Kvef er veirusýking í efri loftvegum (nefi og hálsi) sem stendur oftast í þrjá til sjö daga og er líklega algengasti sjúkdómur sem herjar á menn. Að meðaltali fær hver fullorðinn einstaklingur kvef tvisvar til fjórum sinnum á ári og börn á skólaaldri allt að 12 sinnum á ári. Margar tegundir veira geta valdið kvefi en algengastar eru svokallaðar rhinoveirur (yfir 100 tegundir) og eru þær hvað virkastar vor, sumar og haust, coronaveirur (yfir 30 tegundir) eru virkastar vetur og vor en á haustin og veturna eru algengar orsakir kvefs parainflúensuveira og RS-veira.. Líklegt er að meiri innivera í lokuðum rýmum og skólahald yfir haust- og vetrarmánuðina skapi aðstæður fyrir kvefveirur til að berast hratt og örugglega á milli manna.
Veirurnar berast á milli manna með dropum úr öndunarvegi við hósta og hnerra. Dropaúðanum er annað hvort andað inn beint eða hann kemst á hendur með snertingu t.d. með handabandi eða með snertingu við hluti í umhverfinu sem hafa mengast, t.d. hurðarhúna, og kemst í slímhúð í öndunarvegi þegar viðkomandi snertir nef sitt eða augu. Þeir sem eru útsettir fyrir kvefveirum sýkjast í 95% tilfella en aðeins 75% fá einkenni.
Einkenni
Einkenni byrja 1–2 dögum eftir sýkingu oftast með særindum í hálsi síðan kemur hnerri, nefrennsli, nefstíflur og hósti. Þessu fylgir oft vægur höfuðverkur, slappleiki og þreyta. Kvef varir að jafnaði í 3–7 daga, en hósti, sem fylgir oft í kjölfarið, getur staðið lengur, jafnvel í allt að þrjár vikur. Eftir að viðkomandi hefur jafnað sig hefur hann myndað ónæmi gegn veirunni sem olli kvefinu en það ónæmi ver hann ekki fyrir öllum hinum kvefveirunum og getur hann því fengið annað kvef strax í kjölfarið.
Fyrirbygging
Ónæmiskerfi hvers og eins ver hann gegn sýkingum og vinnur á veirunum sem valda kvefinu hverju sinni. Til að halda ónæmiskerfinu heilbrigðu er mikilvægt að lifa sem heilsusamlegustu lífi, borða hollan mat, sofa nægilega vel og forðast streitu.
Rjúfa smitleiðir
Mikilvægt er að þeir sem eru með kvef noti bréfþurrkur til að byrgja nef og munn við hnerra og hendi notuðum þurrkum í lokaðan poka eða fötu og þvoi hendur sínar vandlega á eftir.
Til að fyrirbyggja smitun er tíður og almennur handþvottur besta vörnin. Til handþvottar þarf vel volgt vatn og sápu og nudd á öll svæði beggja handa í 15–20 sekúndur, skola og þurrka vel með hreinu handklæði eða pappírsþurrku. Sé aðstaða til handþvotta ekki fyrir hendi má nota sótthreinsunarefni fyrir hendur, annað hvort í fljótandi eða gel-formi eða í þar til gerðum þurrkum. Mikilvægt er að foreldrar kenni og brýni fyrir börnum sínum vandaðan handþvott því „það sem ungur nemur, gamall temur“.
Sjá einnig: Handþvottur – Einföld leið til að halda heilsu
Meðferð
Meðferð miðast að linun einkenna, þ.e. hvíla sig, losa um stíflur í nefi, mýkja hálsinn og e.t.v. að taka verkjalyf gegn höfuðverkjum. Engin sértæk lyfjameðferð er til við kvefi því sýklalyf hafa engin áhrif á veirur sem valda því. Sé þrátt fyrir það tekið sýklalyf gegn kvefi, getur það haft í för með sér að eðlilegur bakteríugróður í líkama viðkomandi einstaklings raskast en það getur leitt til sýkinga af óæskilegum bakteríum. Almennt talað leiðir óhófleg og ómarkviss sýklalyfjanotkun til að algegnar bakteríur verða ónæmar fyrir mikið notuðum sýklalyfjum. Komi hins vegar upp fylgisýkingar í kjölfar kvefsins, s.s. eyrnabólga geta sýklalyf verið nauðsynleg.
Kvef eða flensa?
Margir kalla allar kvefpestir flensu en það er óheppilegt, þar eð orðið flensa er stytting úr sjúkdómaheitinu inflúensa, sem er sjúkdómur sem hefur mun meiri áhrif á líkamann heldur en kvef og gera verður skýran greinarmun þar á milli. Einkenni um inflúensusmit byrja yfirleitt mjög snögglega og eru oftast hár hiti, þreyta og miklir verkir í höfði, vöðvum og liðum ásamt hálsbólgu og nefrennsli. Inflúensa getur leitt til alvarlegra fylgikvilla, s.s. lungnabólgu og þess vegna er boðið upp á bólusetningu á hverju ári, einkum fyrir þá sem eru í aukinni hættu á að fá inflúensu (með langvinna sjúkdóma eða eru eldri en 60 ára). En smitleiðir inflúensuveira og kvefveira eru þær sömu í meginatriðum og því er brýning hreinlætis við hnerra og hósta og hvatning til handhreinsunar, aldrei of oft kveðin.
Lestu fleiri áhugaverðar greinar