Fékk kjarnorkusýklalyf í æð

Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur var í Istanbúl á dögunum þar sem hann var viðstaddur ljóðahátíð. Eiríkur veiktist í þessari ferð.

„Ég hélt fyrst að ég væri hugsanlega með matareitrun eða bara meltingartruflanir. Þetta byrjaði nóttina áður en ég flaug heim,“ segir Eiríkur sem fór beint í apótek þegar heim var komið og fékk lyf sem slógu aðeins á verkina. Þegar leið á vikuna á eftir og Eiríkur var kominn í heimabæ sinn, Ísafjörð, fóru verkirnir hins vegar versnandi.

„Á föstudagskvöldið fór ég að gúgla og komst að því að líklega væri ég með einhvers konar botnlangabólgu. Ég hef ekki farið til læknis í tuttugu ár og einhvern veginn eru skrefin lengri eftir því sem lengra er liðið frá því að maður fór; svo ég hringdi ekkert upp á Heilsugæsluna á Ísafirði fyrr en á mánudeginum,“ segir Eiríkur sem var í kjölfar skoðunar á þriðjudeginum lagður inn. Kom þá í ljós að Eiríkur hafði fengið botnlangakast sem er samt staðbundið og sýkingin bundin botnlangann eingöngu.

„Það er hætt við að sýkingin breiði úr sér ef þau opna. Þess vegna var ég settur á einhver kjarnorkusýklalyf í æð eins lengi og líkaminn bara þoldi það. Þetta er þá bara alveg steindrepið og svo leyft að liggja,“ segir Eiríkur og bætir við að hann muni ekki fara í uppskurð á botnlanganum fyrr en í haust og botnlanginn eigi að geta verið til friðs þangað til. „Ég hefði hugsanlega verið skorinn í sumar en ég verð væntanlega á miklu flakki í sumar svo ég vona að ég haldi heilsu þangað til í haust,“ segir þetta önnum kafna ljóðskáld.

Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE