Védís Hervör sendi nýlega frá sér lag sem vel hefur verið tekið, meðal annars í Póllandi og Bretlandi. Upp á síðkastið hefur hún verið mjög upptekin af dauðanum en er engu að síður mjög hamingjusöm og ætlar að ganga að eiga unnusta sinn til 12 ára í sumar.
„Ég á til nóg af efni. Það líður alltaf svo langt á milli hjá mér, en nú er kominn smá púki í mig,“ segir Védís Hervör Árnadóttir, tónlistarkona, mannfræðingur, MBA og frumkvöðull. Hún sendi nýlega frá sér lagið Grace og er að vinna í meira efni sem hugsanlega endar í plötu.
Lagið endaði í amerískri bíómynd
„Mig langar að fara að dúndra þessu efni út. Ég er búin að vera með hugann við svo margt annað síðustu ár, sem hefur alveg borgað sig, því nú togar þetta í mig aftur. Það er reyndar ekki alveg víst hvort það verði úr þessu heil plata. Í dag er ekki nauðsynlegt að gera heila plötu. Það er svo auðvelt að fylgja einu og einu lagi eftir eða gera litla EP plötu.“
Védís gaf síðast frá sér sólóefni fyrir þremur árum, lagið White Picket Fence, og spilaði í kjölfarið á Iceland Airwaves árið 2013. „Ég kalla lag þetta stundum bastarð, því það kom engin plata í kjölfarið. En svo ég sat einhverja tengslanetsfundi hjá Stef og úr varð að lagið var valið inn í ameríska bíómynd, sem var rosa gaman.“
Áhugi í Póllandi og Bretlandi
Védís Hervör er með töluvert stórt tengslanet. Þrátt fyrir það er hún enn með báða fætur á jörðinni. „Ég ætla bara að sjá hvað gerist og reyna að fylgja þessu eftir. Svo vonandi kem ég með annað nýtt lag í lok sumars.“
Hún viðurkennir að vissulega sé erfiðara að hafa sig út í verkefni í útlöndum þegar hún er komin með fjölskyldu og hefur fleiri skyldum að gegna en þegar hún var ung og ólofuð. En hún á tvo drengi, á fimmta og sjöunda ári. Hún mun þó ekki láta þetta auka flækjustig stoppa sig ef tækifærin verða á vegi hennar. „Drengirnir okkar eru svo frábærir og þeir myndu bara koma með okkur eða að Halli tæki vaktina heima. Maðurinn minn er sjálfur tónlistarmaður, þó hann sé starfandi lögmaður, og hann skilur hvernig þetta allt virkar. Svo finnur hann orkuna og hamingjuna í kringum sköpunina. Og ég er hamingjusömust þegar ég er að stússast í tónlistinni,” segir hún og brosir.
Þyngri og drungalegri hugsanir
„Það er annars búin að vera svo mikil hamingja í lífi mínu svo lengi. Í gamla daga var meiri broddur í tónlistinni sem ég var að gera, bæði þegar ég var að semja fyrir sjálfa mig og aðra úti í London. Við stelpurnar í Kítón höfum stundum grínast með að maður þurfi að vera hálf þunglyndur til að gera góða tónlist,” segir Védís og skellir upp úr.
Ef marka má þessa kenningu ætti Védís að vera dottin niður í andlega lægð núna, enda á fullu að vinna nýtt efni, en það er ekki alveg raunin. Það sækja þó að henni nýjar hugsanir – kannski örlítið þyngri og drungalegri en áður.
Upptekin af dauðanum
„Lagið Grace fjallar um hringrás lífsins og ég samdi það til drengjanna minna. Þetta getur reyndar líka verið ástarlag til maka. En ég er búin að vera svolítið upptekin af því að við deyjum öll. Það er staðreynd málsins. Ég er reyndar ekki orðin elliær en hugsunin sækir að, ég vil skilja eitthvað eftir mig sem gagnast öðrum. Ég er líka mjög upptekin af móður jörð og er farin að flokka rusl betur niður í mólekúl og búa til moltu til að bæta jarðveginn heima. Ég veit ekki hvað þetta er, en þessi þörf hefur ágerst. Auðvitað er þetta einhvers konar pæling um tilgang lífsins, hvað við erum að þeysast um og samskiptin öll í snjallsímanum og svo deyjum við,“ segir Védís einlæg og það fer ekki á milli mála að hún er töluvert búin að velta þessu fyrir sér.
