Halla Oddný segist vera bæði latur og lélegur píanóleikari og en hefur þó gerst svo fræg að taka upp fyrir Deutche grammophon. Á unglingsárunum reyndi hún að láta líta út fyrir að hún væri ekki góða stelpan sem hún var.
Þegar fólk spyr mig hvað ég geri þá svara ég: „Tja.. svona ýmislegt“, sem hljómar alveg eins og ég sé að gera eitthvað ólöglegt,“ segir Halla Oddný Magnúsdóttir, dagkrárgerðarkona á RÚV, tónlistarhátíðarskipuleggjandi og grúskari með meiru. Ekkert af því sem hún gerir er þó ólöglegt, eftir því sem blaðamaður kemst næst. Margt af því er hins vegar mjög áhugavert.
Stjórnast af áhuga og forvitni
Margir muna kannski eftir Höllu frá því hún var umsjónarmaður Útúrdúrs, klassískra tónlistarþátta sem sýndir voru á RÚV á árunum 2013 og 2014. Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, kærasti Höllu, kom einnig að gerð þáttanna sem hlutu mikið lof gagnrýnenda og voru tilnefndir til Edduverðlauna.
Síðan hefur hún unnið að ýmsum verkefnum fyrir RÚV. Síðasta vetur var hún til að mynda með með innslög í menningarhluta í Kastljóss og vinnur nú í verkefni sem nefnist Klassíkin okkar fyrir Rás 1, þar sem hlustendum gefst kostur á að velja sitt uppáhalds tónverk. „Ég hef fengið að valsa mikið á milli deilda á RÚV og gera það sem mér þykir skemmtilegt. Ég er mjög þakklát fyrir það. Ég hef aldrei verið dugleg að leggja rækt við „CV-ið“ mitt. Ég læt miklu frekar stjórnast af áhuga og forvitni. Eftir á sé ég samt að öll verkefnin sem ég hef unnið að í gegnum tíðina hafa leitt mig eitthvert og ég læri alltaf eitthvað nýtt,“ segir Halla sem hefur einnig komið að skipulagningu klassísku tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Midsummer Music, ásamt Víkingi, en hátíðin fór einmitt fram um síðustu helgi.
Með annan fótinn í Berlín
Þegar við Halla mælum okkur mót ber hún upp einlæga bón um að setjast niður þar sem hægt er að fá gott kaffi. Kaffi Slippur verður fyrir valinu og það er augljóst að þangað hefur Halla að minnsta kosti komið einu sinni áður. Hún er fædd og uppalin í gamla Vesturbænum og hefur afdrep í þeim bæjarhluta þegar hún er stödd á Íslandi og kann vel við að drekka kaffi í þessu umhverfi. Hún er hins vegar með annan fótinn í Berlín um þessar mundir þar sem hún Víkingur eru með íbúð. Hann býr þar að mestu leyti en Halla flakkar á milli vegna starfs síns hjá RÚV.
Þóttist vera pönkari
Sem barn og unglingur var hún tiltölulega þæg og prúð stúlka sem sinnti píanónámi af miklum metnaði og myndugleik. Einhver var þó tilvistarkreppan á unglingsárunum sem braust helst fram í klæðaburði og hárgreiðslu. „Ég reyndi að láta líta út fyrir að ég væri ekki góða stúlkan sem ég var. Ég var með hanakamb þegar ég var í Hagaskóla og gekk um með anarkistamerki um hálsinn. Síðar heyrði ég af því að einhverjir foreldrar hefðu séð mig fyrir utan skólann og verið hræddir við að senda börnin sín í skólann út af þessum svakalega pönkara. Samt var ég á þessum tíma alltaf hæst í öllu og mjög dugleg að spila á píanóið. Þetta var því allt saman mikil yfirborðsmennska hjá mér.“
Halla píndi sig svo í gegnum eðlisfræðibraut Menntaskólans í Reykjavík þrátt fyrir að langa miklu meira á fornmálabraut. En ástæðan var einföld. „Ég var lituð af þessum fasisma að halda öllu opnu, en það gleymist stundum að það sem veitir manni enga gleði verður aldrei stór hluti af lífi manns. Ég er samt alveg þakklát fyrir þetta nám í samhengi við það sem ég fór að gera síðar.“
Ekki nauðsynlegt að hafa stimpil
