Sonurinn vildi fá Star Wars herbergi

„Þetta er nú sennilega með því einfaldasta sem ég hef gert,“ segir Bjargey Ingólfsdóttir, móðir og bloggari, þegar blaðamaður hrósar henni fyrir Star Wars herbergið sem hún útbjó handa 6 ára syni sínum.

„Það var kominn tími á að mála herbergið hjá syninum og hann var að sjálfsögðu hafður með í ráðum. Þegar hann var svo inntur eftir því hvaða lit hann vildi á herbergið fengum við þau svör að hann vildi fá Star Wars herbergi,“ segir Bjargey og hlær.

Sonur Bjargeyjar átti fyrir mikið af Star Wars dóti, enda sannur Star Wars aðdáandi, og því var ekkert því til fyrirstöðu að útbúa herbergi tileinkað kvikmyndunum sívinsælu. „Þetta dót er meira og minna allt svart og hvítt þannig að ég ákvað að slá til og skella svörtum lit á veggina að hluta til,“ segir Bjargey sem kveðst hafa verið alveg óhrædd við að mála veggi í svörtu, en það eru ekki allir sem leggja í það.

„Það hefði auðvitað verið alltof yfirþyrmandi að hafa allt herbergið svart en það kemur mjög töff út svona í svart og hvítu. Ég var nýlega búin að mála einn vegg í eldhúsinu svartan og það tók mig rosalega langan tíma að ákveða að láta slag standa með svarta litinn þar. En þegar hann var kominn á vegginn sá ég hvað liturinn tók sig vel út þannig að ég þurfti ekki að hugsa mig mikið um þegar kom að herberginu hjá syninum. Svarti liturinn gefur herberginu ákveðinn hlýleika, það verður meira kósí.“

26864_star_wars_barnaherbergi-1

Að sögn Bjargeyjar voru framkvæmdirnar við herbergið ekki sérstaklega kostnaðarsamar. „Þetta voru nokkuð ódýrar framkvæmdir, það eina sem ég keypti var svört og hvít málning frá Slippfélaginu og myndirnar á veggina. Myndirnar eru íslensk hönnun og fékk ég þær hjá Sker hönnunarhúsi. Svartan hillan er svo gömul hilla sem var inni í þvottahúsi undir dót, mér fannst hún passa svo vel við litaþemað að hún fékk nýtt líf í herberginu.“

Hinn sex ára gamli Star Wars aðdáandi var að vonum ánægður með herlegheitin. „Ég fékk dygga aðstoð frá Bryndísi, dóttur minni, sem er 12 ára. Hún sá alfarið um að raða í herbergið og þegar búið var að raða öllu dótinu þá sást sonurinn ekki í nokkra daga. Hann var bara inni í herbergi að leika,“ segir Bjargey hress.

Bjargey heldur úti virkilega skemmtilegu bloggi þar sem hún deilir uppskriftum og ýmsu um heimili og hönnun. Slóðin er bjargeyogco.com

26864_star_wars_barnaherbergi-4

26864_star_wars_barnaherbergi-6

26864_star_wars_barnaherbergi-7

26864_star_wars_barnaherbergi-3

Birtist fyrst í …amk fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE