Efnaskipti fitu

Fituefnaskipti mannslíkamans eru afar skilvirk. Jafnvel þótt einhver sé 10-20 kg of þungur er umframþunginn í raun aðeins örlítið brot af þeim sex tonnum af fitu sem meðalmaðurinn neytir á ævinni. Æskileg samsetning fæðunnar – fæðuhringurinn – þar sem fita gefur ekki meira en 35% orkunnar, kolvetni 55-60% og prótein að minnsta kosti 10% tryggir góða dreifingu næringarefnanna. Þarfirnar eru þær sömu hvort sem viðkomandi er af eðlilegri þyngd eða of þungur en prótein og kolvetni eru hins vegar meira seðjandi en fita miðað við fjölda hitaeininga. Þess vegna er æskilegra að fæða feitra innihaldi hærra hlutfall kolvetna en fyrrgreind hlutföll segja til um.

Fituefnum – sem á máli lækna eru nefnd lípíð – má skipta niður á ýmsa vegu. Mikilvægustu fituefnin í fæðunni eru þríglýseríð og fitusýrur (mettaðar og ómettaðar) en þar er einnig að finna kólesteról sem getur skipt sköpum fyrir heilsufar einstaklingsins. Efnahvatinn lípasi sem einnig er nefndur fitukljúfur getur brotið þríglýseríð niður í glýseról og fitusýrur. Melting fitunnar er flókið ferli sem fer aðallega fram í smáþörmunum.

Sjá einnig: Drykkurinn sem bræðir fituna á brott

Hvernig tekur líkaminn upp fitu?

Melting fitunnar byrjar ekki í munninum ólíkt því sem gildir um kolvetni. Í magasekknum á sér heldur ekki stað nein melting fitu sem heitið getur. Það er ekki fyrr en í görnunum sem eitthvað fer að gerast. Þar koma gallsýrur og lípasi til sögunnar. Gallsýrur verða til í lifrinni og flytjast þaðan í gallblöðruna. Úr gallblöðrunni leysist gallið út í meltingarveginn í tengslum við neyslu á fituríkum mat en gallsölt eru nauðsynleg til þess að lípasinn vinni sitt verk. Lípasi verður til í brisinu. Glýseról og stuttar fitusýrur eru teknar upp beint í frumum þarmanna. Gallið gerir önnur fituefni uppleysanleg í vatni og líkamanum þar með kleift að taka efnin upp. Auðvelt er að mæla magn þríglýseríðs og kólesteróls í blóðinu og eftir fituríka máltíð má merkja aukningu á þessum fituefnum nokkrum tímum síðar.

Ferðalag fitunnar í blóðrásinni

Í blóðinu er fitan ávallt bundin við prótein, svokölluðum lípópróteinum. Þríglýseríðar, kólesteról og fosfólípíðar úr fæðu eru flutt frá þörmum til lifrar og áfram til frumna líkamans með hjálp lípópróteina. HDL og LDL eru lípóprótein sem starfa í blóðrásinni sem einskonar „ferjur fyrir kólesteról og önnur fituefni sem þurfa að ferðast milli lifrar og annarra vefja líkamans. HDL annast flutning kólesteróls frá vefjum (þar á meðal æðum) til lifrar og er í daglegu tali kallað „góða kólesterólið. LDL annast flutning kólesteróls frá lifur til vefja og er því kallað „slæmakólesterólið. Kólesteról og þá einkum hlutföll „góða kólesterólsins – HDL – og hins „slæma – LDL – getur haft mikil áhrif á framvindu æðakölkunar.

Hvernig brennur fitan í líkamanum?

Margar frumur verða sér úti um orku með því að brjóta niður þríglýseríð sem þær fá ýmist úr fæðunni eða fituforðabúrum frumunnar sjálfrar. Mikilvægasta orkulind frumunnar er þó niðurbrot á kolvetnum. Skorti frumurnar kolvetni – annað hvort vegna skorts á þeim í fæðunni eða af völdum sykursýki – eiga þær sér ekki annarra kosta völ við að afla sér orku en að brenna fitu. Niðurbroti mikils fitumagns fylgir aftur á móti myndun svonefndra ketónefna. Ef þau fara að hlaðast upp í líkamanum geta þau skapað hættuástand hjá fólki með sykursýki (ketósu).

Sjá einnig: Andlitsæfing – Minnkaðu fituna og styrktu andlitsvöðvana

Hvernig er fitan geymd í líkamanum?

Í skilningi líffræðinnar er fituforðabúr líkamans sjálfstætt líffæri sem hefur að geyma rúmlega 50 milljarða af fitufrumum. Auk slíkrar fitugeymslu geta ýmsar frumugerðir innihaldið minni fituforðabúr. Hjá feitu fólki verða þessar fitugeymslur sýnilegar eins og alkunna er. Þó er ekki sama hvar fitan er geymd, staðsetning fituforðabúranna getur haft úrslitaáhrif á það hversu hættuleg fitan er heilsufari fólks.

Hvernig er fitubrennslunni stjórnað?

Jafnvægið á milli fitusöfnunar og -losunar stjórnast bæði af hormónaflæði og fyrir tilverknað taugakerfisins. Mikilvægasta hormónið sem stjórnar fitubrennslunni er insúlín sem eykur fitusöfnun. Stjórnun taugakerfisins á fitubrennslunni fer einkum fram í ósjálfráða taugakerfinu. Stundi maður hreyfingu örvar það þann hluta sjálfráða taugakerfisins sem nefnist sympatíska taugakerfið (drifkerfið). Við það losa frumurnar þríglýseríð út í blóðið svo það verður aðgengilegt fyrir aðrar frumur líkamans, til dæmis vöðvafrumur.

 

SHARE