Hvað er fólat?

Fólat er B-vítamín, oft nefnt fólasín eða fólinsýra. Fólat er nauðsynlegt fyrir fólk á öllum aldri en þó sérstaklega konur á barneignaaldri þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl lítillar inntöku fólats fyrir þungun og á fyrstu vikum meðgöngu og hættu á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fóstursins (s.s. klofnum hrygg, heilaleysi og vatnshöfuð).

Dagleg inntaka fólats í fjórar vikur fyrir þungun og á fyrstu tólf vikum meðgöngu dregur úr líkum á alvarlegum skaða í miðtaugakerfi fósturs um meira en helming. Á Íslandi greinast árlega um 6 tilvik alvarlegra skaða í miðtaugakerfi fósturs.

Þar sem þungun er ekki ávallt skipulögð fyrirfram er öllum konum sem geta orðið barnshafandi ráðlagt að taka daglega 400 míkrógramma (μg) fólattöflu (einnig nefnt fólinsýrutafla). Að auki er þeim ráðlagt að borða fólatríkt fæði sem viðbót við fólat í töfluformi.

Þeim konum sem hyggja á barneignir er ráðlagt að taka fólattöflu daglega í að minnsta kosti fjórar vikur fyrir þungun og halda því áfram að minnsta kosti fyrstu tólf vikur meðgöngu. Frekar er mælt með töflum sem innihalda einungis fólat (fólinsýru) heldur en fjölvítamíni, sérstaklega fyrir þungaðar konur, þar sem það er ávallt æskilegast að taka sem fæst bætiefni á fyrstu vikum meðgöngu en fólat og D-vítamín eru þar undanskilin.

Sjá einnig: Meðganga og hægðatregða – Hvað er til ráða?

Fólatrík matvæli

Grænmeti: Spínat, spergilkál (brokkólí), steinselja, spergill, rósakál, blómkál, kínakál, blaðsalat, blaðlaukur, graslaukur, grænkál, rauð paprika, avókadó, rauðkál, hvítkál.

Ávextir: Jarðarber, kíví, appelsínur.

Korn, fræ og hnetur: Vítamínbætt morgunkorn (skoðið innihaldslýsingu á umbúðum), múslí, haframjöl, gróf brauð (t.d. maltbrauð), hveitikím, hveitiklíð, sesamfræ, hörfræ, hnetur, möndlur, hnetusmjör.

Baunir: Kjúklingabaunir, sojabaunir, nýrnabaunir.

Barnshafandi konur ættu að forðast að borða lifur og lifrarafurðir, jafnvel þótt fólatrík sé, vegna þess hversu mikið er af A-vítamíni í lifur. Ráðlagður dagskammtur A-vítamíns á meðgöngu er 800 míkrógrömm. Sé dagskammturinn meira en 3000 míkrógrömm er mögulegt að það geti valdið vanskapnaði fósturs.

Ítarefni um fólat, ráðleggingar um mataræði og næringarefni og ráðleggingar um mataræði á meðgöngu er á vefsetrum Lýðheilsustöðvar og Miðstöðvar mæðraverndar auk Landlæknisembættisins.

Skoða bækling: Fólat – fyrir konur sem geta orðið barnshafandi (PDF, 2 MB)

Frá landlæknisembættinu 

Höfundur greinar:

Anna Björg Aradóttir hjúkrunarfræðingur Landlæknisembættinu

Allar færslur höfundar

 

SHARE