Eftir að hafa farið leynt með þunglyndi sitt í 11 ár og jafnframt glímt við fordóma gagnvart veikindunum ákvað Tara Ösp Tjörvadóttir að stíga fram í þeim tilgangi að hjálpa öðrum. Hún vissi í raun ekki hve veik hún hafði verið fyrr en hún fór á lyf árið 2014 og skilur í dag ekki hvernig hún komst af án þeirra.
„Í lok síðasta árs var ég að horfa upp á náinn fjölskyldumeðlim berjast við sína eigin fordóma gagnvart þunglyndi, en hann var ekki að viðurkenna veikindin og gat því ekki leitað sér hjálpar. Ég var í rauninni á sama stað en gat ekki miðlað neinu til þessa aðila því ég var í felum með fordóma gagnvart eigin veikindum,“ segir Tara Ösp Tjörvadóttir, sérfræðingur hjá Skema, margmiðlunarhönnunarnemi og ein af forsprökkum #égerekkitabú samfélagsmiðlabyltingarinnar sem fól í sér vitundarvakningu um geðsjúkdóma.
Greindist með þunglyndi 14 ára
„Ég var þá búin að fela mín veikindi í ellefu ár og hélt að fólk myndi sjá mig sem veika eða einhvern aumingja ef það vissi hvað væri að. Þess vegna þorði ég ekki að tala um þetta,“ segir Tara, sem greindist með þunglyndi 14 ára eftir að hafa upplifað mikla vanlíðan og vanmáttarkennd gagnvart lífinu um tíma. Telur hún að óuppgerð áföll úr æsku og flutningar úr höfuðborginni austur á land hafi ýtt undir þunglyndið í hennar tilfelli.
Tara vildi svo mikið getað hjálpað þunglyndum ástvini sínum, en vissi að til þess yrði hún sjálf að opinbera sín veikindi með einhverjum hætti. Hún upplifði sig enn meira hjálparvana en áður að geta ekki rétt fram hjálparhönd í þessum aðstæðum. „Ég hafði svo miklu að miðla. Ég var að fela stóran hluta af mér og fannst ég vera lygari. En þegar ég var farin að hafa áhyggjur af öðrum þá varð ég að gera eitthvað.“
Bréfið sem breytti öllu
Tara tók því ákvörðun um að skrifa niður alla söguna sína og sendi umræddum fjölskyldumeðlimi. „Ég fann að þegar ég var að skrifa þetta niður, og viðurkenna fyrir einhverjum, hvað byrðin varð léttari. Ég var ekki lengur innilokuð og ein. Ég var að tengjast einhverjum.“ Og bréfið hafði strax áhrif. Daginn eftir fékk Tara að vita að fjölskyldumeðlimurinn hefði viðurkennt vandann fyrir sjálfum sér og pantað tíma hjá lækni. „Þá fór ég að hugsa að fyrst sagan mín hafði áhrif á þessa einu manneskju, þá kannski hefði hún áhrif á fleiri. Hvort ég gæti kannski hjálpað fólki að losna við byrðina af eigin fordómum.“
Fann hvað þörfin var mikil
Skrefið sem Tara tók næst var því að senda bréfið á fréttamiðil sem birti það í heild sinni, og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ókunnugt fólk setti sig í samband við hana og treysti henni fyrir sínum sögum. „Þá fann ég hvað þörfin fyrir umræðuna var mikil. Það voru svo margir að þjást. Rannsóknir hafa nefnilega sýnt fram að byrðin af því að fela veikindin er oft erfiðari en að takast á við sjúkdóminn sjálfan. Margir voru ráðþrota í felum og ég vildi gera eitthvað til að hjálpa þessu fólki. Gera samfélagið móttækilegra fyrir andlegum veikindum,“ útskýrir hún.
Og áfram hélt boltinn að rúlla. Eftir að bréf Töru hafði farið sem eldur í sinu um samfélagsmiðla fannst henni tilvalið að nota þann sama vettvang til að opna umræðuna um geðsjúkdóma enn frekar. Sem hún gerði í samstarfi við tvær aðrar stelpur sem glímt höfðu við svipuð veikindi. Kassamerkið #égerekkitabú varð strax að algjörri byltingu á samfélagsmiðlum. Þúsundir opnuðu sig um andleg veikindi, birtu jafnvel myndir af sér með geðlyfin sín og létu kassamerkið fylgja. „Stundum þarf maður bara einhvern vettvang til að tjá sig og smá stuðning til að taka skrefið,“ bendir hún á.
