Þjálfun barna með hreyfivandamál

Allir foreldrar fylgjast spenntir með þroska barna sinna og vilja veg þeirra sem mestann. Fjölskyldubönd hér eru sterk og mikil nálægð við aðrar fjölskyldur. Við skynjum því fljótt ef okkar barn er seinna í hreyfiþroska en börnin í kringum okkur.Við förum að hafa áhyggjur ef Siggi er ekki eins fljótur að sitja eða ganga og Nonni hennar Jónu systur. Fyrst berum við áhyggjur okkar upp við fjölskyldu og vini. Næsta skrefið er að minnast á áhyggjur okkar við lækni eða hjúkrunarfræðing á heilsugæslunni eða í ungbarnaeftirliti, t.d. í 3 og 5 ára skoðunum. Við eigum einmitt að bera áhyggjur okkar á torg. Því fyrr sem hreyfivandi er greindur því betra gengur að viðurkenna vandamálið og gera eitthvað í málunum. Rannsóknir hafa sýnt að góð hreyfifærni eykur sjálfsmynd barna og hefur áhirif á félagslega stöðu þeirra.

Rannsóknir í Noregi sýna að 6-10% skólabarna á aldrinum 7-10 ára eru klunnaleg í hreyfingum ( lumsiness). Má búast við að ef ekkert er að gert þá vindi þetta upp á sig og hafi áhrif á aðra þætti svo sem hreyfiþroska, félagsþroska, málþroska og skynjun.

Börn sem hafa verið greind með ofvirkni með athyglisbrest (AMO), misþroska (ADHD), tourette, Asberger heilkenni eða staðsett einhversstaðar á einhverfurófinu geta verið með skerta hreyfifærni. Ég ætla ekki að fara út í frekari skilgreiningar á ákveðnum fötlunum aðrir hafa þegar gert það, frekar hvað þessi börn eiga sameiginlegt og hvað sjúkraþjálfarar og foreldrar geta gert fyrir börn með skerta hreyfifærni.

Hvernig lýsir skert hreyfifærni sér?
Börn með skerta hreyfifærni er ekki einsleitur hópur, þau eru misjöfn eins og þau eru mörg. Til að greina hvar hreyfivandamálin liggja eru börnin oft send í sjúkraþjálfun af lækni. Sjúkraþjálfarinn framkvæmir þá oft á þeim hreyfifærnipróf . T.d. B-O próf, MOT próf eða önnur próf. Þá getum við séð hvar barnið stendur miðað við jafnaldra sína og hvaða þætti á að leggja áherslu á í þjálfun og til að meta framfarir hjá barninu.

Sjá einnig: Hvað er barnaastmi?

Margir þættir eru sameiginlegir með þessum börnum. Mörg hver voru róleg sem ungabörn en um leið og þau byrjuðu að ganga þá voru þau óstöðvandi. Sum aftur á móti hafa verið eirðalaus og óvær frá fæðingu. Oft voru þau lítið fyrir að vera á maganum og voru sein að velta sér á hliðarnar sum hver slepptu skriðinu. Þau hafa ekki náð að styrkja hálsinn, bakið og handleggina nóg til að valda skriðinu og missa því af mikilvægu ferli í þroskanum. Börnin eru fljótt sett í stól því þar eru þau róleg, í rauninni áður en þau eru búin að þroska með sér nægan vöðvastyrk og jafnvægi til að geta setið, sem er oft ekki fyrr en um 7-9 mánaða aldurinn. Mikið framboð er af allskonar stólum; bílstólum, taustólum fyrir ungabörn sem halla aftur, háir stólar við borð ofl. Við setu í stólum þurfa þau ekki að reyna eins á líkamann og liggjandi á gólfi og missa því oft af mikilvægu þroskaferli sem er nauðsynleg undirstaða fyrir vöðva hryggjarins svo að við getum haldið okkur uppi. Við erum að þjálfa vöðva barnsins þegar við erum að hnoðast með það halda á því í mismunandi stellingum, toga það upp af gólfi, hossa því á hnjánum, sitja með það í fanginu láta það liggja á maganum á okkur, fljúga, kitla það eða hafa það í magapoka þegar við erum að sinna heimilisstörfum. Þegar þau byrja að ganga eru þau oft ekki varkár eins og önnur börn. Þessi börn þjóta strax um og vaða úr einu í annað eru fljótt eirðalaus. Hreyfingarnar eru lengur klunnalegar, þau eru dettnari, fæturnir þvælast oft fyrir þeim, þau reka sig auðveldlega í hluti vegna þess að rúmskyn er lélegt.

