Nýr ritstjóri Séð og heyrt með son sinn í vinnu

„Ég fékk ágætis uppeldi hjá Eiríki. Það verður ekki af honum tekið,“ segir Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir sem í vikunni tók við starfi ritstjóra Séð og heyrt af Eiríki Jónssyni.

„Ég hlakka heilmikið til og er spennt. Ég hef tengst blaðinu lengi, eins og ég hef áður sagt, sem fyrrverandi Séð og heyrt stúlka innan gæsalappa og starfsmaður á blaðinu,“ segir Ásta sem var á hárgreiðslustofunni þegar amk náði af henni tali, að láta „mála yfir gráu hárin,“ eins og hún orðaði það í léttum tón.

Ásta Hrafnhildur var þekkt á árum áður sem umsjónarmaður Stundarinnar okkar og var þá oft til umfjöllunar í Séð og heyrt. Nú er hún ritstjóri blaðsins. Mynd/Rut

Ásta segir að Séð og heyrt eigi að vera gleðisprengjublað. „Við eigum að halda í gleðina, glimmer og glamúrinn. Ég vil til dæmis fá fleiri fréttir af landsbyggðinni, ekki bara kokteilpartí í 101 þó þau verði auðvitað áfram vinsæl. Þetta verður bland í poka fyrir alla.“

Nú hefur forveri þinn í starfinu stundum verið umdeildur og hann verður seint talinn allra. Heldurðu að þú verðir jafn umdeild?
„Ég held að ég hafi ekki verið það hingað til og vonandi verð ég það ekki núna. Það er alla vega ekki markmiðið að koma mér í þá stöðu. Það hefur hver sinn stíl. Margir fíla Eirík og finnst broddurinn og oddurinn skemmtilegur en það er ekki minn stíll. Við eigum að gleðja en ekki meiða,“ segir Ásta sem boðar þó hresst blað undir sinni stjórn.

Ásta Hrafnhildur er með Garðar, son sinn, í vinnu sem blaðamann á Séð og heyrt.

„Við viljum fylgjast vel með glaumlifnaði frægra Íslendinga. Við eigum ekkert kóngafólk og þurfum því annað fólk til að skrifa um. Ég verð með góða blaðamenn með mér. Ragna Gestsdóttir, sem var á DV, var að byrja og fyrir eru Loftur Atli Eiríksson, fyrrum ritstjóri blaðsins, og ungur blaðamaður sem heitir Garðar. Hann er reyndar sonur minn. Ég réði hann í afleysingar í fyrra og hann er hér enn. Við höfum verið að sækja fram á vefnum og ætlum að gera það áfram.“

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans

26612, Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir-4

 

SHARE