Tók á að vera lifandi
Frá því að Tara greindist og þangað til hún fór loksins á lyf árið 2014 hafði hún farið í ýmsar sálfræðimeðferðir og hugræna atferlismeðferð með misgóðum árangri. Hún hafði mikla fordóma gagnvart þunglyndislyfjum og það var ekki fyrr en hún var orðin móðir og fann að hún vildi reyna að láta sér líða betur fyrir dóttur sína, að hún lét til leiðast. „Þá fyrst fór ég að geta lifað venjulegu lífi. Ég fattaði í raun ekki fyrr en þá hversu lasin ég var. Þegar ég byrjaði að taka lyfin þá skildi ég ekki hvernig ég gat lifað án þeirra. Fólk sem glímir við þunglyndi heldur stundum að lífið eigi að vera erfitt. Að það eigi að vera erfitt að fara á fætur, fara í sturtu og hringja í fólk. Það tók mikið á mig bara að vera lifandi. Mér fannst samt að með því að fara á lyf þá væri ég að viðurkenna að ég væri veik.“
Fékk bara jákvæð viðbrögð
En að fara á lyf og stíga svo fram og ræða opinskátt um veikindi sín hefur umbreytt lífi Töru til hins betra. „Ég er mjög lokuð týpa, en þetta hefur hjálpað mér mjög mikið að tengjast fólki. Ég er miklu frjálsari en áður, ég er ekki að fela hluta af sjálfri mér og líður ótrúlega vel,“ segir Tara einlæg. Hún viðurkennir þó að fyrst eftir að hún steig fram hafi ótal neikvæðar hugsanir sótt að henni. „Ég hugsaði með mér að fólk héldi að ég væri geðsjúklingur, hvernig ég ætti nú að komast á deit, hvernig einhver gæti elskað mig og fleira í þeim dúr. En það sem gerðist var algjörlega andstæðan við það. Ég fékk bara jákvæð viðbrögð. Svo sögðu sumir við mig að þá hefði ekkert grunað því ég væri alltaf svo glöð. Ég var svo góð að fela veikindin. Ég var atvinnumaður í feluleik þunglyndis.“
Geðsjúka lesbían
En viðbrögðin voru ekki bara jákvæð, heldur varð þetta allt saman til þess að Tara komst á stefnumót með konunni sem hún er trúlofuð í dag. „Hún las greinina mína og við enduðum á því að fara á deit. Ég komst semsagt á deitið sem ég óttaðist að gera aldrei. Það er hægt að elska þunglynda einstaklinga. En maður finnur ekki rétta fólkið til þess á meðan maður er að fela veikindin.“
Það er hins vegar ekki langt síðan Tara áttaði sig á því að hún hefði miklu meiri áhuga á konum en körlum – og viðurkenndi það fyrir sjálfri sér og öðrum. „Þegar ég lít til baka þá átta ég mig á því að ég var ástfangin af stelpu í grunnskóla, en ég kveikti bara ekki á því. Samfélagið gaf mér einfaldlega ekki þann valkost. Þetta var alltaf bara spurning um hvort maður ætti kærasta. Samfélagið var ekkert sérstaklega opið fyrir mér – geðsjúkri lesbíu,“ segir Tara og skellir upp úr.
Vissi ekki að hún væri í skáp
Það var í lok árs 2013 að Tara fór að gefa þessum tilfinningum gaum sem bærðust innra með henni. En á þeim tíma var hún trúlofuð barnsföður sínum. „Ég fann mjög sterka löngun. Fannst ég verða að prófa þetta og þá var ekki aftur snúið. Þetta var greinilega sú sem ég hafði alltaf verið og svo margt sem benti alltaf til þess. Tilfinningar mínar gagnvart konum hafa alltaf verið miklu sterkari en gagnvart karlmönnum. Ég hef meira elskað þá sem vini. En ég kom alveg út úr þessum lesbíska og þunglynda skáp árið 2015. Ég vissi reyndar aldrei að ég væri inni í samkynhneigðum skáp, en ég kom samt út úr honum, samkvæmt samfélaginu. 2015 var því mjög gott ár,“ segir Tara.
Fræðir fólk um þunglyndi
Í kjölfar þess að Tara birti sögu sína opinberlega fór hún af stað með ljósmyndaverkefnið Faces of Depression. Um er að ræða portrettmyndir af fólki – andlit fólks sem berst við þunglyndi. Hún er nú búin að mynda yfir 100 manns og fékk nýlega styrk til að stækka verkefnið enn frekar. Framundan er því að taka myndir af fólki á Austurlandi.
Þá vinnur Tara einnig að heimildamyndinni Þunglynda þjóðin sem hún vonast til að geti nýst sem fræðsluefni í grunnskólum, en hún telur mikla vöntun á fræðsluefni um þetta málefni fyrir börn og unglinga. Myndin verður blanda af frásögnum fólks og fræðsluefni, en Tara safnar fyrir gerð hennar á fjáröflunarsíðunni Indiegogo.com. Áætluð útgáfa er í febrúar 2017.
Á morgun, laugardag, mun Tara svo taka þátt í ráðstefnunni TEDxReykjavík 2016, með erindi sem fjallar um það hvort samfélagsmiðlar geti bætt andlega heilsu, og miðlar sinni reynslu af þeim efnum.
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.