Margir nota upphaf nýs árs til að tileinka sér breyttan lífstíl og hætta að reykja. Þetta hentar sumum ágætlega en vænlegast til árangurs er að hver finni þann tíma sem hentar honum. Hér á eftir eru nokkur ráð sem geta vonandi auðveldað einhverjum að hætta að reykja og halda reykleysið út.
Fyrsta stig: Undirbúningur
Gott er að búa sig vel undir að hætta að reykja.
Þekktu reykingavenjur þínar: Gott getur verið að halda dagbók í viku um hvenær, hvar og hvers vegna þú reykir til að koma auga á þá þætti sem auka líkur á reykingum og forðast þá. Gott er að skrifa niður tillögur að því sem hægt er að gera í stað þess að reykja.
Ástæður þess að hætta: Gott er að skrifa á blað mikilvægustu ástæður þess að hætta, kostina og hvað þú telur þig öðlast í kjölfarið. Vertu alltaf með þetta við höndina.
Brjóttu upp vanann: Þegar ákveðið hefur verið að hætta er gott að byrja á að fækka þeim stöðum þar sem má reykja – búa til reyklaus svæði. Þau geta t.d verið heimilið, bíllinn o.s.frv. Hafðu svæðin sem flest til að brjóta upp vanann og þá verður baráttan auðveldari eftir að þú hættir.
Stuðningur: Sumir kjósa að hætta upp á eigin spýtur en gott er að vita hvar er hægt að fá stuðning, ef þörf er á, áður en að dagurinn rennur upp.
- Ráðgjöf í reykbindindi í síma 800 6030 er ókeypis símaþjónusta fyrir fólk sem vill hætta að nota tóbak. Þar starfa hjúkrunarfræðingar með sérþekkingu á tóbaksmeðferð. Þeir veita persónulega ráðgjöf, byggðri á reykingasögu þess sem hringir og þörfum hvers og eins. Þeir bjóða eftirfylgni, hvatningu og stuðning. Frá 2.-13. janúar er opið lengur en vanalega, eða á milli kl. 17 og 21 alla virka daga.
Annað stig: Að hætta
Að hætta er mikil ákvörðun en hún er fljót að borga sig, fjárhagslega og heilsufarslega.
Sjá einnig: Ætlar ekki að deyja úr sjúkdómi tengdum reykingum
Hér koma nokkur ráð til að styðjast við:
- Veldu dag til að hætta og stattu við hann.
- Hafðu listann yfir „hvers vegna þú ákvaðst að hætta“ alltaf við hendina.
- Ef þú ákveður að nota níkótínlyf hafðu þau þá við hendina þegar þú ákveður að hætta og farðu eftir leiðbeiningum.
- Drekktu mikið af vatni.
Mundu að þegar þú hættir að reykja skiptir hugarfarið öllu máli. Einbeittu þér alltaf að – og minntu þig á – jákvæðu hliðar þess að hætta og ekki hugsa um að þú sért að pína þig eða getir þetta ekki.
Þriðja stig: Að halda út
Að halda sér reyklausum er breyting á lífstíl og getur tekið á. Það er þó margt hægt að gera til auðvelda skrefin til reyklauss lífs.
- Ef þú tengir reykingar við sérstakar aðstæður, forðastu þær þá fyrst um sinn og prófaðu þig svo áfram. Gott er að vera búinn að ákveða viðbrögð við erfiðum aðstæðum.
- Taktu tíma fyrir sjálfa/-n þig á hverjum degi þar sem þú gerir eitthvað fyrir þig.
- Minntu þig reglulega á af hverju þú hættir.
- Nýttu þér stuðning annarra.
- Hugsaðu um sjálfa þig sem manneskju sem reykir ekki en ekki sem fyrrverandi reykingamann.
- Verðlaunaðu þig reglulega með peningunum sem þú sparar. Þú átt það skilið!
Sjá einnig: Hvað eldir þig jafn mikið og reykingar?
Frá Landlæknisembættinu
Höfundur greinar:
landlaeknir.is
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.