Var orðin svo þung að hún óttaðist um líf sitt

Heiðdís Austfjörð var orðin svo þung að hún óttaðist verulega um heilsu sína. Hún reyndi ýmislegt til að ná tökum á þyngdinni en ekkert gekk. Hún fór í hjáveituaðgerð á síðasta ári, eftir mikinn undirbúning, og hefur nú algjörlega breytt um lífsstíl.

„Ég fór í hjáveituaðgerð í mars 2015, en það var mjög langur aðdragandi að því. Ég var búin að vera alltof þung lengi,“ segir Heiðdís Austfjörð, förðunarfræðingur, hársnyrtir og eigandi vefverslunarinnar haustfjord.is, sem breytti algjörlega um lífsstíl áður en hún fór í sjálfa í aðgerðina. Þyngdin var farin að há henni mjög mikið í daglegu lífi og hún var í raun farin að óttast um líf sitt, þrátt fyrir að vera ekki orðin þrítug.

Náði botninum 2012

„Ferlið hófst árið 2010 þegar fór ég í fimm vikna prógramm inni á Reykjalundi, eins og allir gera áður en þeir fara í slíka aðgerð. Ég ætlaði mér samt aldrei í aðgerðina, ég vildi bara gera þetta sjálf. En ég hélt áfram að þyngjast og náði botninum árið 2012. Ég var orðin hrædd um heilsu og líf og ákvað að tala aftur við lækninn sem var með mig í prógramminu og fór af alvöru að spá í þessari aðgerð.“ Það liðu þó þrjú ár þar til Heiðdís fór í aðgerðina, enda krefst slíkt inngrip mikils undirbúnings og að mörgu þarf að huga.

„Ég var orðin svo hrædd um heilsuna að ég fór reglulega í blóðprufur til að kanna hvort það væri í lagi með mig. Það er ekkert grín að vera ekki með heilsuna í lagi, hvað þá að ætla að verða fullorðinn ekki með heilsuna í lagi. Þetta aftrar manni í svo mörgu. Ég hugsaði hvort ég myndi hreinlega lifa. Hvort ég myndi ná því að verða þrítug, hvort ég yrði fertug. Hvort ég gæti eignast börn, það dregur úr líkunum að vera of þungur. Og ef ég gæti eignast börn, hvort ég gæti þá sinnt þeim, því ég fann alltaf til og var alltaf þreytt. Þessar pælingar voru því orðnar miklu meiri en að ég kæmist ekki í einhvern kjól.“

Heiðdís segir þessar hugsanir hafa tekið á og það var í raun mikið áfall fyrir hana að horfast í augu við stöðuna eins og hún var. „Ég fór því að snúa öllu við hjá mér. Og hausnum þá aðallega. Maður kemst ekkert án hans. Það er sama hvað maður djöflast og borðar rétt, ef hausinn er ekki með þá er maður aldrei sáttur.“

28540 - Heiðdís2

Á myndinni til vinstri er Heiðdís sem þyngst, en hægra megin er hún búin að missa 40 kíló.

Undirbjó sig vel fyrir aðgerðina

Hún gerði sér vel grein fyrir að því hvað hjáveituaðgerð væri mikið inngrip í líkamann og um leið og hún fékk grænt ljós frá lækninum um að hún kæmist slíka aðgerð, þá fór hún að undirbúa sig. Hún vildi vera í hraust og tilbúin að takast á við breytingarnar á líkamanum. „Ég fór til dæmis að fara í einkaþjálfun þrisvar í viku. Ég hef alltaf æft eitthvað en aldrei náð að tileinka mér þennan lífsstíl svona mikið. Dagurinn byrjar á því að ég fer í æfingagallann og fer á æfingu,“ segir Heiðdís en í dag er hreyfingin einfaldlega fastur punktur í tilveru hennar, án þess að hún taki sérstaklega eftir því.

„Þetta var alltaf pínu kvöð fyrir mig og oft nennti ég ekki á æfingu, en ef ég sleppi æfingu í dag þá er það frávik, og það truflar mig ekki neitt. Svo er ég hægt og rólega að breyta mataræðinu. Fyrst gat ég auðvitað ekki borðað neitt nema fljótandi og maukað og svo hef ég þurft að læra að borða upp á nýtt. Þetta er eins að fara á núllpunkt í lífinu. Þetta er ótrúlega gaman, en mjög erfitt líka. Þetta er ekkert grín. Ég vona að fólk haldi ekki að þetta sé auðvelt. Þetta er aldrei fyrsta val og það sem maður endilega vill gera.“

Búin að léttast um 75 kíló

Heiðdís bendir á að það sé óhjákvæmilegt að léttast í þessu ferli, en hún þurfi samt að vinna sína vinnu. „Það er ótrúlega gaman að fara í ræktina, vera duglegur, stíga svo á vigtina og sjá tölurnar lækka. Ég er búin að tileinka mér þann hugsunarhátt að ég sé að gera vinnuna, þó auðvitað sé þyngdartapið óhjákvæmilegt, og það er mjög mikið þegar maður er svona þungur,“ segir Heiðdís sem er nú búin að missa 75 kíló.

„Þetta er auðvitað engin töfraleið og þó ég grennist fyrst þá er ég ekki örugg út lífið. Ég þarf alltaf að passa mig. Fyrir mig var þetta bara spurning um að fá hjálp og fá annan séns. Það er allt miklu auðveldara í dag. Ég átti til dæmis orðið erfitt með að reima skóna mína, og það var mjög gaman þegar ég áttaði mig á því að það væri ekki lengur vandamál. Vinnan mín er líka auðveldari. Ég er sminka og hárgreiðslukona, sem felst í því að standa, og var alltaf ónýt eftir daginn. Nú endist ég miklu lengur.“

Þeir sem vilja kynnast Heiðdísi betur geta fundið hana á snapchat: haustfjord.is.

 

 

SHARE