Jenný Friðjónsdóttir ákvað að fá sér meirapróf fyrir 13 árum til að ögra barnsföður sínum. Hún vildi sýna honum að hún gæti alveg keyrt stórar vinnuvélar eins og hann. Það tókst heldur betur og Jenný hefur nú prófað nánast allar gerðir vinnuvéla, nema veghefil.
Ég hef aldrei nokkurn tíma farið hinn hefðbundna veg í lífinu, mér finnst það leiðinlegt,“ segir Jenný Friðjónsdóttir sem fékk meirapróf þegar hún var 22 ára og hefur keyrt vinnuvélar í 13 ár. „Tilgangurinn er ekki að sækjast eftir athygli. Ég á þrjú börn og ég vil að þau sjái að þau geti gert allt það sem þau langar að gera. Án þess að spá í hvað öðrum finnst,“ útskýrir hún. Það fylgir því hinsvegar gjarnan þegar kona sést undir stýri á vörubíl, að fólk reki upp stór augu, og Jenný hefur ekki farið varhluta af því.
Vildi ögra barnsföðurnum
Upphaflegur tilgangur Jennýjar með meiraprófinu var að ögra barnsföður sínum og sanna fyrir honum að hún gæti vel keyrt stóra bíla eins og hann. „Hann var alltaf að veifa ökuskírteininu sínu framan í mig og segja að hann væri með alla þessa stimpla. Og ég er svo þrjósk að ég sagðist geta fengið þessa stimpla líka – sem ég gerði. Í dag er ég í rauninni með meiri réttindi en hann. Ég er meira að segja með ADR réttindi og má keyra með bensín, olíu og sprengiefni,“ segir Jenný sem kallar augljóslega ekki allt ömmu sína. Þegar blaðamaður nær tali af henni er hún á leið til Grenivíkur á vörubílnum, en hún keyrir áburð á milli bæja á sumrin. Síðustu vetur hefur hún verið í námi og er nú að læra húsgagnasmíði.
Minnimáttarkend hjá strákunum
„Ég keyri aðallega á sumrin. Ég er alltaf að mana mig upp í vetrarkeyrsluna, að keyra á keðjum í snjó, hálku og brjáluðu veðri. Ætli ég sé ekki bara með svona lítið hjarta,“ segir Jenný og skellir upp úr. En blaðamaður leyfir sér að efast um að það sé raunin. Hún er allavega nógu hugrökk til að bjóða þeim körlum birginn sem vilja finna eitthvað að því að kona keyri vörubíl.
„Maður má ekki láta vaða yfir sig. Eldri bílstjórar taka mér ótrúlega vel, en ég fæ stundum að heyra það frá jafnöldrum mínum, sem vinna með mér, að ég ætti kannski frekar að elda mat í einhverju mötuneyti. En ætli það sé ekki bara einhver minnimáttarkennd hjá þeim,“ segir Jenný kímin.
Ekki öðruvísi því hún er kona
Hún hefur reyndar lent í ýmsum leiðinlegum uppákomum sem tengjast því að hún er kona. „Ég hef verið að keyra áburð inn á sveitabæi og í fyrra lenti ég til dæmis í einum karli sem var hundleiðinlegur við mig. Hann sagði hlutina ekki beint út en var með mikla stæla. Ég fann að honum þótti ekki mikið til mín koma. Svo fór ég aftur til hans í byrjun þessarar viku og þegar hann ætlaði að byrja á sömu stælunum og í fyrra, þá ég lét hann ekki komast upp með það. Maður má ekki leyfa fólki að líta öðruvísi á sig af því maður er kona. Ég get alveg gert þetta eins og strákarnir.“
Hefur prófað allar vélarnar
Jenný hefur prófað að keyra nánast allar gerðir vinnuvéla, nema veghefil, hún er því öllu vön. „Mér finnst lang skemmtilegast að keyra „trailer“ með gámalyftu. Mér finnst líka gott að fara í lengri ferðir. Maður er mjög mikið einn í þessu starfi en hittir samt fullt af fólki á bæjunum. Og yfirleitt er tekið vel á móti mér. Um daginn var til að mynda búið að leggja á borð fyrir mig og mér skipað að setjast niður og borða. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að afþakka þó ég væri nú að flýta mér. Enda skilst mér að það sé mikill dónaskapur. Ég kem því ekki til með að leggja af í sumar,“ segir hún hlæjandi.
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.