Ég stend í því þessa dagana að vera að hjálpa barninu mínu að læra fyrir próf og ég verð að viðurkenna að þetta er ekki það skemmtilegasta sem ég hef gert með þessari litlu skvísu.
Við erum nánar mæðgur og vanalega eigum við alveg frábær samskipti en þegar kemur að þessum parti er allt í hers höndum. Helgin fór í það að læra fyrir stærðfræðipróf. Ég var alltaf góð í stærðfræði í grunnskóla og það fór aðeins að síga á ógæfuhliðina hjá mér þegar ég fór í 10. bekk. Ég var í nýjum skóla og bældari en ALLT og þorði ekki fyrir mitt litla líf að vera alltaf að rétta upp hend og biðja um hjálp og vera „óþolandi krakkinn sem var alltaf að stoppa kennsluna“. Ég sé eftir þessu í dag og vildi óska þess að ég hefði bara látið vaða og fengið þá hjálp sem ég þurfti.
Nóg um það!
Nú er ég komin í þá aðstöðu að ég þarf að hjálpa barninu mínu að læra fyrir prófin sín. Hún er í 6. bekk og er byrjuð að læra allskonar skemmtilegheit eins og mælieiningar (kíló, hekta, deka… þið munið), almenn brot (margfalda þau og deila, finna samnefnara og svoleiðis, margföldun, deilingu og fleira. Þetta virðist allt hljóma mjög einfalt og svona en þegar á reynir er þetta bara ekkert auðvelt. Af hverju?
Í fyrsta lagi þá kunna börn í dag ekki margföldunartöflurnar utan að eins og við lærðum þær. Þegar ég lærði margföldun var mér kennt að þylja þær utan að aftur og aftur og aftur. Við byrjuðum „þrisvar sinnum töfluna“ á 3×3, „fjórum sinnum töfluna“ á 4×4, „fimm sinnum töfluna“ á 5×5 og svo framvegis. Þetta var ekkert mál og þetta límdist þannig á heilann á mér að ég get ennþá þulið þetta upp ef ég þarf á því að halda.
Í dag er börnum ekki kennt þetta svona. Þau eru að telja á puttunum og eru að læra töflurnar frá 1×3, 1×4 og svo framvegis sem gerir þetta enn lengra og meira sem þau þurfa að læra. Þetta flækir málin ógeðslega mikið.
Í öðru lagi er búið að breyta aðferðunum til að reikna svo mikið að ég og dóttir mín erum að tala sitthvort tungumálið. Hún skilur ekkert hvað ég er að segja og ég skil ekkert hvað hún er að segja en við fáum sömu niðurstöðuna. Þetta er einfaldlega það ruglingslegt að mér fallast hendur aftur og aftur og endar í gráti og dramatík. Hún skilur ekki af hverju ég get bara ekki útskýrt þetta fyrir henni og ég er vanmáttug og veit ekkert hvað ég á að gera. Það endaði með því í gær að ég fór að kenna henni mínar aðferðir, t.d. að nota „skeiðina“ eins og hún kallar það, til að deila og það gekk bara vel. Þetta getur samt ekki verið gott fyrir hana að læra „nýja“ aðferð, daginn fyrir próf. Ég leitaði í bókinni og var að reyna að skilja þetta sem var verið að kenna í bókinni en skildi þetta ekki og í örvæntingu minni fór ég bara í að kenna henni „öruggu“ leiðina sem ég kann.
Nú er heil prófavika framundan og mamman er komin með hnút í magann fyrir því sem koma skal. Er ekki alveg komið að því að við foreldrar fáum kannski eins og eitt kvöldnámskeið til að kynna fyrir okkur nýjar leiðir sem hafa rutt sér til rúms síðan við vorum í grunnskóla? Ég mun allavega vera lengur en í 10 mínútur í næsta foreldraviðtali sem ég fer í, því ég vil fá kennslu í þessu ef ég á að geta hjálpað mínu barni að læra fyrir prófin í framtíðinni.
Elsku foreldrar sem eruð í sömu sporum, þið fáið alla mína samúð og ég vona að þið finnið leið til að láta þetta ganga upp án þess að reyta hár ykkar og annarra. 🙂 Líf og fjör!
Fylgstu með!
Kidda á Instagram
Hún.is á Instagram
Kidda á Snapchat: hun_snappar
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.