Aðstoð við börn eftir áfall

Þeir sem lenda í atburðum eins og bruna, jarðskjálfta eða bílslysi verða oftast fyrir miklu áfalli. Börn eru sérstaklega viðkvæm við slíkar aðstæður. Sú upplifun barnsins að umhverfi þess sé öruggt, breytist tímabundið og skyndilega veit barnið ekki á hverju það getur átt von. Flest börn eiga erfitt með að skilja þær afleiðingar sem slys eða náttúruhamfarir geta haft í för með sér. Rétt viðbrögð þeirra sem standa barninu næst geta hjálpað því að endurheimta öryggi sitt á ný og ná fyrra jafnvægi. Ef þú þekkir barnið vel ættir þú að átta þig á því hvort barnið á við einhvern vanda að stríða og hverjar þarfir þess eru.

Það sem fjallað er um í þessum bæklingi eru einungis almennar leiðbeiningar. Ekki hika við að biðja um aðstoð frá öðrum fjölskyldumeðlimum, vinum, heilsugæslu, skóla eða kirkju.

Hvernig geta börn brugðist við?

Hræðsla og kvíði – Börn óttast oft að áfallið endurtaki sig og að þau og fjölskylda þeirra geti því verið í hættu á ný. Það sem þau óttast oft mest er að þau verði skilin ein eftir. Slíkur ótti er mjög raunverulegur fyrir barnið þó svo að hann virðist óraunhæfur í augum þess fullorðna.

Afturhvarf – Þegar barn er óttaslegið og kvíðið hefur það tilhneigingu til að haga sér og jafnvel tala eins og yngra barn. Það getur byrjað að væta rúmið á ný, sjúga á sér þumalinn, hanga í fötum foreldranna og verða hrætt við ókunnuga. Eldra barn sem fram að áfallinu var orðið sjálfstætt og lítið heima við, vill nú gjarnan leita í öryggið heima og fer að dvelja mun meira þar. Börn taka þessa hegðun ekki meðvitað upp og ætla ekki að haga sér barnalega. Kvíðinn yfirgnæfir hins vegar skynsemina og truflar eðlilegan þroska.

Svefnörðugleikar – Oft birtist kvíði hjá barni sem svefnörðugleikar. Barnið fer að fá martraðir, sefur illa eða er hrætt við að sofna eða sofa eitt. Það verður gjarnan hrætt við myrkrið og getur vaknað oft á nóttu.

Líkamleg viðbrögð – Sum börn fá kviðverki, höfuðverk, ógleði, átröskun eða önnur líkamleg einkenni sem tengd hafa verið við streitu. Einkennin geta t.d. verið viðbrögð við hræðslu, sektarkennd, reiði eða tilfinning um að vera varnarlaus gagnvart því sem gæti komið fyrir.

Skilyrt viðbrögð – Ákveðin lykt, hljóð, hlutur eða annað getur kallað fram sterka minningu um atburðinn. Þegar barnið sér eða finnur þetta áreiti sýnir það oft sterk viðbrögð.

Einbeitingarörðugleikar – Börn á öllum aldri geta átt erfitt með að einbeita sér. Mörg finna fyrir því að þau truflast auðveldlega þó að þau séu að reyna að einbeita sér og sum upplifa sig sem örlítið ringluð.

Er munur á viðbrögðum barna eftir aldri?

0-2 ára – Börn sem hafa takmarkaðan orðaforða eða eru jafnvel ekki enn farin að tala geta ekki lýst líðan sinni með orðum. Þau geta samt sem áður fest sér í minni ýmislegt tengt áfallinu s.s. lykt, hljóð, mynd o.fl. Ungbörn geta brugðist við áfallinu með því að verða óvær eða pirruð, gráta meira en þau eru vön eða vilja helst vera í fanginu á fullorðnum. Þegar þau eldast gætu þau tekið upp á því að leika atriði úr áfallinu í leikjum sínum jafnvel þótt nokkur ár séu liðin og allir hafi talið að barnið væri löngu búið að gleyma atvikinu.

Forskólaaldurinn 2-6 ára – Börn á forskólaaldri finna oft sterklega til vanmáttar síns gagnvart hvers kyns ógn. Vegna aldurs síns og smæðar skortir þau getu til að vernda sig sjálf og aðra. Vegna þessa verða þau oft mjög hrædd og kvíðin þegar einhver ógn steðjar að. Þau átta sig ekki enn á að missir er varanlegur og eiga von á því að öðlast fljótlega aftur það sem fyrir var hvort sem það eru eignir eða einstaklingar. Í nokkrar vikur eftir áfallið getum við átt von á að sjá atburði úr því bregða reglulega fyrir í leikjum barnsins. Barnið getur jafnvel sviðsett atvikið s.s. bílslys aftur og aftur. Leyfið barninu að leika sér á þennan hátt því að þetta er sú úrvinnsla sem því er nauðsynleg.

