyndilegan brjóstverk sem varir lengur en í fáar mínútur ættu að hringja á sjúkrabíl og láta flytja sig á sjúkrahús til athugunar. Slíkt gæti bjargað lífi þeirra.
Heimasíða Hjartaverndar www.hjarta.is
Lestu fleiri áhugaverðar greinar á