Hvað er núvitund?

Núvitund er aldagömul hugleiðsluaðferð sem á rætur að rekja til Búddisma þar sem við   höfum athyglina í núinu á opinn og virkan hátt.  Núvitund þýðir að vera með hugsunum sínum eins og þær eru, án þess að grípa þær eða ýta þeim burt. Í stað þess að láta lífið líða hjá án þess að lifa því, vöknum við til meðvitundar og upplifum það á virkan hátt. Börn eru almennt  meira hér og nú en fullorðnir því núvitund er að upplifa heiminn beint en ekki í gegnum hugsanir og hugtök. Rannsóknir hafa gefið vísbendingu um að meðferðir sem byggja á núvitundariðkun reynast vel við ýmsum heilsufarsvandamálum og ekki síst við andlegum vandamálum svo sem streitu, þunglyndi og kvíða.

Rannsókn geðlæknisins Daniel Stern sýndi að núlíðandi stundir án truflana vara á bilinu 1-10 sekúndur og hugur okkar getur meðtekið 126 upplýsingar á sekúndu. Samt er miklu meira í umhverfinu sem við tökum ekki eftir. Fyrsta skrefið í núvitund er að slökkva á sjálfsstýringunni og taka eftir því þegar hugurinn reikar. Hugur okkar er oft meira fjarverandi en á staðnum. Því fyrr sem við tökum eftir því þeim mun árangursríkari verðum við í iðkun núvitundar.

 

Sjá einnig: 10 leiðir til að fá líf þitt aftur

Læknirinn og frumkvöðullinn Jon Kabat-Zinn innleiddi núvitundariðkun inn í vestrænt heilbrigðiskerfi, sem meðferð við streitu og langvinnum verkjum.

6 þættir núvitundar samkvæmt honum eru

Hlutleysi gagnvart því sem upplifað er, fyrsta skrefið í átt að þessu hlutleysi er að iðkandinn gerir sér grein fyrir því hvernig hugur hans dæmir stöðugt allt sem hann upplifir. Samkvæmt Kabat-Zinn kemur það flestum mjög á óvart þegar þeir átta sig á því hvernig hugur þeirra dæmir stöðugt allt sem þeir upplifa. Hann segir jafnframt að þessi inngróni vani hugans að dæma stöðugt allt sem upplifað er haldi einstaklingnum í heljargreipum sjálfvirkra viðbragða. Þegar einstaklingur hefur núvitundariðkun getur hann ekki stöðvað hugann í því að dæma, heldur er aðalatriðið að byrja á því að auka meðvitund um það hvernig hugurinn dæmir stöðugt.

Þolinmæði er eitt form viskunnar og gefur til kynna að einstaklingur skilji og viðurkenni þá staðreynd að allt verði að hafa sinn tíma. Það að temja sér þolinmæði felur í raun í sér að vera opinn fyrir hverju augnabliki og gangast við því nákvæmlega eins og það er.

Opinn hugur felst í því að einstaklingurinn þjálfi sig í því að sjá allt eins og hann sé að sjá það í fyrsta sinn.

Traust. Kabat-Zinn leggur áherslu á það að einstaklingur þrói með sér traust á sjálfan sig og sínar tilfinningar. Lögð er áhersla á að betra sé að treysta á eigin visku og innsæi en að vera alltaf að leita út á við eftir réttu svörunum.

 Áreynsluleysi. Iðkandi skyldi ekki reyna að þvinga fram breytingar því í raun sé hann fullkominn nú þegar. Sá sem iðkar núvitund þarf ekki að breyta neinu heldur aðeins að þjálfa sig í því að taka eftir því sem er nú þegar.

Að gangast við því sem er. Iðkandi skyldi ekki ýta því frá sér sem honum finnst óþægilegt. Mesta þjáningin sé fólgin í afneitun gagnvart því sem er óþægilegt, að berjast gegn því sem er hér og nú og vilja að hlutirnir séu öðruvísi. Þegar einstaklingur gengst við sjálfum sér og veruleika sínum eins og hann er á hverju augnbliki þá er hann í raun að sýna sjálfum sér mikla góðvild. Það að þjálfa sig í því að sleppa tökunum er mjög mikilvægur hluti af núvitundariðkun. Einstaklingar þurfa að æfa sig í því að sleppa tökunumá því að vilja stöðugt breyta augnblikinu og í stað þess leyfa augnablikinu að vera eins og það er. Þegar einstaklingur fer að iðka núvitund með þessum hætti fer eitthvað að breytast.

 

Sjá einnig: Er ég andleg eða „andleg“?

Kostir þess að iðka núvitund

Ellen J. Langer prófessor við Harvard Háskóla hefur í fjölda ára rannsakað fyrirbærið núvitund. Samkvæmt Langer nota flestir aðeins 10-15% af huganum  en með núvitund er hægt að auka notkun hugans til muna. Fólk sem stundar núvitund á auðveldara með að setja sig í spor annarra, hefur meiri sjálfsvirðingu og á auðveldara með að sætta sig við eigin ókosti. Það upplifir neikvæða endurgjöf ekki sem ógn og á auðveldara með að aðlagast nýjum aðstæðum.

 

Markmið þess að notast við núvitund er að bæta lífsgæði. Kostir þess að iðka núvitund eru ótal margir  en núvitund er einnig talin geta

  • Minnkað streitu
  • Dregið úr einkennum kvíða og þunglyndis
  • Bætt minni
  • Haft gagnleg áhrif á athyglisbrest (ADHD)
  • Dregið úr verkjum
  • Stuðlað að betri lærdómsgetu
  • Dregið úr hættu á hjarta-og æðasjúkdómum
  • Styrkt ónæmiskerfið
  • Haft gagnleg áhrif sem viðbót við fíknimeðferð
  • Aukið leiðtogafærni
  • Hækkað sjálfsálit
  • Bætt samskipti við annað fólk

 

Hægt er að gera núvitund hluta af daglegri rútínu, hægt er að sækja ýmis námskeið um núvitund hjá fagaðilum en einnig hafa margar bækur verið skrifaðar um efnið.

Núvitund er hægt að iðka á hvaða stundu sem er með því að veita því sem er að gerast hér og nú athygli. Staldraðu við og taktu eftir augnablikinu. Hvað sérðu? Hvað heyrirðu? Hvaða lykt finnurðu? Það skiptir ekki máli hvernig tilfinningin er,  þægileg eða óþægileg, slæm eða góð, þú skoðar hana einfaldlega um það snýst núvitund.

Höfundur greinar:

Stefanía Ösp Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur

Allar færslur höfundar

 

SHARE