Aðeins eitt líf

Unglingsárin eru flestum erfiður aðlögunartími. Þá færðu nýtt hlutverk í þjóðfélaginu, eignast nýja vini, þarft að venjast breytingum á líkama þínum og taka ákvarðanir varðandi framtíðina. Þegar þú leitar svara við vandamálum lífsins er oft eins og enginn viti hvað segja skal. Það getur gert mann afar einmana.

Ef þú verður fyrir sárri reynslu, t.d. ef þú ert auðmýkt/ur, lítillækkuð/aður eða niðurlægð/lægður fyrir framan vini þína, stendur þig illa í prófum í skólanum eða stendur andspænis því að foreldrar þínir eru að skilja, er hugsanlegt að þú verðir þungur í lund og farir ef til vill að velta því fyrir þér, hvort lífið sé þess virði að lifa því. Hugsaðu þá um þann margreynda sannleika, að tíminn læknar öll sár.

Á svo erfiðum tímum þarfnast þú e.t.v. stuðnings til að kikna ekki. Ef þú ert leiður eða þunglyndur skaltu tala um það við einhvern, helst einhvern sem hefur sérstaka þekkingu á geðrænum erfiðleikum eins og lækni og er því líklegur til að geta veitt þér mesta aðstoð. Það getur líka verið til hjálpar að tala við einhvern sem þú treystir, náinn vin, sálfræðing eða prest.

Þunglyndi er mjög algengt, jafnvel meðal unglinga. Það getur haft áhrif á heilsufar þitt og skólanám. Enn alvarlegra er að þunglyndu fólki hættir til að fremja sjálfsmorð. En með réttri meðferð batnar langflestum þunglyndi á um 4 vikum.

Þunglyndiseinkenni

Allir hafa geðsveiflur og finna stundum til dapurleika. Ef dapurleikinn varir lengur en í tvær vikur getur alvarlegt þunglyndi verið í uppsiglingu.

Ef nokkur neðangreindra atriða eiga við þig skaltu íhuga að leita aðstoðar og tala um líðan þína við lækni, sálfræðing eða einhvern fullorðinn sem þú treystir, náinn aðstandanda eða prest.

  • Ég sef miklu lengur en vanalega.
  • Ég sef ekki vel.
  • Ég vakna snemma á morgnana.
  • Ég sofna oft á daginn.
  • Matarlyst mín hefur breyst, ég hef greinilega lést eða þyngst.
  • Ég er eirðarlaus.
  • Ég hef einangrast frá vinum og fjölskyldu.
  • Ég á erfitt með að einbeita mér.
  • Ég hef misst áhuga á því sem ég hafði áður gaman af.
  • Ég hef glatað voninni.
  • Ég hef sektarkennd.
  • Ég hef breyst í skapi og haga mér öðruvísi.
  • Ég var áður rólegur, en nú þjáist ég af eirðarleysi.
  • Áður var ég félagslyndur en nú er ég mest út af fyrir mig.
  • Mér finnst lífið ekki þess virði að lifa því.

Ungt fólk sem hefur gert tilraun til sjálfsmorðs eða hefur á orði að fremja sjálfsmorð er í meiri hættu en aðrir. Hlustið eftir ábendingum eins og „það væri betra að ég væri dáinn“ eða „ég verð ykkur ekki til vandræða mikið lengur“ eða „ekkert skiptir máli, þetta er tilgangslaust“.

Unglingar sem hugleiða sjálfsmorð eru oftast einmana, vonlausir og finnst sér hafnað. Meiri hætta er á að þetta komi fyrir unglinga sem hafa verið beittir ofbeldi, hafa nýlega verið niðurlægðir fyrir framan fjölskyldu eða vini, eða ef foreldrar þeirra misnota áfengi eða lyf, kemur mjög illa saman eða hafa skilið. Unglingur getur þó verið þunglyndur og í sjálfsmorðshugleiðingum án þess að um nokkuð slíkt hafi verið að ræða.

Meiri hætta er á að unglingar, sem nota áfengi eða vímuefni, hugleiði eða geri tilraun til sjálfsmorðs og fremji sjálfsmorð en þeir sem nota ekki áfengi eða vímuefni. Athuganir hafa leitt í ljós að meirihluti þeirra sem fyrirfara sér eru undir áhrifum áfengis. Áfengi eykur þunglyndistilfinningar, skerðir dómgreind og dregur úr hvatastjórn.

Unglingar undirbúa stundum sjálfsmorð með því að gefa hluti sem þeir eiga eða farga þeim á annan hátt, taka til og þrífa herbergi sín o.s.frv. Þeir eru á sinn hátt að ganga frá sínum málum eftir dauðann. Þeir verða stundum glaðlegir, allt í einu, eftir að hafa verið daprir um tíma vegna þess að þeim finnst þeir hafi fundið lausn vandamála sinna með því að ákveða að binda endi á líf sitt.

Það sem veldur mestu hættunni á sjálfsmorði unglings er að verða fyrir missi eða niðurlægingu: Til dæmis má nefna þann missi á sjálfstrausti og sjálfsvirðingu sem oftast fylgir í kjölfar þess að ganga illa á prófi í skóla, að slitni upp úr ástar- eða vináttusambandi eða að foreldrar skilji.

