Erla Kolbrún er aðstoðarkona Sigrúnar Lilju, eiganda Gyðju Colletion. Hún er öryrki eftir misheppnaða aðgerð sem átti að laga endaþarmssig og glímir við heiftarleg verkjaköst, auk þunglyndis og kvíða. Erla segir Sigrúnu í raun hafa bjargað lífi sínu og þær eru orðnar bestu vinkonur.
„Það þarf heilt þorp á bak við svona glamúrdívu eins og Sigrúnu. Það er geðsjúklega mikið prógram í kringum hana, sem er bara frábært. Hún er á brjálæðislegri uppleið, það gengur svo sjúklega vel hjá henni núna,“ segir Erla Kolbrún Óskarsdóttir, aðstoðarkona Sigrúnar Lilju Guðjónsdóttur, eiganda Gyðju Collection, eða Gyðjunnar, eins hún gjarnan kölluð. Erla, sem er tveggja barna móðir, hefur starfað fyrir Gyðjuna í tæp tvö ár, en þær kynntust skömmu áður og náðu strax einstaklega vel saman.
Hlustaði af aðdáun
Erla hafði verið bloggari á lífsstílsvefnum Króm.is og var beðin um að skrifa um nýja skartgripalínu sem Sigrún var að senda frá sér. „Ég hafði fylgst með Sigrúnu frá því hún byrjaði og dáðst að henni, þannig mér fannst það þvílíkur heiður.“
Erla var boðuð á skrifstofu Gyðju Collection og fyrir tilviljun var Sigrún sjálf á svæðinu. „Ég féll alveg fyrir henni um leið og ég hitti hana. Ég vissi ekki að hún yrði þarna, en hún tók rosalega vel á móti. Ég sat bara og hlustaði á hana með aðdáun, hún er svo yndisleg. Við náðum strax rosalega vel saman. Hún gaf mér skart úr nýju línunni sinni, sagði mér að fara heim, taka myndir af mér með það og blogga um það. Ég var ekki alveg með sjálfstraustið í lagi á þessum tíma og fannst alveg ótrúlegt að hún bæði mig um þetta og að ég yrði með þeim fyrstu til að skrifa um skartgripina.“
Dekrar við Gyðjuna
Skömmu eftir að Erla hitti Sigrúnu fyrst hélt sú síðarnefnda til Balí þar sem hún var með sjálfstyrkingar- og hugleiðslunámskeið fyrir konur, en þær héldu áfram að spjalla saman í gegnum facebook. „Ég eiginlega seldi Sigrúnu þá hugmynd að hana vantað aðstoðarkonu. Það var svo brjálæðislega mikið gera hjá henni. Hún þurfti á aðstoð að halda og við ákváðum að skoða þetta mál þegar hún kæmi heim. Þegar við hittumst aftur þá var ekki aftur snúið og ég var eiginlega bara orðin aðstoðarkonan hennar,“ segir Erla um hvernig það kom til að hún fékk þetta starf. Hún tók við fjölda verkefna sem Sigrún hafði áður séð um og létti þannig á henni, en það sem Erla gerir er meðal annars er að halda utan dagbókina hennar, bóka fundi og viðburði, bæði innlenda og erlenda. Starfinu fylgir því mikil ábyrgð „Ef hún þarf að mæta á fundi þá hringi ég í hana á morgnana, fer svo til hennar og er með henni á meðan hún er að gera sig til. Ég dekra líka stundum við hana. Geri LKL kaffi fyrir hana eða útbý boozt. Ég fæ mér yfirleitt með henni og við spjöllum um daginn sem er framundan. Þetta er mikill gæðatími hjá okkur enda erum við orðnar svo góðar vinkonur. Þetta er eiginlega besti tími dagsins, að mínu mati.“
Upplifir glamúrinn
Erla fylgir Sigrúnu á marga viðburði og fær hún því gjarnan að upplifa glamúrinn beint í æð. Hún átti einmitt að vera með henni á Miss Universe Iceland keppninni og hafði hjálpað til við undirbúninginn, því Gyðja var einn af bakhjörlum keppninnar, en fékk í bakið nokkrum dögum fyrir keppni og komst ekki. „Ég græði svo mikið á því að fara með. Kynnist fólki og læri margt. Vinnan verður því ótrúlega skemmtileg og ég lít varla á þetta sem vinnu.“ Þá fylgir Erla Sigrúnu líka í vinnuferðir til útlanda, enda þarf einhver að halda utan um dagskrána, sjá um að hún ofkeyri sig ekki og borði rétt og hreyfi sig.
