Samveran skiptir mestu í sumarfríinu

Flestir þekkja þá tilhlökkun sem er í því fólgin að komast með fjölskyldunni í frí eftir langan og strangan vetur. Börn hafa oft miklar væntingar til foreldra sinna á þessum tíma. Það á að vera svo gaman. Við öll saman. Hugsunin um allt sem á loksins að gera með fjölskyldunni á 3-4 vikum sem ef til vill hefði mátt dreifa á árið verður til þess að óþægileg spenna getur myndast milli foreldranna. En stundum vakna líka upp áleitnar spurningar. Getum við farið saman í frí? Hvað með börnin. Getum við sent þau á námskeið hluta úr sumrinu eða verðum við að dekka sumarið með því að skipta upp fríinu okkar? Hvert á að fara? Hvað getum við gert? Hvað leyfir fjárhagurinn?

Sem betur fer kunna langflestir að njóta þess að fara í frí og kunna að skipuleggja það með fjölskyldunni og er það að hinu góða. En hjá sumum getur fríið einnig kallað fram óöryggi og depurð þar sem foreldri sér ekki fram úr hlutunum og á erfitt með að gleðjast. Það er nefnilega þannig að stundum getur fríið komið róti á tilfinningar okkar og við leyfum erfiðum tilfinningum að gegnsýra huga okkar.

Fríið verður að martröð

Þegar kvíði og spenna fara saman í einhvern tíma hefur það einnig áhrif á svefnmynstrið á þann hátt að einstaklingurinn sefur verr og verður þreyttur og framtakslaus. Þá getur verið stutt í þunglyndi sem hefur ekki bara áhrif á einstaklinginn heldur alla fjölskylduna. Sá þunglyndi dregur þá aðra nákomna niður með sér og fríið breytist í martröð.

Aðrir fara með opnum huga í fríið og allt á að verða svo æðislegt. Það er farið í dýrar ferðir þar sem drykkja áfengis fer úr böndunum og börnin eru skelfingu lostin yfir rifrildi foreldranna. Minningar frá þessum fríum geta svo kallað fram kvíða og vanmetakennd jafnt hjá þeim fullorðnu sem og börnum þeirra. Sum börn eiga tvær fjölskyldur og upplifa því tvenns konar frí og eiga að fá að njóta þess án þess að hitt foreldrið fari að keppa um athygli.

Það er ljóst að lífsstíll foreldra hefur mikil áhrif á börn. Það að foreldrunum líði vel hefur í för með sér að börnin finna fyrir öryggi, ást, hlýju, stuðning og umhyggju. Foreldrar sem fylgjast með börnum sínum í leik og starfi, kynnast vinum þeirra sýna börnum sínum virðingu og efla á þann hátt tengsl og eru góðar fyrirmyndir fyrir börnin. Þeir foreldrar sem eiga við vanda að etja vilja börnum sínum vel og leggja sig fram við að gera sitt besta. Stundum er það erfitt en þá verður utanaðkomandi stuðningur frá ættingjum, vinum og hinu opinbera að koma inn tímabundið meðan sá sjúki leitar sér aðstoðar. Allir bera ábyrgð á sinni líðan  og því er það mikilvægt að leita sér hjálpar sem fyrst til að komast út úr vandanum og geta notið þess að vera með fjölskyldunni í leik og starfi.

Gerum ekki óraunhæfar væntingar

Gefum okkur tíma til að undirbúa frí á þann hátt að það komi á einhvern hátt til móts við þarfir allra í fjölskyldunni og gætum hófs hvort sem er í kostnaði, mat eða drykk. Gerum ekki óraunhæfar væntingar því þegar grannt er skoðað er það samveran sem skiptir mestu máli og ævintýri og skemmtanir sem við sköpum sjálf en ekki endilega keypt afþreying. Njótum þess að vera til í sumar.

 

Höfundur greinar:

Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur Landlæknisembættinu

Allar færslur höfundar

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE