Hvers vegna eru verkir í fæðingunni?
Hríðarverkirnir koma þegar legið dregst saman og leghálsinn opnast. Þeir koma í bylgjum, sem kallast hríðir, eru oft óreglulegir og veikir í byrjun fæðingar en verða reglulegri og sárari eftir því sem á fæðinguna líður. Hver hríð varir í 40-60 sekúndur og byggist upp eins og alda sem nær hámarki og fjarar svo út. Með hverri hríð eykst útvíkkun leghálsins og færir þig nær fæðingunni. Leghálsinn þarf að opnast til fulls (10 cm) og síðustu millimetrarnir eru oft ansi strembnir en klárast yfirleitt hratt. Þegar útvíkkun lýkur breytist hríðamynstrið og við tekur ósjálfráð rembingsþörf. Á því stigi eru hríðirnar ekki eins sársaukafullar og þá getur konan líka rembst með hríðunum.
Það er mikill munur á því hvernig konur upplifa verki í fæðingunni. Einstaklingar hafa mismunandi sársaukaþröskuld og þol. Inn í sársaukaupplifun spilar einnig hvernig líkamlegu og andlegu ástandi manneskjan er í.
- Hvað get ég sjálf gert til að ráða við verkina?
Líkamlegt og andlegt ástand á stóran þátt í því hvernig fólk upplifir sársauka. Lélegt líkamlegt ástand, þreyta og kvíði getur orðið til þess að allur sársauki magnast upp. Ef maður er hins vegar í góðu andlegu og líkamlegu jafnvægi og vel hvíldur, þolir maður sársauka mun betur. Reyndu því að vera í góðu formi þegar kemur að fæðingunni, hreyfðu þig úti við á meðgöngunni, syntu eða farðu í gönguferðir, borðaðu næringarríkan og hollan mat, sofðu a.m.k. 8 – 10 klst. á sólarhring og aflaðu þér fróðleiks um fæðinguna þannig að þú sért andlega undir hana búin.
Í fæðingunni sjálfri getur þú líka gert ýmislegt til að auðvelda þér hríðarnar og minnka sársaukann:
- hafðu einhvern með þér sem þú treystir og líður vel með
- borðaðu smáar næringarríkar máltíðir, sérstaklega í upphafi fæðingar
- drekktu vatn og ávaxtasafa í smásopum með stuttu millibili alla fæðinguna
- hvíldu þig í byrjun fæðingar
- hreyfðu þig um þegar hríðirnar taka að styrkjast
- skiptu oft um stellingar og vertu sem mest upprétt
- notaðu öndunarmynstur til að ná slökun
- hlustaðu á róandi tónlist
- fáðu nudd á bakið og lendarnar
- farðu í sturtu eða bað.
Mörgum konum duga þessar aðferðir til að komast í gegn um fæðinguna en stundum dugar það ekki til og þá stendur til boða að nota annars konar verkjameðferð.
Verkjameðferð án lyfja
Nú orðið bjóða margir fæðingarstaðir upp á vatnsbað í fæðingu. Þá fer konan ofan í laug fulla af volgu vatni þegar hríðirnar eru orðnar kröftugar. Vatnið virkar slakandi og dregur úr hríðaverkjunum og konan er létt og á auðvelt með að skipta um stellingar. Einungis verður að gæta þess að vatnið sé ekki of heitt (< 38°C) því það er heilli gráðu heitara inni í leginu en líkamshiti móðurinnar er og ef barninu verður of heitt veldur það álagi á það og hjartslátturinn rýkur upp. Vatnsbólur
Sótthreinsuðu vatni er sprautað með fínni nál inn í húðina á 2-4 stöðum yfir spjaldhryggnum eða þar sem verkirnir eru sárastir. Talið er að þetta trufli sársaukaboðin frá leginu og minnkar þannig hríðarverkina án þess að hafa áhrif á framgang fæðingarinnar. Áhrifanna gætir í allt að 2-3 klst. Ókosturinn við þessa deyfingu er að það er töluvert sárt í ca. 20 sekúndur þegar vatninu er sprautað inn.
Stungið er í eða nuddaðir eru punktar/blettir á líkamanum sem hafa áhrif á sársaukaskynjun og orkuflæði í líkamanum. Slíkt nudd er ekki talið hafa aukaverkanir á móður eða barn. Sumar ljósmæður hafa sérhæft sig í nálastungum og svæðanuddi en einnig er hægt að semja við utanaðkomandi nuddara um að vera með í fæðingunni
Notað er sérstakt tæki sem gefur frá sér veikar rafbylgjur sem trufla sársaukaboðin frá leginu. Blöðkum með rafskautum er komið fyrir á spjaldhrygg konunnar og hún stillir síðan styrk rafbylgjanna eftir þörfum. Hægt er að fá Þessi tæki hjá sjúkraþjálfa sem einnig kennir notkun þeirra. Ekki er talið að svo veikar rafbylgjur hafi neikvæð áhrif á móður eða barn.
Sjá einnig: Þarf að setja fæðingu af stað?
Verkjameðferð með lyfjum?