Fleira um orsakir

Telja má víst að orsakir þunglyndis og tilhneigingar til að fremja sjálfsmorð séu bæði líffræðilegar og sálfræðilegar. Líffræðilegar rannsóknir benda til að þunglyndi tengist truflun í boðefnakerfum heilans. Einnig virðist árásargirni og hömluleysi tengjast því að óvenju lítið af boðefninu serotónín sé í heilanum. Þeir sem hafa þessi skapgerðareinkenni gera oftar en aðrir alvarlegar tilraunir til sjálfsmorðs eða fyrirfara sér.

Sjá einnig: Kvíðaraskanir hjá börnum og unglingum

Það er einnig áhættuþáttur ef einhver í fjölskyldu ungrar manneskju hefur framið sjálfsmorð. Verið getur að þetta byggist á því að ungt fólk sér sjálft sig í þeim sem eru því nákomnir og tekur þá sér til fyrirmyndar. Þetta á sér þó líffræðilega skýringu að einhverju leyti, þv&iac ute; það er sex sinnum algengara að líffræðilegir ættingjar þess sem framið hefur sjálfsmorð geri sjálfsmorðstilraun eða fyrirfari sér heldur en aðrir í fjölskyldunni sem ekki eru líffræðilega skyldir þeim látna, t.d. fósturbörn.

Sjálfsmorðum ungs fólks hefur fjölgað

Sjálfsmorð unglinga er mjög alvarlegt vandamál. Hér á landi eru sjálfsmorð önnur algengasta dauðaorsök ungra karla, 15-24 ára, næst á eftir slysum. Margir telja að í þessum aldurshópi séu sjálfsmorð jafnvel enn algengari en séu vanskráð og þá talin með slysum. Á síðustu tveimur áratugum hefur fjöldi sjálfsmorða ungs fólks hérlendis tvöfaldast en ekki er ljóst hverjar orsakir þessa eru.

Sjálfsmorð eru margfalt algengari meðal ungra manna en kvenna. Hins vegar er algengara að ungar konur geri tilraun til sjálfsmorðs.

Það hefur komið fyrir að í kjölfar sjálfsmorðs ungs einstaklings hafi vinir hans eða skólafélagar fyrirfarið sér.

Hvernig er hægt að hjálpa?

Flestir sem eru þunglyndir og hugleiða sjálfsmorð tala ekki um það hvernig þeim líður. Þeim finnst þeir vera einskis virði og að þeir eigi sér enga von. Þeir fela tilfinningar sínar og álíta að það að ræða um þær verði öðrum aðeins byrði og að öllum sé sama um líðan þeirra. Stundum eru þeir líka hræddir um að það verði hent gaman að þeim.

Þetta er skiljanlegt því stundum bregst fólk við með því að láta sem um grín sé að ræða eða vilja ekki hlusta á það þegar einhver talar um þunglyndi, vonleysi eða sjálfsmorð. Slík viðbrögð gera auðvitað illt verra.

Sjá einnig: Húð unglinga og sjálfsmynd

Ef vinur þinn eða ættingi talar um sjálfsmorð við þig skaltu taka það alvarlega, því það getur verið dauðans alvara. Gefðu þér því góðan tíma til að ræða við hann. Hughreystu hann og reyndu að sýna honum fram á að hann geti fundið einhvern til að ráðfæra sig við. Einhver í fjölskyldunni, vinur, prestur, læknir eða kennari/námsráðgjafi er áreiðanlega tilbúinn til að hlusta og hjálpa. En það getur verið erfitt að láta aðra vita um svo viðkvæmt og alvarlegt málefni sem tilfinningar okkar, sérstaklega leiða, depurð, kvíða, vonleysi og löngun til að deyja. Því er nauðsynlegt, ef þú verður var við einhver þessara einkenna hjá þér nákomnum að láta strax einhvern ábyrgan vita til að tryggja að hann fái viðeigandi hjálp sem fyrst. Það er ekki ráðlegt að halda ræðu yfir viðkomandi eða benda honum á allt sem gerir líf hans þess virði að lifa því. Þess í stað skaltu gefa þér tíma til að hlusta vel og gaumgæfilega. Hughreystu hann svo og segðu honum að hægt sé að lækna þunglyndi og allt sem því fylgir með viðtalsmeðferð eða viðeigandi lyfjum.

Lyf við þunglyndi verka oft á tveimur til þremur vikum og oft er viðtalsmeðferð og lyf notuð saman. Langflestir þeirra er þjást af þunglyndi ná aftur heilsu sinni við slíka meðferð.

Læknisþjónusta

Heimilislæknar og heilsugæslulæknar þekkja vel til þunglyndis. Geðlæknar eru sérmenntaðir til að lækna þunglyndi og aðra geðsjúkdóma. Margir geðlæknar vinna á lækningastofum í Reykjavík og á Akureyri starfa einnig geðlæknar. Á geðdeild Landspítalans, sími 560 1000 og 525 1000 er geðlæknisþjónusta allan sólarhringinn.

Símaþjónusta Rauða kross hússins

Ef þér liggur eitthvað á hjarta eða líður illa, endilega hafðu samband við símaþjónustu Rauða kross hússins og ræddu málin. Síminn er opinn allan sólarhringinn.

Grænt númer 800 5151

Útgefandi: Geðverndarfélag Íslands, Hátúni 10, 105 Reykjavík.

 

SHARE