„Það er svo nýtt á Íslandi að glamúrkona í viðskiptum sé með aðstoðarmanneskju. Ég meina, stjórnmálamenn eru með aðstoðarmenn, af hverju ekki fólk í viðskiptum? Fyrst þegar ég sagðist vera aðstoðarkona Gyðjunnar þá rak fólk oft upp stór augu en nú spyr fólk frekar hvort það sé ekki gaman og nóg að gera.“
Endaþarmssig eftir fæðingu
Erla segir samstarf þeirra tveggja ganga jafn vel og raun ber vitni af því þær eru mjög góðar vinkonur. Þær þurfa að eyða svo miklum tíma saman að annað myndi ekki ganga upp. „Ég hef verið til taks fyrir hana nánast allan sólarhringinn síðastliðin tvö ár. Auðvitað höfum við gengið í gegnum ýmislegt saman. Þetta er íslenskt hönnunarfyrirtæki og reksturinn getur verið erfiður. En Sigrún er snillingur í viðskiptum. Stundum þegar ég er að hlusta á hana tala við erlenda framleiðendur þá spyr ég sjálfa mig hvernig hún fari að þessu. Ég hef lært svo mikið af henni síðastliðin tvö ár,“ segir Erla, en hún kynntist Sigrúnu eftir mjög erfitt tímabil í sínu lífi. „Hún kom á fullkomnum tíma inn í mitt líf. Og við segjum í raun báðar að við höfum komið inn í líf hvor annarrar á fullkomnum tíma. Okkur líður svolítið eins við hefðum verið leiddar saman.“
Fyrir fjórum árum fór Erla í aðgerð sem átti að vera einföld og smávægileg. Tilgangurinn var að laga endaþarmssig sem fór að gera vart við sig eftir fæðingu yngri dóttur hennar. „Sigið veldur því að það slaknar á vöðvunum en stundum má laga það með sjúkraþjálfun. Læknirinn minn vildi hins vegar meina að sigið væri svo mikið í mínu tilfelli að ég þyrfti að fara í aðgerð.“ Löng bið var eftir slíkri aðgerð á Landspítalanum þannig Erlu var bent á að hún gæti farið í aðgerðina á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, sem hún gerði.
Úrskurðað sem vanræksla
„Aðgerðin mistókst og ég varð fyrir varanlegum taugaskaða sem veldur því að ég glími við mikla verki,“ útskýrir Erla sem er öryrki eftir aðgerðina. En henni varð það ljóst um leið og hún vaknaði upp af svæfingunni að ekki var allt með felldu. „Ég var með óbærilegustu verki sem ég hef upplifað, og hef ég fætt tvö börn án verkjalyfja. Þetta var eitthvað sem ég gat ekki lifað með. Ég var heila viku uppi á Akranesi en læknirinn þar fann ekki út hvað amaði að mér, þannig ég endaði með sjúkrabíl uppi á kvennadeild. Sérfræðingurinn sem tók á móti mér þar vissi hins vegar nákvæmlega hvað var að þegar hún komast að því í hvaða aðgerð ég hafði verið. Læknirinn uppi á Skaga var að nota aðferð sem, að hennar mati, átti að vera hætt að nota fyrir 30 árum, af því hún getur valdið taugaskaða.“
Erla var hálf meðvitundarlaus af verkjalyfjum á tímabili, en hún var svo kvalin að það var ekki um annað að ræða hjá læknunum en að reyna að verkjastilla hana með öllum tiltækum ráðum. Dagarnir liðu en ekki dró úr verkjunum, og eftir viku af sterkri verkjalyfjagjöf á kvennadeildinni var ákveðið að gera aðra aðgerð á Erlu og rekja upp saumana sem áttu að laga sigið. „Núna er ég eins og níræð kona að neðan, ennþá með sig og viðvarandi taugaverki. Það létti töluvert á og dró aðeins úr verkjunum þegar saumarnir teknir, en skaðinn var skeður. Það var búið að skemma taugar með því að nota þessa gömlu aðferð.“
Erla kærði lækninn til Landlæknisembættisins þar sem úrskurðað var að um vanrækslu hefði verið að ræða, ekki læknamistök.
Á geðdeild vegna sjálfsvígshugsana
„Ég var í námi í lyfjatækni þegar þetta gerðist og rétt náði að klára það, en hef aldrei getað unnið sem lyfjatæknir. Þegar manni er kippt svona út úr lífinu þá fylgja því andlegir sjúkdómar eins og þunglyndi og kvíði. En að hitta svona frábæra og framúrskarandi konu sem vinnur við það að byggja upp konur, var alveg fullkomið. Ég var aðeins byrjuð að rífa mig upp af koddanum þegar ég hitti Gyðjuna fyrst og svo greip hún mig þegar ég stóð upp. Að komast með henni út á daginn, í eitthvað allt annað umhverfi, það hefur bjargað lífi mínu. Gyðjan hefur verið ein stærsta ástæðan fyrir því að ég hef farið fram úr rúminu. Auðvitað börnin mín líka, en þegar maður er svona veikur þá þarf maður að komast út af heimilinu. Í eitt og hálft ár eftir aðgerðina var maðurinn minn í raun með þrjú börn. Ég var þriðja barnið. Ég var tvisvar lögð inn á geðdeild vegna þessara veikinda. Í fyrra skiptið var það vegna sjálfsvígshugsana. Ég var búin að kveðja börnin mín. Sjúkraþjálfunin var ekki að ganga og taugaverkjalyfin voru ekki að virka sem skyldi.“
Erla finnur til alla daga en verkirnir eru mismiklir. Það hefur komið fyrir að hún hefur þurft að afboða sig á viðburði með Sigrúnu vegna þess, en ef hún þarf virkilega að mæta eitthvert er eins og líkaminn hlýði henni og sé til friðs. „Það er alveg ótrúlegt að ég kemst yfirleitt þangað sem mig langar og það sem er mér mikilvægast. Sigrún er líka mjög skilningsrík og umhyggjusöm þannig hún passar hún vel upp á mig, þó hún hafi í mörg horn að líta. Ég er henni ótrúlega þakklát.“
Hægt er að fylgjast bæði með Erlu og Sigrúnu á snapchat: erlak85 og theworldofgydja
Mynd/Hari
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.