Í ástarþríhyrningi með Josh Hartnett

Hera leikur aðalhlutverkið í bandarísku kvikmyndinni The Ottoman Lieutenant sem kemur út á næsta ári. Hún var mjög hrædd við hlutverkið í byrjun og spáði í að taka það ekki. Hún óttaðist að standa sig ekki nógu vel á móti þekktum leikurum og var með komplexa yfir hreimnum sínum.

 

Hera Hilmarsdóttir leikkona er stödd á Íslandi um þessar mundir, en hún var í vikunni viðstödd frumsýningu á kvikmyndinni Eiðurinn, þar sem hún fer með eitt aðalhlutverka. Almennar sýningar á myndinni hefjast í kvöld. Hera fer með hlutverk ungrar stúlku, Önnu Finnsdóttur, sem leiðist út í fíkniefnaneyslu og tekur saman við þekktan dópsala. Þegar hún kynnir nýja kærastann fyrir fjölskyldunni ákveður faðir hennar, sem leikinn er af Baltasar Kormáki, að taka málin í sínar hendur og koma henni á réttan kjöl.

Lærði allt um dóp

Hera þurfti að setja sig í ákveðnar stellingar fyrir hlutverkið og leita nýrra leiða til að framkalla réttar tilfinningar. „Ég tengi við persónuna á mannlegan hátt en hef sjálf ekki verið í fíkniefnaneyslu eða upplifað það að vera háð einhverju svo mikið að það taki algjörlega yfir líf mitt á þann hátt sem fíknin hefur gert hjá Önnu. Ég þurfti virkilega að kynna mér áhrif allrar fíkniefnaneyslu og öll mismunandi stig hennar fyrir hlutverkið; þekkja einstök áhrif ákveðinna efna, bæði líkamleg og andleg. Og vita nákvæmlega hvar Anna var stödd í neyslunni hverju sinni, á hvaða efnum og hvar í vítahringnum.“

Fær stundum maníur

Hera segist þó eiga það til að verða háð vinnunni sinni. „Ég hef rosalega gaman af því sem ég geri og þarf stundum að stoppa mig af í vinnu. Ég held að það sé til dæmis ekki auðvelt að búa með mér, eða vera mikið í kringum mig þegar ég er djúpt sokkin í verkefni, en ég er meðvituð um þetta. Maður er auðvitað alltaf að læra meira og meira að lifa í einhverju jafnvægi og vita hvar línan liggur. Ég get samt dottið í ákveðnar vægar maníur og þráhyggju, en ég myndi segja að það væri bara ákveðið karaktereinkenni. Þær geta þá bæði tengst vinnu, eins og hlutum sem ég tel mig þurfa að gera fyrir hlutverk, en líka bara svona fáránlegum hlutum eins og að telja hvað það komast margir bílar á milli ljósastaura þegar ég er í bíl á ferð eða framkvæma ákveðna seremóníu sem enginn sér nema ég þegar góðar kvikmyndir enda. En þegar kemur að vinnunni þá held ég reyndar að það sé erfitt að vera leikari án þess að vera með ákveðna þráhyggju fyrir því sem maður er að gera. Annars væri maður ekki að þessu.“

Hera er dóttir Þóreyjar Sigþórsdóttur leikkonu og Hilmars Oddssonar leikstjóra og hefur því lifað og hrærst í leiklistinni alla ævi. Hún ætlaði sér alltaf að verða leikkona þó foreldrar hennar væru ekkert sérstaklega hrifnir af þeirri hugmynd í upphafi. „Það var ekki alltaf pössun og ég var því oft með þeim í einhverju leiklistartengdu. Mér fannst það mjög skemmtilegt. Þau voru samt dugleg að benda mér á að ég gæti algjörlega líka gert eitthvað annað. En ég held að það hafi bara gert mig enn spenntari fyrir leiklistinni. Af hverju ætti ég ekki að mega gera það sem þau voru að gera, fyrst það var svona skemmtilegt? Þannig að fyrst þegar ég fór að leika sjálf var ég svolítið að reyna að sanna mig fyrir þeim, eins og svo margir krakkar fyrir foreldrum sínum. Og það tókst bara, held ég. Þau eru miklir stuðningsmenn í dag.“

Ætlaði alltaf að vera heima

Hera bjó í eitt ár í London á aldrinum 8 til 9 ára, á meðan móðir hennar var í námi þar í borg. Hún heillaðist strax af London og dvölin þar hafði mikil áhrif á hana. „Ég bjó í Austur-London sem var þá enn hrárra og blandaðra hverfi en það er núna. Ég enduruppgötvaði algjörlega sjálfa mig þarna og kynnist krökkum af allskonar þjóðernum. Ég óx mjög hratt upp líkamlega sem barn og var ótrúlega hávaxin á þessum tíma. Ég upplifði mig allt öðruvísi en allir í kringum mig. Mér fannst það mjög merkilegt. Það var svolítið eins og ég færi í annað hlutverk en á Íslandi.“

Hera flutti svo aftur til London þegar hún var 19 ára, eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð. Og þá til að læra leiklist. „Ég ákvað að fara til London því ég fann að það var einhver taug sem togaði í mig. Draumurinn var alltaf að læra heima og vera heima, en allt í einu fannst mér það of nálægt mér og hugmyndin að fara út ógnvænlegri á góðan hátt,“ segir Hera sem var þá búin að leika í nokkrum íslenskum kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og stuttmyndum. Þar á meðal kvikmyndinni Veðramótum sem vakti mikla athygli. „Samt sá ég ekki fyrir mér að ég væri að fara að vinna úti beint eftir skóla, allavega ekki eftir augljósum leiðum. Ég var í rauninni ekki með neitt plan. Ég ætlaði bara í skólann, byrja þar, og svo var ég allt í einu komin með starf,“ segir Hera sem hefur búsett í London síðan, en hún er 27 ára í dag.

