Mörg skordýrabit og stungur skilja eftir sig rauða, bólgna hnúða með kláða í og á stundum eru þeir líka kvalafullir. Oftast er lítið gat í miðju bitinu og stundum verður broddurinn eftir. Fyrir utan sjálft bitsvæðið veldur bitið/stungan ekki öðrum óþægindum nema manneskjan hafi ofnæmi fyrir skordýrabiti. Algengasta skordýraofnæmið er fyrir býflugum og geitungum.
Hvaða kvikindi stinga og bíta?
Hunangsflugur, geitungar, flær og mý eru algengust á Íslandi. Þó er flóran sífellt að breytast og fleiri skordýr að bætast í hópinn. Enn sem komið er eru engin kvikindi sem valda eitrun.
Hvernig lítur stunga/bit út?
Einn eða fleiri þrútnir hnúðar eru á húðinni. Í miðju bitinu er yfirleitt lítið gat og stundum situr broddurinn eftir. Ef vafi leikur á hvort um bit sé að ræða, til dæmis ef maður vaknar um nótt og finnur rauð útbrot, ætti að gá hvort þau eru víðar á líkamanum. Ef aðeins finnst einn hnúður eða 4-5 í klasa er líklegast að þarna sé bit á ferð. Flær stinga til dæmis 4-5 sinnum bit í senn og þetta gæti verið vítt og breitt um líkamann. Einnig er hægt að lenda í því að vera bitinn af mýflugnageri ef sofið er við opinn glugga. En önnur ástæða fyrir rauðum útbrotum gæti verið barnasjúkdómur. Í vafatilfelli á að leita læknis.
Hver eru einkenni skordýrabits?
Stungan/bitið er rautt, bólgið, í því er kláði og jafnvel verkir. Þetta eru algengustu einkennin. Verið á varðbergi, því að bit getur framkallað ofnæmi. Ef útbrot og bólga eykst í stað þess að hjaðna, skal leita læknis. Leitið strax læknisaðstoðar ef fram koma eftirfarandi einkenni eftir skordýrabit eða stungu:
- sótthiti
- versnandi útbrot og bólga
- höfuðverkur
- svimi
- ógleði
- verkir í brjóstholi
- þrengsli í barka eða brjóstholi
- öndunarörðugleikar.
Þetta getur bent til ofnæmis sem getur verið lífshættulegt. Leitið því læknis umsvifalaust.
Hvaða ráð eru við skordýrabiti og stungum?
Fyrst eftir að hafa verið stunginn ætti að láta bitið í friði og til að draga úr bólgumyndun má halda stungusvæðinu upp á við.
Þvoið stunguna með sápu og vatni. Einnig má kæla hana með ísmolum í þvottastykki.
Draga má úr kláða með kremi eða hlaupi með staðdeyfandi efni eða antihistamíni.
Fjarlægja skal broddinn ef hann er eftir. Hægt er að klóra hann af með nögl, nota greiðslukort, hnífsblað eða flísatöng. Ekki má þrýsta broddinum út þar eð það þrýstir eitrinu enn lengra inn í húðina.
Ef viðkomandi hefur ofnæmi fyrir skordýrabiti skal ráðfæra sig við lækni áður en ferðast er og ef til vill hafa meðferðis antihistamín í töflu- eða sprautuformi – en aðeins í nánu samráði við lækni. Verið meðvituð um, að ef útbrot, kláði og almenn vanlíðan gera vart við sig gæti verið nauðsynlegt að kalla til lækni. Notið stax lyfin sem læknirinn hefur látið þig fá. Hafið síðan strax samband við lækni. Ef engin lyf er til skal koma viðkomandi strax undir læknishendur. Ekki má aka bíl vegna þess að viðkomandi gæti misst meðvitund.
Ef grunur er á eitruðu biti skal nota eitursugu til að sjúga eitrið út úr stungunni. Eitursuga fæst í apótekinu. Hún er einna líkust sprautu, nema hvað hún virka í hina áttina. Eitursugan er sett yfir bitið og eitrið dregið upp í suguna. Ef ekki er til eitursuga á heimilinu er ráðlegt að kaupa slíka svo að hún sé til taks ef á þarf að halda.
Hvað er til ráða gegn skordýraofnæmi?
Ef vitað er af skordýraofnæmi skal bera þær upplýsingar á sér. Þær geta verið á armbandi, hálsmeni eða korti. Slík öryggisaðgerð kemur að miklu gagni fyrir það fólk sem lendir í því að hjálpa á hættustund og getur bjargað lífi viðkomandi.
Ef uppáskrifuð lyf hafa verið fengin til að nota við þannig aðstæður er áríðandi öryggisatriði að ekki aðeins viðkomandi viti nákvæmlega hvernig á að nota þau, heldur einnig aðstandendur hans svo að þeir viti hvað þeir eiga að gera.
Hvernig kemstu hjá biti?
Ef viðkomandi er svo óheppinn að lenda í býflugna- eða geitungageri fjarlægist þá HÆGT í burtu. Ekki veifa eða slá til flugnanna, það æsir þær upp og mun meiri hætta er á að þær ráðist til atlögu.
Kastaðu aldrei né sláðu til geitunga- eða býflugnabús. Skordýrin bregðast samstundis við með árás.
Haldið ykkur frá því, sem laðar að skordýr, svo sem blómum, blómstrandi runnum, trjám og þvíumlíku.
Viðhafið sérstaka aðgát ef snætt er eða drukkið utanhúss.
Lykt og sterkir litir laða að skordýr, því er ráðlegt að láta ilmkrem eiga sig utan dyra. Fatnaður í sterkum litum og mynstrum á einnig betur við innanhúss.
Betri vörn er fyrir skordýrum ef viðkomandi er klæddur. Síðar ermar, síðar buxur, skór, sokkar og hanskar hjálpa.
Hægt er að bera á sig krem með skordýravörn áður en farið er út.
Lokið gluggum á húsum og bílum svo skordýrin komist ekki inn.
Hafið auga með skordýrahreiðrum og búum og látið strax fjarlægja þau.
Hvenær á að leita læknis vegna skordýrabits?
Ef roði, þroti, hiti og eymsli eru í bitinu bendir það til sýkingar og á að leita álits læknis um hvort meðhöndlunar sé þörf.
Ef sótthiti er á ferð getur það bent til sýkingar.
Mest hætta er ef mörg kvikindi stinga á sama tíma. Hætta er á ferðum ef þú ert stunginn í munn eða kok, þar sem slímhúðin getur bólgnað og stíflað öndunarveginn–einnig við heiftarleg ofnæmisviðbrögð. Fyrir kemur að einkennin líkjast losti og þá þarf að kalla til sjúkrabíl eða lækni. Hringið í neyðarlínuna, 112, og greinið frá aðstæðum og hvar sjúklinginn sé að finna.