Halla lauk burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík ári eftir að hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og hélt svo út til Bretlands þar sem hún lærði Human Science við Oxford háskóla og þá kom eðlisfræðigrunnurinn sér vel. „Það þekkir enginn þetta nám eða veit út á hvað það gengur,“ segir Halla og skellir upp úr. „Þegar ég var úti spurði fólk mig gjarnan hvað ég yrði þegar ég lyki námi en það besta var að ég varð ekki neitt. Maður þarf nefnilega ekki að hafa einhvern stimpil. Maður getur einfaldlega gert það sem manni sýnist,“ segir Halla sem reynir svo að útskýra námið fyrir blaðamanni á einfaldan hátt. „Þetta er nám sem er búið til í Oxford og gengur út á að skoða manninn út frá mismunandi sjónarhornum. Að hið menningar- og líffræðilega sé allt á sama rófi. Þegar ég sótti um námið vorum við Víkingur búin að vera í fjarbúð á milli Íslands og New York í tvö ár og það lá beinast við að við fyndum stað þar sem við gætum bæði verið. Þannig að við fórum til Oxford. Hann var að spila og æfa sig á meðan ég var í skóla.“
Það var mágur Höllu sem stakk upp á að hún færi í umrætt nám og henni þótt það alls ekki vitlaus hugmynd þó hún hefði líklega valið sér hugvísindalegra nám heima á Íslandi. „Ég er samt þakklát fyrir það núna að hafa valið þetta nám því það er oft svo gjöfult að hafa ekki lokað á þessa náttúrusýn. Fólk er oft með menninguna í einu hólfi og vísindin í öðru, en mér finnst gaman að færa þetta saman. Ég er mikill og einlægur Darwinisti.“
Tók upp fyrir Deutche grammophon
Þrátt fyrir að Halla sé með burtfararpróf í píanóleik hefur hún ekki mikið spilað á píanóið síðustu ár, enda yfirleitt annar aðili sem situr við píanóið á heimilinu. „Ég rétt set loppurnar á nóturnar. Það koma reyndar af og til tímabil sem ég keyri mig í gang og æfi mig dálítið. Þá aðallega þegar eitthvað er fram undan sem krefst þess. Það er reyndar mjög fyndið að miðað við hvað ég er lélegur píanisti sem æfir sig lítið þá hef ég afrekað merkilega hluti. Ég hef til dæmis spilað fjórhent með Víkingi í Sjónvarpinu sem er ótrúlega góð hugmynd þegar maður er lélegur og latur,“ segir Halla hlæjandi. Hún tók sig þó aðeins í gegn fyrir það verkefni og hafði strangan og góðan kennara í Víkingi.
„Svo var það á síðasta ári að Víkingur var beðinn um að spila nokkur Stravinsky smáverk inn á heildarsafn sem Deutsche grammophon var að gefa út af verkum hans. Eitt þessara verka var fjórhent og þá fékk ég aftur að spila með honum. Það var mín mikla frægðarstund. Þrátt fyrir að ég sé bæði lélegur og latur píanisti sem spilar aldrei þá get ég núna sagt frá því í kokteilboðum að ég hafi tekið upp fyrir Deutsche grammophon. Það er mjög óverðskuldað en fyndið.“
Hefði orðið óhamingjusamur píanóleikari
Aðspurð segist Halla aldrei hafa séð fyrir sér að hún yrði píanóleikari að atvinnu þrátt fyrir að hafa verið metnaðarfull í náminu á sínum tíma. „Mínir styrkleikar liggja á svo mörgum öðrum sviðum. Svo hjálpar það líka að kynnast einhverjum eins og Víkingi. Að vera píanisti er nefnilega alveg hræðilegt nema maður hafi frá náttúrunnar hendi bæði rétta skapgerð og sérstaka hæfileika sem maður hefur þróað og hlúð að frá því maður var barn. Ég held ég hefði orðið mjög óhamingjusamur píanóleikari og er því mjög fegin að hafa ekki farið beinlínis inn á þá braut þó mér þyki mjög gaman að gera ýmislegt með músík.“
Bjuggu í stúdíóíbúð með flygli
En hvernig er það að búa með píanóleikara sem spilar margar klukkutíma á dag? „Málið er að við erum annað hvort í sitt hvorri heimsálfunni eða í sama herberginu. Þegar við vorum í Oxford þá bjuggum við í stúdíóíbúð með flygil inni hjá okkur og ég vandist því að skrifa mínar ritgerðir á meðan hann var að æfa sig. En nú er ég aðeins orðin spillt af eftirlæti. Við búum nefnilega svo vel í Berlín að hafa tvö herbergi. Það getur verið svolítið erfitt að gera eitthvað „kreatíft“ þegar hann er að spila en samt er það yndislegt og gefandi að hlusta á hann. Ég æfi mig í tónlistinni á sama tíma og er farin að gjörþekkja verkin. Ég sakna þess einmitt mikið að hlusta á hann spila þegar við erum búin að vera lengi í sitt hvoru landinu.“
Mynd/Hari
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.