Guide to Iceland er ferðaheimasíða sem sameinar á einum stað, allt það sem þau fjölmörgu leiðsögufyrirtæki, víðsvegar um landið hafa upp á að bjóða. Síðan hlaut verðlaun Nexpo, um helgina, sem vefur ársins 2012. Einn af stofnendum síðunnar er Elmar Johnson en hann var einmitt í Heita Pottinum hjá okkur á föstudaginn.
„Við erum um 25 manns sem að komum að síðunni á einn eða annan hátt,“ segir Elmar í samtali við Hún.is. „Hugmyndin kviknaði í rauninni útfrá því að við, sem stöndum að síðunni, erum öll vel alþjóðavædd og vanir ferðalangar. Þegar hugmyndin var þróuð gáfum við því gaum sem við töldum að vantaði þegar kemur að landkynningu og sölu á þeirri þjónustu sem í boði er á landinu og byggðum það að vissu leyti á því sem að við sjálf sem ferðalangar hefðum viljað að væri í boði fyrir okkur í gegnum tíðina.“
Á síðunni geta ferðalangar komist í beint samband við Íslendinga, sem veitt geta ítarlega og persónulega liðsinnan, ásamt því að ferðamenn geta sjálfir gengið í hlutverk leiðsögumanns eftir komu sína til landsins með því að skrifa umsagnir og ferðasögur. Á síðunni er einnig að finna umfangsmikinn leiðarvísi sem sífellt stækkar og inniheldur upplýsingar um allt á milli himins og jarðar er viðkemur landi og þjóð.
„Guide to Iceland er opið öllum þeim sem að vilja taka þátt í og telja sig eiga erindi við ferðaþjónustu á Íslandi og hvetjum við alla þá aðila að hafa samband við okkur,“ segir Elmar að lokum.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.