Ætlaði að vera „kjurrasta“ kona á Íslandi

Ég fór í segulómun á höfði nýlega. Það er ekkert stórkostlega mikið að mér nema ég fæ mígreni mjög reglulega og hef ætlað að láta tékka á höfðinu á mér lengi.

Ég mæti semsagt galvösk niður í Domus, alltof sein og konan í afgreiðslunni var fúl útí mig (fyrirgefðu) og sagðist vera búin að reyna að hringja í mig í hálftíma en alltaf á tali, en ég hafði verið í símanum að reyna að komast að því hvar í andsk**** ég átti að mæta.

Ég er síðan spurð hvort ég væri með gangráð og hvort ég hefði farið í heilaaðgerð og fleiri krassandi spurninga. Síðan var ég látin fara í klefa þar sem ég átti að fara úr öllu nema nærbuxunum og sokkunum. Uppreisnarseggurinn ég hugsaði auðvitað „Hvað ætli gerist ef ég fer úr nærbuxunum líka? Eða kannski bara öðrum sokknum?“
En allavega, þá átti ég að fara í þennan fína ermalausa slopp, klædd bara í nærbuxur og sokka, en sloppurinn var opinn að framan og ég þurfti bara að halda honum saman. Mér varð strax frekar kalt og vafði sloppnum utan um mig, en sloppurinn var svo stór að það varð bara til þess að brjóstin á mér fóru út um götin þar sem handleggirnir áttu að vera. Ég ákvað því að leyfa þessu að vera bara frekar lausu þannig að sloppurinn myndi í það minnsta fela á mér bollurnar.

Síðan fylgir konan mér inn í herbergið með segulómunargræjunni (sem ég veit ekki hvað heitir). Þar tekur glaðleg kona á móti mér og ég biðst afsökunar á því hvað ég er sein og hún segir að þetta sé ekkert mál og hún hafi alveg vitað að ég væri á leiðinni.

Hún lætur mig leggjast á bekkinn, lætur mig fá eyrnatappa og brýnir það fyrir mér að það sé mjög mikilvægt að ég sé eins kyrr og ég mögulega geti í ca fimmtán til tuttugu mínútur meðan segulómunin fari fram. Niðurstöður úr segulómuninni komi eftir 2 daga og þá muni ég fá símtal frá lækninum.  Ég tek það að sjálfsögðu mjög alvarlega að ég eigi að vera kyrr og þegar ég rúllast inn loka ég augunum og það var ekki fyrr en þá sem ég fór að hugsa: „Hvað ef það kemur eitthvað hræðilegt í ljós? Hvað ef ég er með æxli og er að fara að deyja? Kannski á ég bara 2 daga eftir af venjulega lífinu mínu?“

Þegar þarna var komið fann ég að, jú ég var kyrr, en ég var líka alveg pinnstíf og andaði eins og lítil mús, því ég var svo mikið að reyna að hreyfast ekki neitt. Ég var varla komin inn í græjuna þegar ég var að fá krampa í kálfana af því ég var svo uppspennt. Ég sá að ég varð að taka mér tak ef ég ætlaði ekki að ýta á neyðarhnappinn og búa til umstang, grenjandi yfir örlögum mínum sem ég vissi ekkert hver yrðu.  „Taktu þér nú tak dramadrottning, það er ekkert slæmt að fara að gerast. Það er bara gott að láta kíkja á þetta og sjá að allt er í lagi.“ Svona róaði ég sjálfa mig niður og fór að slaka á og anda rólega. Það endaði með því að ég var alveg að sofna þegar konan kom og sagði mér að tíminn væri liðinn.

Enn og aftur sannast það að það er auðveldara að hugsa jákvætt.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here