Morgundagur, útgáfufélag Fréttatímans, hefur keypt vefinn hún.is. Samhliða hefur Morgundagur gert samning við Móberg, fyrrum eigenda hun.is, um sölu á almennum auglýsingum inn á bland.is og 433.is.
„Það er tvennt sem við sjáum í þessu,“ segir Gunnar Smári Egilsson, útgefandi Fréttatímans. „Annars vegar mun samningurinn efla auglýsingasölu Morgundags á vefnum og skapa þar með tækifæri til að byggja upp fjölda vefsvæða í framtíðinni. Hins vegar fellur hun.is vel að ráðagerðum okkar um að eiga og reka fjölbreytta flóru af vefsvæðum í framtíðinni.“
Gunnar Smári segir að með hún.is komi gott starfsfólk sem muni ekki aðeins halda áfram að þjóna notendum hun.is heldur muni efla og styrkja aðra útgáfu á vegum Morgundags.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.