Skólaaldurinn 6-10 ára – Börn á skólaaldri eru farin að gera sér grein fyrir varanleika missis. Sum börn verða mjög upptekin af áfallinu eða atburðum tengdum því og vilja stöðugt tala um það. Þessi tilheiging barnins getur truflað einbeitingu þess í skóla og því getur skólagangan beðið hnekki á meðan á þessari úrvinnslu stendur. Aukinn þroski barns á skólaaldri gefur því forsendur til að líta á áfallið í breiðara samhengi og um leið geta tilfinningar tengdar því verið flóknari s.s. samviskubit, sektartilfinning, tilfinning um að hafa brugðist, reiði yfir því að ekki skyldi hafa tekist að koma í veg fyrir atburðinn eða draumar um að hafa geta komið til bjargar.

Unglingsárin 11-18 ára – Þegar börn fara að nálgast unglings- og fullor ðinsár líkjast viðbrögð þeirra við áföllum æ meir viðbrögðum fullorðins fólks. Þau geta sýnt sambland af barnalegum viðbrögðum eins og nefnd hafa verið hér að ofan og þroskuðum viðbrögðum. Stundum getur það að lifa af ógnvænlegar og oft lífshættulegar aðstæður haft það í för með sér að þau upplifa sig ódauðleg á eftir og fara að taka alls kyns óskynsamlegar áhættur með líf sitt. Áfengis- og jafnvel vímuefnaneysla gæti aukist. Á móti gætu sumir unglingar upplifað hræðslu við að yfirgefa öryggið heima og orðið mjög heimakærir. Flest í tengslum við fullorðinsárin miðar að því að takast á við utanaðkomandi verkefni og að seilast sífellt lengra út í lífið. Eftir alvarlegt áfall virðist heimurinn oft ekki réttlátur eða öruggur og það getur verið kvíðvænlegt að ganga berskjaldaður út í hann. Unglingurinn getur verið þjakaður af þessum tilfinningum en átt jafnframt í erfiðleikum með að tjá þær við sína nánustu.

Hvað get ég gert til að aðstoða barn eftir áfall?

Haldið daglegum venjum í horfinu – Það að allt sé á sínum stað heima fyrir, matur á réttum tíma, skólinn á sama tíma og áður, háttatíminn og svo framvegis veitir barninu aukna öryggistilfinningu og það nær stjórn á aðstæðum sínum á ný. Það er mikilvægt að barn sé sem mest með sínum nánustu eftir áfall.

Uppfylltu þarfir barnsins – Leyfið barni sem orðið hefur fyrir áfalli að vera í meiri líkamlegri snertingu við ykkur en það hefur gert í einhvern tíma á undan. Leyfið því að fylgja ykkur hvert sem þið farið, takið oftar utan um það og faðmið það að ykkur. Ef barnið óskar eftir því að sofa ekki eitt leyfið því þá að sofa hjá ykkur. Sum börn vilja hafa ljósið kveikt á nóttunni, fá að nota snuð eða hafa uppáhaldsbangsann á ný. Ef barnið vill ekki fara á mannamót skulið þið ekki þvinga það til þess.

Tala um það sem gerðist – Börn tjá sig á ólíkan hátt um líðan sína. Sum börn virðast dofin og draga sig í skel og geta alls ekki tjáð sig um það sem gerðist. Önnur geta sýnt mikil skapbrigði og jafnvel skapofsaköst en síðan geta komið tímabil þar sem börnin virðast afneita fullkomlega því sem gerst hefur og leika sér eins og ekkert hafi í skorist. Börn eru oft mjög ringluð eftir áfall og eiga erfitt með að átta sig á hvað raunverulega gerðist eða hvað það hefur í för með sér. Þau hafa því oft mikla þörf fyrir að spyrja spurninga og jafnvel sömu spurninganna aftur og aftur. Það getur hjálpað barni að átta sig á hvað hefur gerst ef þið eruð þolinmóð og svarið spurningum þess af hreinskilni.

Hér eru nokkrar tillögur um hvernig gott er að tala við börn:

  • Vertu vakandi fyrir því þegar barnið ber upp spurningar eða hefur þörf fyrir að tala.
  • Viðurkenndu upplifun og tilfinningar barnsins þrátt fyrir að þær geti verið ólíkar þínum eigin.
  • Vertu heiðarleg/ur við barnið og svaraðu spurningum þess eftir bestu samvisku skýrt og skilmerkilega.
  • Vertu viss um að barnið hafi skilið svörin rétt og dragi af þeim réttar ályktanir.
  • Varastu að nota orð sem barnið skilur ekki eða orð sem geta haft aðra merkingu s.s. að sá látni hafi „sofnað”. Það gæti haft í för með sér að barnið verði hrætt við að sofna eða óttist að aðrir í fjölskyldunni sofni.
  • Ef börnin eru fleiri en eitt er mikilvægt að skapa þær aðstæður að þau geti deilt tilfinningum sínum innbyrðis og rætt upplifanir sínar.
  • Vertu sérstaklega ástrík/ur og gefandi við barnið því að ást og umhyggja hjálpa barninu mikið.

Algengar spurningar foreldra og annarra aðstandenda:

Hvað ef mér líður sjálfri/sjálfum svo illa að ég treysti mér ekki til að ræða þetta?

Vertu heiðarleg/ur við barnið og segðu því rétt frá. Líka þegar þú grætur eða sýnir önnur sterk skapbrigði s.s. reiði eða leiða. Þegar bæði þú og barnið hafið orðið fyrir áfalli upplifið þið erfiðar tilfinningar. Það getur því stundum verið erfitt að svara öllum spurningum barnsins því slíkt vekur oft upp sárar tilfinningar. Þú gætir þurft á því að halda að fá hvíld frá spurningunum og biðja annan fjölskyldumeðlim að svara fyrir þig.

Verður barnið háð mér ef ég læt mikið eftir því meðan það vinnur sig út úr áfallinu?

Börn aðlagast nýjum aðstæðum með tímanum. Barnið er líklegt til að vinna betur úr áfallinu og verða fyrr sjálfstætt á ný ef þú sýnir því aukna athygli, ást og umhyggju meðan á áfallinu stendur og fyrst á eftir.

Hvers vegna spyr barnið sömu spurninganna aftur og aftur?

Þar til börn eru orðin unglingar hafa þau ekki góðan skilning á því hvað það þýðir að vera dáinn eða hvað það hefur í för með sér og hvers vegna slæmir hlutir koma fyrir gott fólk. Þau reyna því að fá upplýsingar sem þau síðan ef til vill gleyma eða misskilja og spyrja því á ný, allt í þeim tilgangi að reyna að skilja þessar nýju aðstæður. Yngri börn gera sér enga grein fyri r endanleika dauðans og því spyrja þau oft mikið vegna þess að þau eru hissa á því að hlutirnir hafi ekki enn snúið í fyrra horf og halda jafnvel að hinn látni snúi fljótlega aftur.

Barnið mitt áfellist sjálft sig – hvað get ég gert til að aðstoða það?

Börn bregðast gjarnan við áföllum með því að halda að þau sjálf séu ábyrg og hafa því samviskubit yfir afleiðingunum. Biddu barnið að útskýra fyrir þér hvernig það heldur að atburðurinn hafi atvikast. Hlustaðu vel eftir sjálfsásökunum hjá barninu og leiðréttu þær. Reyndu að setja atburðinn í eins rökrétt samhengi og hægt er í þeim tilgangi að útskýra að enginn gæti hafa komið í veg fyrir þetta, síst af öllu barnið.

Sjá einnig: ,,Ég er enn í dag að vinna úr þeirri sorg sem fylgir því að missa barn og mun líklega vera að því alla mína ævi.“

Hvernig getur skólinn aðstoðað?

Það er góð hugmynd að láta skólayfirvöld vita þegar barnið þitt hefur orðið fyrir áfalli. Kennarinn veit þá hvað er að gerast hjá barninu og getur brugðist betur við ef það fer skyndilega að hegða sér öðruvísi en áður.

Ef ég upplifi að heimurinn er ekki lengur eins og ég hélt að hann væri og finn til óöryggis, hvernig get ég þá sannfært barnið mitt um annað?

Í framhaldi af áfalli er eðlilegt að vera óöruggari og eiga erfiðara með að treysta á sama hátt og áður. Skynsemin segir okkur þó að það eru ekki miklar líkur á að atburðurinn endurtaki sig. Jafnvel þótt þér líði svona þá mun það gagnast barni þínu að heyra: „Þetta er búið. Nú reynum við að gera allt sem við getum til að vera örugg og saman getum við hjálpast að við að líta hvert eftir öðru”. Þegar barnið þitt er komið aftur inn í sínar daglegu venjur þá mun það einnig veita þér aukið öryggi.

Hvenær skal leita til fagmanna?

Börn eru ótrúlega seig þó svo að áföll hafi mikil áhrif á þau. Öll fyrrnefnd viðbrögð eru „eðlileg” að mati fagfólks. Fagaðili getur boðið upp á hlutlaust og öruggt umhverfi til að ræða málin og stundum hjálpar það börnum að geta tjáð líðan sýna og upplifanir þar.

Þú sem stuðningsaðili barnsins getur þó oft veitt bestu hjálpina með því að gefa því tíma til að tjá sig, hlusta á það, elska það og virða. Það getur þó stundum verið mjög gagnlegt að leita sér fagaðstoðar fyrir barnið og á það sérstaklega við í neðangreindum tilfellum:

Ef um er að ræða:

  • Hegðunar- eða námerfiðleika í skóla.
  • Skapofsaköst.
  • Einangrun frá öðrum börnum eða félagslífi.
  • Martraðir eða önnur svefnvandamál.
  • Líkamleg einkenni s.s. ógleði, höfuðverki, þyngdaraukningu eða þyngdartap.
  • Kvíðaköst og fælni sem versnar þegar eitthvað minnir á atvikið.
  • Þunglyndi eða vonleysi tengt framtíðinni.
  • Áfengis- eða lyfjavandamál.
  • Áhættuhegðun s.s. of hraðan akstur og alla aðra hegðun sem í raun stefnir lífi barnsins í hættu.
  • Stöðugar hugsanir og umræður um atburðinn sem virðast ekki réna.

Það getur gert barninu erfiðara fyrir að vinna úr áfallinu ef það hefur nýlega orðið fyrir annarri þungbærri reynslu s.s. ef foreldrarnir hafa nýlega skilið, barnið hefur nýlega misst náinn ættingja eða orðið fyrir einhverju öðru áfalli. Það að hafa flutt í nýtt umhverfi getur líka gert barnið viðkvæmara. Nýtt áfall getur kallað fram allar þær tilfinningar og upplifanir sem tengdar voru fyrra áfallinu og þannig gert þetta nýja áfall alvarlegra og jafnvel óyfirstíganlegt í augum barnsins.

Það að leita fagaðstoðar þýðir ekki að barnið eigi við alvarlegan geðrænan vanda að stríða heldur einungis að það er að berjast við tímabundið vandamál. Það merkir heldur ekki að þú hafir brugðist. Þeir sem leita slíkrar aðstoðar átta sig oft á því hversu gott er að tala við einhvern sem ekki er tengdur áfallinu persónulega. Hann getur hjálpað þeim að átta sig á tilfinningum sínum og upplifunum tengdum áfallinu.

Sjá einnig: Viðbrögð við áföllum og sorg

Rauði kross Íslands

Rauði kross Íslands er sjálfboðahreyfing 18 þúsund félagsmanna og yfir þúsund virkra sjálfboðaliða sem starfa í 51 deild um allt land. Sjálfboðaliðar og starfsmenn aðstoða flóttamenn, kenna skyndihjálp, hjálpa einstaklingum í þrengingum, safna fötum til neyðarhjálpar, starfa með börnum og ungmennum, gegna lykilhlutverki í neyðarvörnum og inna af hendi óteljandi önnur störf til þess að létta og koma í veg fyrir þjáningar. Alþjóðlegt hjálparstarf Rauða kross Íslands nær á hverju ári til þúsunda fórnarlamba hamfara, ófriðar og örbirgðar um allan heim.

Sálræn skyndihjálp

Sérhæfðir leiðbeinendur í sálrænni skyndihjálp á vegum Rauða kross Íslands halda námskeið í sálrænni skyndihjálp. Lengd námskeiðs er 8 klukkustundir. Boðið er upp á styttri eða lengri námskeið ef stærri hópar óska eftir því.

Áfallahjálparteymi Rauða kross Íslands fyrir börn og unglinga

Í teyminu eru sálfræðingar, prestar, hjúkrunarfræðingar og fleiri sérfræðingar. Þeir eru kallaðir út af Rauða krossinum þegar beiðni um áfallahjálp hefur borist og þörf er á sérfræðiaðstoð.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða krossins, vefur þeirra er redcross.is

 

SHARE