Glaðloft er blanda af súrefni og köfnunarefnisoxíði. Konan andar því að sér gegn um grímu eða munnstykki. Það virkar fljótt eftir að þú byrjar að anda því að þér og verkun þess hverfur hratt eftir að þú hættir að anda því að þér. Þú heldur sjálf á grímunni/munnstykkinu og stjórnar því sjálf hversu mikið þú dregur að þér. Hægt er að stilla mismunandi styrkleika af glaðloftinu. Þegar þú finnur að hríð er að hefjast getur þú byrjað að anda glaðloftinu að þér. Ef þú svolgrar loftið vel í byrjun hríðar, þá passar það að hámarksáhrifum glaðloftsins er náð áður en hríðin stendur sem hæst. Glaðloft er oftast notað við öflugum hríðum á útvíkkunartímabilinu þegar leghálsinn hefur opnast um 5-6 sentimetra.
Kostir glaðloftsins eru hversu fljótt það virkar og hversu skammvinn áhrif þess eru. Það hefur því sáralítil áhrif á barnið. Einnig getur gríman hjálpað til við að beita meðvitaðri öndun til að slaka á. Helstu ókostir glaðloftsins eru að það veldur vímu og minnisleysi sem sumum konum finnst óþægileg. Einnig getur það valdið ógleði og mörgum finnst óþægilegt að vera með grímu fyrir vitunum þegar þær eru með hríðir og verki.
Petidín er sterkt, morfínskilt lyf sem dregur úr kvíða og spennu og virkar verkjastillandi. Það tekur ekki hríðarverkina en veitir góða slökun milli hríða. Petidín er gefið í sprautuformi í lær- eða rassvöðva, í skömmtum milli 50 og 100 mg og nær verkun eftir u.þ.b. hálftíma.
Helsti kostur Petidíns er hversu góða slökun það veitir milli hríða. Ókostirnir eru að það veldur oft ógleði og það hefur áhrif á taugaviðbrögð bæði móður og barns. Það virkar öndunarletjandi þannig að ef barnið fæðist skömmu eftir að Petidín er gefið þarf oft að gefa mótefni til að upphefja öndunarletjandi áhrif þess. Að auki er barnið lengi að útskilja niðurbrotsefni Petidíns og getur því verið sofandalegt og óduglegt að sjúga fyrstu 2-3 dagana eftir fæðingu.
Phenergan er róandi og ógleðistillandi lyf sem oft er gefið með Petidíni til að vega upp á móti ógleðiáhrifum þess. Phenergani er sprautað í lær- eða rassvöðva og virkar innan hálftíma frá gjöf. Það eykur róandi áhrif Petidínsins og dregur úr ógleði. Það fer einnig yfir til barnsins en virkar ekki eins lengi á það og Petidínið.
Þegar gefin er mænurótardeyfing (Epidural) er deyfiefni sprautað inn í ytra slíðrið utan um mænuna og virkar það á taugarnar sem liggja frá neðri hluta líkamans þannig að sársaukaboðin berast ekki til heilans. Mænurótardeyfingin tekur því í flestum tilvikum alveg burt hríðarverkina.
Helsti kostur mænurótardeyfingarinnar er hversu vel hún tekur alla verki án þess að sljóvga konuna. Ókostir mænurótardeyfingarinnar eru að hún dregur oftast úr hríðunum og lengir því fæðinguna svo yfirleitt þarf að gefa hríðarörvandi lyf með. Einnig minnkar oft rembingstilfinning. Konan á erfiðara með að hreyfa sig um vegna dofa í fótum og tilfinning í þvagblöðru minnkar svo stundum þarf að setja upp þvaglegg. Mænurótardeyfingin lækkar einnig blóðþrýsting svo blóðflæði getur minnkað til legs og fylgju. Blóðþrýstingslækkunin er hins vegar kostur hjá konum með of háan blóðþrýsting. Niðurbrotsefni þeirra deyfilyfja sem notuð eru fara smám saman yfir í blóðrás konunnar og yfir í fylgju og geta haft sljóvgandi áhrif á barnið. Algengara er að nota þurfi sogklukku eða töng í fæðingunni þegar kona er með mænurótardeyfingu og ennfremur eru keisaraskurðir algengari sé sú deyfing notuð.
Sjá einnig: Myndaði sjálf fæðingu dóttur sinnar
- Hvernig á ég að bera mig að varðandi verkjameðferð í fæðingu?
Það er gott að kynna sér hvaða verkjameðferð stendur til boða á þeim fæðingarstað sem þú ætlar að fæða á. Oft eru konur búnar að ákveða hvaða verkjameðferð þær vilja og vilja ekki áður en kemur að fæðingunni. Gott er að gera óskalista þar sem það kemur fram. Ef kona óskar eftir að ekki séu notuð nein deyfilyf þarf hún góðan stuðning og hjálp frá maka/fylginaut og þeirri ljósmóður sem aðstoðar hana í fæðingunni. Stundum dregst fæðing á langinn eða aðstæður verða þannig að ekki verður hjá því komist að þiggja lyfjagjöf. Ekki líta á það sem ósigur þótt fæðingin fari á einhvern annan veg en þú ætlaðir – enginn er minni manneskja þótt hún þiggi utanaðkomandi hjálp þegar eigið afl þrýtur.
Verkjameðferð í fæðingunni er val sem barnshafandi og fæðandi konan verður sjálf að taka afstöðu til – þá ákvörðun tekur enginn fyrir hana. Fáðu fræðslu hjá ljósmóðurinni sem sinnir þér í mæðravernd um hina ýmsu möguleika, kosti þeirra og galla.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.