Hún var enn í námi þegar hún fékk fyrsta hlutverkið sitt úti og þá fór boltinn strax að rúlla. Í kjölfarið landaði hún meðal annars hlutverki í sjónvarpsþáttunum Da Vinci’s Demons, sem varð að þremur þáttaröðum. „Þetta voru þrjú ár, sem var svolítið mikill pakki. Það var mjög gaman og ég lærði rosalega mikið.“

Það var samt ekki fyrr en Hera og umboðsmaðurinn hennar skiptu um umboðsskrifstofu að hún fór sjálf að hafa meira um það að segja hvaða verkefni hún tæki. „Þá losnaði um einhverja orku og ég ákvað að fara til Los Angeles í tvær vikur. Hugmyndin var að fara í frí og taka mögulega einhverja fundi og ég endaði á því að ráða þar tvo „managera“ sem ég unnið með síðan.“

Hollywood ógnvekjandi

Verkefnin byrjuðu fljótlega að hrúgast inn og frá því í fyrravor hefur Hera nánast unnið sleitulaust. Hún hefur landað hverju hlutverkinu á fætur öðru og sum eru ansi stór. Má þar helst nefna aðalhlutverk í kvikmyndinni The Ottoman Lieutenant sem kemur út á næsta ári, þar sem hún leikur á móti ekki verri mönnum en Josh Harnett og Ben Kingsley, og stórt hlutverk í An Ordinary Man sem kom í kjölfarið.

„The Ottoman Lieutenant var fyrsta leiðandi hlutverk mitt í amerískri mynd, þar sem ég leik Ameríkana. Ég held ég hafi aldrei verið jafn hrædd við neitt hlutverk áður. Ég pældi í alvörunni í því í örskotsstund hvort ég ætti að taka verkefnið. Hvort það væri kannski betra að stoppa áður en ég færi að standa mig illa. Ég var mjög hrædd um að ég yrði ekki nógu góð og það voru leikarar viðloðandi myndina sem ég hafði þekkt frá því ég var barn. Átti að vera manneskjan sem leiddi þessa mynd? Josh Hartnett leikur til dæmis á móti mér og þegar ég var krakki var hann gaurinn sem allir voru skotnir í. Ég vissi að hann átti að leika annan gaurinn í ástarþríhyrningi með mér. Var hann að fara að samþykkja það? Þar að auki var ég með komplexa gagnvart hreimnum því ég hafði aldrei leikið Ameríkana áður. Þetta var í rauninni hreinræktuð Hollywoodmynd og það var ógnvekjandi. En svo fór ég og gerði þetta. Kláraði verkefnið og bara gat það.“

Er að hreinsa hausinn

Þrátt fyrir að verkefnið væri virkilega skemmtilegt var það líka mjög krefjandi og erfitt. Mögulega það erfiðasta sem hún hefur tekist á við. „Þá aðallega af því ég þurfti að takast á við hræðsluna í sjálfri mér. Tökurnar voru samt ansi strembnar líka. Ég held ég hafi aldrei unnið jafn mikið á ævi minni. Þetta voru fjórir mánuðir og ég vann alla daga, þó svo við leikstjórinn yrðum fárveik í tvær vikur. Vinnudagurinn var að minnsta kosti 15 tímar, alla daga vikunnar, og þeir dagar sem áttu að vera frídagar fóru í strangar reiðæfingar og hreima-tíma. En ég gat þetta og núna finnst mér ekkert mál að gera það sem hræddi mig svo mikið þarna fyrir ári.“

Út frá þeirri mynd fékk hún svo hlutverk í kvikmyndinni An Ordinary Man, þar sem hún leikur á móti Ben Kingsley enn á ný, en það var einmitt hann sem benti leikstjóranum, Brad Silberling, á hana eftir vinnu þeirra í The Ottoman Lieutenant.

Eftir það lá leiðin til Indlands. „Ég var þar að leika í mjög merkilegri mynd, aðallega þar sem þetta var fyrsta myndin sem var formlega unnin í fullkomnu samstarfi á milli Indlands og Hollywood. Við erum við að tala um tvo gjörólíka heima. Þetta var fyrsta mynd leikstjórans en hann er hálfur Ameríkani og Indverji, sem hjálpaði að brúa heimana. Það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr henni.“

Verkefnin síðasta árið hafa verið töluvert fleiri en hér eru upptalin, en nú er hún í smá fríi til að hreinsa á sér hausinn, eins og hún orðar það sjálf. „Maður brennur svo fljótt út ef maður keyrir sig endalaust áfram og það kemur niður á öllu sem maður gerir. Ég þarf líka að eiga líf og hafa tíma til að vinna úr hlutum í lífinu. Það hefur mikil áhrif á mann að vinna í mörgum verkefnum í mismunandi löndum á stuttum tíma. Það getur verið ansi lýjandi þó það sé líka gefandi. Svo er ég byrjuð að skoða nokkur verkefni sem gætu hafist seinna í haust og byrjun næsta árs.“

 

Mynd/Rut

SHARE