„Þetta er kannski lægðin sem ég er í. Að vera hrædd við að deyja, yfirmáta flughrædd eða vilja ekki deyja frá þeim sem ég elska. Ég á mjög stóra og nána fjölskyldu og sé fólkið í kringum mig vera að eldast. Eins og til dæmis ömmu og afa. Maður er svo vanur því að hafa teymið sitt í kringum sig. Ég er kannski orðin meðvitaðri um að ég hafi ákveðna tímalínu og ég ætla að reyna að gera það sem ég get til að geta gengið sátt frá. Svo snýst þetta líka um að lifa í núinu, leggja frá sér símann og leyfa sólinni að skína á andlitið.“
Brúðkaup í sumar
Védís og tilvonandi eiginmaður hennar, Þórhallur Bergmann, eru búin að vera saman í tólf ár og ætla að gifta sig í sumar. Þau voru kunningjar í nokkur ár áður en þau smullu saman sem par.
Við kynntumst í gegnum Barða Jóhannsson í Bang Gang. Við vorum að túra með honum í Frakklandi. En það var enginn neisti á milli okkar þá, enda við bæði í sambandi með öðrum. En svo gerðist þetta seinna og þá var eiginlega segull á milli okkar þegar við hittumst. Það var nýr kafli sem hófst. Sambandið hefur gengið vonum og ég er svo þakklát fyrir að hafa hann í lífi mínu.“ Védís verður klökk af því að ræða ástina. Hún er mikill rómantíker og viðurkennir að það sé stutt í grátinn. „Það eru allar gáttir opnar hjá mér,“ segir hún og hlær burt tárin sem eru við það að myndast.
„Ástin breytist auðvitað með tímanum en hún verður bara dýpri og fallegri. Þetta er auðvitað ekki gefið. Við hefðum getað farið í sitt hvora áttina. Það er bara lán að við skulum enn þola hvort annað. Við erum líka svo góðir vinir og höldum í húmorinn og léttleikann,“ segir Védís en hjónaleysin gera mikið af því að spila og semja tónlist saman.“
Búin að vera í fjölbreyttum verkefnum
Þó Védís hafi ekki verið mikið að senda frá sér tónlist á síðustu misserum þá hefur hún ekki setið auðum höndum. Hún hefur lengi sinnt markaðs- og kynningarstörfum fyrir hin ýmsu verkefni og fyrirtæki. Hún byggði upp fyrirtæki með móður sinni sem byggir á málhljóðaefni fyrir börn og fjölskyldur út frá talmeinafræði. Er það nú komið á alþjóða smáforritamarkaðinn undir heitinu Kids Sound Lab. Árið 2012 stóð hún svo fyrir stofnun Kítón, félags kvenna í tónlist á Íslandi. Hún var formaður félagsins fyrstu þrjú árin en situr nú í stjórn. Vorið 2015 útskrifaðist hún með alþjóðlega MBA gráðu í rekstri og stjórnun frá HR. Þá stofnaði hún framleiðslufyrirtækið Freyja filmwork ásamt Dögg Mósesdóttur, Þóreyju Mallhvíti Ómarsdóttur og Tinnu Hrafnsdóttur, en þær framleiddu einmitt tónlistarmyndbandið við lagið Grace.
„Við köllum okkur áttirnar fjórar því við komum allar úr ólíkum áttum. Það er ekkert hlaupið að því að vera með framleiðslufyrirtæki í dag. Þetta er hark eins og margt annað, en við fundum rosa flottan kjarna og hvernig við gátum nýtt hæfileika hver annarrar.“ Ýmislegt er á döfinni hjá Freyju filmwork, meðal annars er í vinnslu mynd í fullri lengd og svo er verið að alþjóðavæða og selja til Evrópu fyrstu heimildamyndina sem fyrirtækið framleiddi, Höfundur óþekktur, sem fjallar um konur í tónlist.
Langar stundum að festa rætur
Þrátt fyrir að Védís hafi unun af því sem hún er að gera í dag viðurkennir hún að hún skoði stundum atvinnuauglýsingar og hugsi með sér hvort hún ætti að finna sér öruggari starfsvettvang. „Ég er nánast alltaf í verktöku sem getur verið basl, sérstaklega þegar maður er með börn, ég get verið mjög dreifð í allar áttir og sæki launin mín á ansi marga staði. Eftir MBA námið fór ég að hugsa um breytingar og að festa meira rætur en svo leiðist ég alltaf út í eitthvað frumkvöðlastarf og læt það bara ganga. Ég er svo innstillt á að ef ég sé möguleika til að bæta eitthvað þá finnst mér ég verða að gera eitthvað í því.“
Mynd/RUT
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.