Hreyfivandamál geta bæði verið í gróf- og fínhreyfingum. Dæmi um grófhreyfingar eru , t.d. að hlaupa hoppa og kasta bolta en fínhreyfingar; skrifa, sauma, reyma skó eða borða með hnífapörum. Afstöðuvitundin er skert. þeim gengur illa að kubba, reka sig auðveldlega í vinina, stíga eða setjast ofan á þá þegar þau ætla að setjast við hliðina á þeim.
Þau eru lin í vöðvum, sitja oft hokin. Grunnspenna vöðvanna virðist vera lægri hjá þeim. Þetta er vöðvaspenna sem við stjórnum ekki meðvitað heldur er stjórnað ósjálfrátt frá mænukylfunni. Þessi vöðvaspenna segir okkur t.d. hvað við þurfum að spenna vöðvana mikið í baki og háls til að halda bakinu í uppréttri stöðu. Aftur á móti nota þessi börn svo meiri vöðvakraft til að vega upp á móti þessari lágu grunnspennu t.d. þegar þau eru að skrifa þá halda þau mjög fast um blýantinn, spenna oft alveg upp í axlir og grúfa þau sig í keng yfir bækurnar. Ekki er því óalgegnt að þau kvarti um verki í vöðvum. Líkams- eða limaburður er oft slappur og tilfinnig fyrir líkamanum er lítil hvort sem er í kyrrstöðu eða á hreyfingu. Þau eru klunnaleg þegar þau hlaupa eða hoppa, virðast vanta fjöðrun, lenda þunglammalega og meiða sig oftar þegar þau detta. Samhæfing augna og handa er oft léleg og einnig milli hliða, þannig að þau gleyma t.d. að nota vinstri hendina til að styðja við þegar þau eru að vinna með þá hægri. Jafnvægi er oft lélegt, og eiga þau því oft erfitt með eða eru hrædd við að klifra. Það er því ekkert skrítið að þau vilja ekki vera með í flóknu m leikjum eins og t.d. boltaleikjum þar sem krafist er samhæfingar,styrks, liðleika, afstöðuskyns og jafnvægis. Halda ekki einbeitingu við útskýringar á flóknum leikjum. Þá er auðveldast að gefast upp og vera ekki með heldur en að fá eilífar skammir um að missa boltann eða klúðra leiknum.

 

