„Það hefur allt snúist um mig síðustu mánuði“

Eva hleypur sitt fyrsta maraþon í svissnesku Ölpunum á morgun til að styrkja föðurlausa frændur. Hún er fjölskyldu sinni þakklát fyrir þolinmæði og tillitssemi.

„Ég er ágætlega stemmd, með góða blöndu af stressi og tilhlökkun,“ segir Eva Lind Helgadóttir sem á sunnudag þreytir svokallað Jungfrau maraþon í 1800 metra hæð í svissnesku Ölpunum, eftir aðeins níu mánaða þjálfun. Fram að þeim tíma hafði hún varla hlaupið meira en tíu kílómetra í einu. Hún lagði af stað þetta krefjandi verkefni ásamt Gunnari, Hjördísi Árnadóttur, Berglindi Wright Halldórsdóttur, Kristni Haraldssyni og Söndru Dís Steinþórsdóttur, til að styrkja tvo litla frændur sem misstu föður sinn, Vigni Rafn Stefánsson, rétt fyrir síðustu jól.

28204 - hópurinn
Fengu afreksfólk til liðs við sig

Í ljós kom að Vignir var ekki líftryggður og brugðu vinir og vandamenn á það ráð að koma á fót Framtíðarsjóði Vignissona. Eva Lind og félagar hennar hlaupa fyrir sjóðinn og safna áheitum.

Þau hafa einnig fengið landsþekkt afreksfólk í íþróttum til liðs við sig, sem hefur ritað hvatningarorð og reynslusögur á facebook-síðu sjóðsins til að vekja frekari athygli á framtakinu. Þar á meðal Margréti Láru Viðarsdóttur knattspyrnukonu, Hrafnhildi Lúthersdóttur sundkonu og Þóreyju Eddu Elísdóttur stangarstökkvara.

Í samtali við amk í sumar sagði Eva frá því að hún hefði tekið ákvörðun um það síðastliðið gamlárskvöld að hún ætlaði sér að hjálpa frændum sínum og styrkja þá með einhverjum hætti. Hún vildi gera eitthvað meira en bara opna styrktarreikning og þetta varð niðurstaðan. Hún viðurkennir að það sé algjör bilun að fara út í þetta verkefni með svona skömmum fyrirvara, en æskilegur undirbúningstími hefði líklega verið tvö ár.
Á besta eiginmann í heimi

Æfingatímabilið hefur ekki bara reynt á Evu, heldur líka fjölskyldu hennar sem stutt dyggilega við bakið á henni. „Þetta hefur tekið sinn toll af minni elskulegu fjölskyldu. Árni Hrannar Haraldsson er að mínu mati heimsins besti eiginmaður, þvílík þolinmæði og tillitsemi sem hann hefur sýnt mér. Það hefur allt snúist um mig og mínar þarfir síðustu tvo mánuði og vá hvað honum á eftir að vera létt seinni partinn á morgun,“ segir Eva og hlær. „Setningar eins og „nei ég get það ekki, það er langt hlaup á morgun,“ hafa hljómað of oft í hans eyrum. Þó krakkarnir orgi „nei, æj, þarftu að fara út að hlaupa,“ þá er ég svo stolt að sýna þeim að gamla getur það sem hún vill og ætlar sér. Ég tel mig bara fínustu fyrirmynd og það er gott veganesti fyrir þau inn í framtíðina. Held samt að þau muni mest eftir því að hafa fengið mynd af sér í blöðunum,“ segir hún kímin. „Núna tel ég mig vera búna að gera mitt besta, ég hleyp þetta hlaup þangað til ég kem í mark eða þangað sem ég kemst og geri það með bros á vör.“

28204 - vignissynir

Upplýsingar fyrir þá sem vilja leggja sjóðnum lið og styrkja drengina:
9052001 (1500 kr)
9052003 (3000 kr)
9052005 (5000 kr)

Júdódeild Ármanns 0515-14411231 Kt. 491283-1309
Upplýsingar fyrir þá sem búa erlendis:

IBAN númer reikningsins: IS72 0515 14 411231 491283 1309
Swift bic: GLITISRE

 

SHARE