Kemp og Minogue dæma í Take That hæfileikakeppni

Bassaleikarinn fjölhæfi úr Spandau Ballet, Martin Kemp, og ástralska söngkonan Dannii Minogue munu dæma í Take that hæfileikakeppni sem hefst eftir áramót í Bretlandi. Frægasta lag Spaundau Ballet er án efa slagarinn True sem hefur fengið að hljóma reglulega á öldum ljósvakans síðan 1983. Hæfileikakeppnin, Let it Shine, miðar að því að finna fimm hæfileikaríka dansara, leikara og söngvara til þess að taka þátt í uppfærslu á nýjum söngleik Gary Barlow sem mun fjalla um leik og störf hljómsveitarinnar Take That. Barlow verður einnig einn dómara og var einmitt ein aðalsprautan í sveitinni sálugu.

Minogue er ekki ókunn dómarastörfum en hún hefur starfað sem slíkur bæði í X Factor og Australia’s Got Talent. Hún gat sér gott orð á árum áður sem poppstjarna og leikkona í áströlskum sápuóperum. Kylie systir hennar er þó líklega ögn þekktari týpa en hún lék bæði í Nágrönnum sem eru Íslendingum af góðu kunnir og söng slagara á við I Should Be So Lucky og Can’t Get You Out Of My Head.

Robbie Williams, sem er eflaust að mati flestra þekktasti meðlimur Take That, verður fjarri góðu gamni en ætlar hins vegar að taka að sér dómarahlutverk í X Factor. Hann mun því birtast Bretum á skjánum von bráðar og jafnvel þá Íslendingum líka þegar fram líða stundir.

 

28926-dannii

Dannii Minogue til vinstri ásamt systur sinni Kylie.

 

 

28926-kemp

Martin Kemp, bassaleikari Spandau Ballet í góðu stuði.

 

28926-take that

Take That þegar þeir voru upp á sitt besta. Robbie Williams hress á vinstri kantinum.

 

SHARE