Þjálfun til að bæta hreyfigetu.
Ef barnið á við hreyfivandamál að stríða er nærtækast að grípa til þjálfunar til að bæta ástandið. Þá komum við sjúkraþjálfararnir inn í og ekki síður foreldrarnir svo auðvitað íþróttakennarar og íþróttaþjálfarar. Eins og fyrr segir þá metum við börnin samkvæmt stöðluðum prófum til að sjá hvað þarf að æfa. Það sem eðlileg börn læra af sjálfu sér þarf oft að kenna þessum börnum frá grunni eins og t.d. að hjóla. Þjálfunin er því einstaklingsmiðuð og oft þarf að brjóta æfingarnar niður. Ef barn á erfitt með að vera í boltaleikjum er gott að byrja á að kasta í gólf eða vegg áður en farið er að kasta á milli (6 ára börn eiga að vera farin að kasta og grípa miðlungs stórum bolta). Ýmislegt er hægt að gera ef börn eiga erfitt með að hoppa jafnfætis, þá er auðveldara að hoppa á trampolíni, þykkri dýnu, hoppa niður úr rimlum, af skammeli, eða yfir band. Ef vandamál er með þyngdarskyn þá er gott að æfa að róla, vega salt, rugga sér í ruggustól eða í hengirúmi. Jafnvægi er oft lélegt hjá þessum börnum. Þá er hægt að finna upp á ýmsum leikjum t.d. ganga eftir línu eða bandi á gólfinu, ganga á sandkassa brúnum, stikla á steinum í holtum og móum eða í fjörum. Einnig er upplagt fyrir foreldra að fara með börnin í göngutúr í náttúrunni þar er unirlagið óútreiknanlegt og börnin þurfa bæði að halda athyglinni hvar þau stíga og hvert þau eru að fara. Það er hægt t.d. að klifra upp brekkur eða í trjám, þar sem það má, hlaupa í sandi og hoppa á steinum. Henda steinum í gamla dós og fleyta kerlingar krefst t.d. samhæfingar og útsjónarsemi. Það er því ýmislegt sem við foreldrar getum gert til að örva börnin. Heima er líka upplagt að hafa einhverja dýnu sem má hoppa á eða púða og sængur. Systkini hafa oft mikla þörf fyrir að hnoðast saman og er það ósköp eðlilegur leikur en stundum geta klunnalegu börnin verið full harðhent.

Sjá einnig: Skapofsaköst barna

Þessi börn eiga oft erfitt uppdráttar í leikfimistímum. Þá er erfitt að halda athyglinni og fara eftir fyrirmælum í svo stórum sal og lítt afmörkuðum eins og skólastofan er. Oft hentar þeim betur að vera í minni hópum, þar sem áreitin eru ekki eins mikil og æfingarnar sniðnar eftir þeirra þörfum. Sama gildir oft einnig um sundkennsluna. Þau eru oft lengur að ná sundtökunum og eru jafnvel vatnshrædd. Þá er gott að vera búin að aðlaga þau sundlauginni áður en sundkennslan hefst og gera sundferðirnar spennandi. Hafa með sundgleraugu, þá er t.d. hægt að kafa eftir pening eða lyklinum. Það er hægt að fara í eltingaleiki, draga hvort annað í sundlauginni, hoppa eða spyrna sér til mömmu eða pabba. Þegar þau fara svo að sýna áhuga að sleppa sér þá er gott að hafa froskalappir. Það er auveldara að komast áfram í skriðsundi, það þarf ekki að hugsa um eins marka þætti eins og þegar þú syndir bringusund, beygja, kreppa, sundur saman, því þar kemur samhæfingin til sögunar.

Kennarinn og þjálfarinn þurfa að vera meðvitaðir um barnið og gera sér grein fyrir að ýmsar ástæður geta verið fyrir óæskilegri hegðun barnsins. Ekki bara það að það sé ofvirkt eða óalandi. Það getur verið þreytt, heldur ekki einbeitingunni við flóknum útskýringum, skilaboðin of flókin, of miklar eða of litlar kröfur, ert þú illa upplagður, hækkaðir þú röddina óþarflega mikið, miskildir þú barnið. Ertu með “fullorðinsæfingar” eða ertu að hjakka alltaf í sama farinu og gleymdir gleðinni eða góða skapinu heima. Gott er að muna að þín viðbrögð geta haft áhrif á barnið. Það er ekki alltaf barnið sem gerir eitthvað rangt, kannski last þú vitlaust í hegðun barnsins. Það er auðveldara að breyta viðbrögðum okkar heldur en barninu sjálfu.

 

Ég mæli með eftirfarandi bókum til að fræðast nánar um hreyfivandamál barna.

  • Að hreyfa sig og hjúfra eftir Þóru Þóroddsdóttur, Ásútgaáfan Akureyri 2001
  • Ofvirknibókin eftir Rögnu Freyju Karlsdóttur, útgefin af höfundi
  • Tígurinn taminn eftir Marilyn Dornbush og Sheryl Pruitt

 

SHARE