Skíðaferðalög eru skemmtileg en hjá mörgum enda þau með ósköpum. Árlega beinbrotna margir á skíðum. Oftast hnébrjóta menn sig eða ökklabrjóta, fingurbrjóta sig eða viðbeinsbrotna, en alvarlegri slys eins og höfuðkúpubrot og þaðan af verri, eru sem betur fer fátíð. Ekki er algerlega hægt að koma í veg fyrir slys en með forsjálni er hægt að fækka þeim svo um munar. Forsjálni og varkárni eru lykilorðin.
Nokkur heilræði
- Ekki fara ótroðnar slóðir.
- Hvílið ykkur þegar þreytan segir til sín.
- Ekki fara á skíðum í vondu veðri og slæmu skyggni.
- Látið vita af ferðum ykkar.
- Áfengi og skíðaiðkun eiga enga samleið.
Sjá einnig: Baráttan við sófann
Æfing og þjálfun
Hvort sem menn iðka skíðahlaup eða alpagreinar er nauðsynlegt að vera vel á sig kominn líkamlega. Ef þrekið er lítið, sækir þreytan fyrr að og einbeitingin minnkar. Við það eykst slysahættan. Því er betra að stunda æfingar, svo að maður sé í góðri þjálfun, áður en haldið er af stað. Þrekið er hægt að auka með hlaupum, þolfimi, æfingum í skíðafélögum eða stunda þá íþrótt sem stendur manni næst. Þar að auki skal gæta þess að þjálfa þá vöðva sem mest mæðir á þegar verið er á skíðum, sérstaklega lærvöðvana. Auk góðrarþrek- og líkamsþjálfunar er mikilvægt að þjálfa jafnvægi og samhæfingu. Æfingabretti er góð fjárfesting sem hægt er að nota til endurþjálfunar ef maður hefur snúið ökklann. Það er hægt að þjálfa jafnvægið án þess að nota æfingabretti. Æfið ykkur að standa á öðrum fæti og beygja ykkur í hnánum eða ganga og standa á tánum. Hægt er að gera sér æfingarnar erfiðari með því að hafa augun lokuð. Þegar komið er á skíðasvæðið er mikilvægt að spara kraftana svo maður verði ekki úrvinda. Upplagt er að taka sér smáhlé yfir daginn eða taka sér frí hálfan dag. Bæði vegna þess að slysahættan eykst þegar menn eru þreyttir og líka vegna þess að flestir ætla sér að dvelja eina viku í skíðafríinu. Ekki fara ótroðnar slóði, haldið ykkur við merktar brautir og brekkur. Það er heillandi að fara ótroðnar slóðir en ár hvert fyrirgera margir lífinu af þeim sökum. Ekki fara á skíði í vondu veðri og slæmu skyggni. Þeir sem ætla í langar skíðagöngur eiga alltaf að láta vita hvaða leið þeir ætla að ganga.
Hvað er ráðlegt að hafa meðferðis þegar lagt er í skíðaferð?
Minnismiði:
- Teygjubindi
- Sólarvörn
- Plástur á blöðrur
- Nærföt sem hleypa lofti í gegn
- Vindjakki
- Verkjatöflur
- Sólgleraugu, m.a. til að komast hjá snjóblindu
Lestu fleiri áhugaverðar greinar á