Yfirleitt er það snúningsáverki sem veldur ökklatognun. Tognunin verður oftast á utanverðum liðnum. Ökklinn bólgnar upp þegar blæðing verður undir húðinni og vefjunum í kring og þessu geta fylgt talsverðir verkir
Liðbönd
Liðbönd eru við alla liði líkamans og hlutverk þeirra er að halda liðunum stöðugum. Liðband er bandvefur, byggður upp af mörgum þráðum sem liggja langsum. Við tognun rifna þræðirnir að hluta. Ef liðbandið rifnar að fullu er talað um liðbandaslit.
Greining
Lýsing á óhappinu og læknisskoðun nægja oftast til að greina ökklatognun. Röntgenrannsókn er gerð ef líklegt þykir að um beináverka sé að ræða.
Sjá einnig: Þjáist þú af vöðvabólgu? – Orsök og úrræði
Meðferð
Setja kælingu strax á ökklann og hafa hátt undir fætinum. Þannig er blæðingu, bólgu og verkjum haldið í skefjum. Með kælingu er átt við að setja kælipoka á ökklann í 10-20 mín í einu á 1-2 klst fresti amk fyrsta sólarhringinn eða þangað til bólgan hjaðnar. Gott er fara í teygjusokk eða setja aðrar teygjuumbúðir frá tám upp á miðjan sköflung.
Viðeigandi umbúðir eru settar á eftir eðli áverkans. Algengustu umbúðirnar eru teygjusokkur sem gefur stuðning og dregur úr bólgumyndun. Ef fólk tognar illa eru stundum lagðar sérstakar þrýstiumbúðir og gipsspelka.
Umbúðir og verkir
Umbúðirnar eru yfirleitt hafðar á í 3-7 daga eða meðan mesta bólgan er að hjaðna. Sumir þurfa að koma í eftirlit á göngudeild en margir fá fyrirmæli um að taka umbúðirnar af sjálfir.
Talsverðir verkir geta fylgt ökklatognun. Umbúðir draga úr verkjum og einnig er gott að hafa hátt undir fætinum. Læknir mun ráðleggja verkjalyf við hæfi. Þeir sem ekki geta stigið í fótinn vegna verkja, bólgu eða umbúða þurfa hækjur í nokkra daga en í flestum tilvikum má stíga í fótinn eins og fólk treystir sér til. Eftir að umbúðir hafa verið fjarlægðar er oft mælt með reimuðum ökklaspelkum í 3-4 vikur og lengur ef fólk stundar íþróttir. Stoðtækjafyrirtæki og sum apótek selja reimaðar ökklaspelkur í nokkrum stærðum.
Eftir u.þ.b. 2 vikur geta flestir gengið eðlilega en liðböndin gróa á 5-6 vikum. Rétt er að hlífa ökklanum við miklu álagi, svo sem íþróttaiðkun á þessu tímabili.
Forvarnir
Mikilvægt er að þjálfa upp vöðvana í kringum ökklaliðinn. Jafnvægis- og styrktaræfingar eru nauðsynlegar þegar mesta bólgan hefur runnið af fætinum.
Þeir sem stunda íþróttir ættu að nota ytri stuðning, t.d. ökklasokk, plástrun eða reimaðar ökklaspelkur í allt að 12 vikur eftir áverkann. Læknir eða sjúkraþjálfari veita frekari ráðgjöf í slíkum tilvikum.
Góð ráð
- Ekki er ráðlegt að sofa með teygjusokkinn á fætinum.
- Ekki láta fótinn hanga meðan ökklinn er bólginn.
- Væg verkjalyf fyrstu dagana nægja oftast til að halda verkjum í skefjum.
- Krepptu og réttu tær eins oft og þú þolir.
- Stígðu í fótinn eins og sársauki leyfir og gerðu eftirfarandi æfingar 5-6 sinnum á dag:
- Stattu á hæl og tám til skiptis.
- Gerðu hnébeygjur og láttu hælinn nema við gólf á meðan.
- Stattu í tognaða fótinn og haltu jafnvægi í 1-5 mínútur. Þegar bólgan er að mestu horfin má bæta við æfingum, svo sem að hjóla á þrekhjóli, synda og ganga á tám og hælum.
Batahorfur
Ef farið er eftir ráðleggingum, fætinum hlíft til að byrja með og farið varlega af stað í íþróttaiðkun eru góðar líkur á fullum bata. Við endurteknar tognanir getur komið los í liðinn og þá er þörf á sérstakri meðferð. Sumir geta þurft frí frá vinnu í nokkra daga.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.