Sýningar á þáttunum The Voice hefjast í Sjónvarpi Símans í október. Börn frægra eru áberandi í hópnum og aðstoðarþjálfararnir eru ekki af verri endanum.
Tökur standa nú yfir á sjónvarpsþáttunum The Voice Ísland en sýningar hefjast í Sjónvarpi Símans þann 7. október næskomandi. Þættirnir, sem eru framleiddir af Sagafilm, verða enn stærri í sniðum en þeir voru í fyrra og ekkert er til sparað í framleiðslunni. Samkvæmt heimildum amk verða börn þekktra einstaklinga áberandi í keppendahópnum að þessu sinni. Þá munu þekktir söngvarar sem hafa starfað við tónlist, vera í hópnum. Heimildir amk herma einnig að keppandi í hópnum hafi tekið þátt í The Voice erlendis og náð langt.
Lofar mikilli dramatík
Þórhallur Gunnarsson, aðalframleiðandi Sagafilm vill lítið gefa upp um keppendahópinn þegar blaðamaður nær tali af honum, en segir hóp keppenda í ár mjög sterkan. „Ég fullyrði að þetta er sterkari sönghópur en í fyrra, með fullri virðingu fyrir þeim, enda voru þau mjög góð. Þarna erum við að sjá svakalegan sterkan hóp.“ Þá lofar Þórhallur einnig mikilli dramatík í þáttunum. „Þegar fjölskyldurnar koma með er mikið grátið. Stundum eru gleðitár, en líka mikill harmur. Það verður nötrandi spenna, enda eru þetta erfiðar aðstæður, að fá aðeins eitt tækifæri til að syngja fyrir þjálfarana. Dramatíkin er meiri en í fyrra. Það er eins og fólk hafi sett meiri pressu á sig. Sumir standa auðvitað fullkomlega undir henni á meðan aðrir eiga erfiðara með að standast þessa brjáluðu pressu. Svo eru kannski frábærir söngvarar sem eiga ekki sinn besta dag.“
Flottasta sviðsmynd á Íslandi
Pálmi Guðmundsson, forstöðumaður ljósvakamiðla Símans, tekur í sama streng og Þórhallur hvað umgjörð og styrkleika keppenda varðar. „Við fengum 80 glæsilega keppendur til að taka þátt í ár, en í fyrra voru þeir 60. Við erum að fara að búa til 12 þætti, en þeir voru 10 í fyrra. Í þessari seríu er það svo þannig að á vissum tímapunkti mega þjálfarar fara að stela keppendum hver frá öðrum. Þá mun sviðsmyndin taka breytingum eftir því sem líður á og stærsta útgáfan verður í lokaþáttunum. Ég vil meina að það sé búið að búa til flottustu sviðsmynd og flottustu umgjörð um íslenska þáttaröð frá upphafi.“
Þjálfarar í þáttunum eru Unnsteinn Manuel Stefánsson, Svala Björgvinsdóttir, Salka Sól Eyfeld og Helgi Björnsson. Þá kemur úrvalslið aðstoðarþjálfar einnig við sögu, en það eru þau Ragnhildur Gísladóttir, Högni Egilsson, Logi Pedro Stefánsson, Selma Björnsdóttir og Arnar Freyr Frostason. Aðstoðarþjálfararnir vinna með keppendum og hjálpa þeim á milli upptökusetta, skipuleggja lagaval og útsetningar,“ útskýrir Pálmi.
Þættirnir The Voice verða sýndir í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans en verða en verða aðgengilegir fyrr fyrir þá sem eru með Heimilispakka Símans.
Greinin birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.