Líkami kvenna almenningseign á meðgöngu ?

Við upplifum meðgönguna margar hverjar á mjög ólíkan hátt og sama kona getur upplifað sínar meðgöngur virkilega mismunandi.
Stundum líður okkur dásamlega en því miður er það ekki alltaf.
Það er eitt sem ég hef pælt aðeins í og það er hvernig fólk lætur við ófrískar konur.

Ég hef spjallað við fullt af konum og þá sérstaklega þegar þær ganga með sitt fyrsta barn að þá er afskiptasemi fólks í kringum þær alveg óþolandi.
Þetta fólk sem er svo afskiptasamt er ekki aðeins barnlaust fólk sem áttar sig þá ekki á því hverskonar áreiti þetta er heldur getur þetta líka verið móðir manns eða tengdapabbi.
Þessi afskiptasemi er líklegast ekki meint til þess að særa eða pirra konuna en vissulega verður það þreytandi að það sé stöðugt einhver að passa uppá hvað þú borðar, drekkur, hvernig þú hreyfir þig og margt annað sem hægt er að skipta sér af.

Þú ert að drekka kaffi í sakleysi þínu og vinkona, vinkonu þinnar spyr hvort það sé ekki mjög slæmt að drekka kaffi, hún hafi heyrt að það geti nú haft áhrif á barnið og þar fram eftir götunum en segir þér að það megi allavega ALLS ekki drekka meira en 3 bolla á dag.
Hún meinar hugsanlega ekki illa, hún er líklegast bara að deila með þér einhverju sem hún las á netinu í góðmennsku sinni. Hinsvegar hljómar slík gagnrýni ekki vel í eyrum konunnar sem er þunguð. Það hljómar örlítið eins og hún sé hálfpartinn vanhæf til þess að ganga með barn og þurfi því nauðsýnlega leiðsögn hvað sé gott og hvað ekki.

Algengar spurningar:
Er þér ekki kalt? Í guðanna bænum þér má ekki verða kalt þú færð stálma!
Drekkur þú nokkuð of mikið kaffi? Mælt er með ekki meira en þremur bollum á dag
Ertu að stunda hreyfingu? Hef heyrt að jóga sé nánast nauðsynlegt svo fæðing gangi vel

Ég er alveg viss um það að flest allar heilbrigðar konur eru meðvitaðar um hvað er talið gott og hvað ekki, hvað sé ekki mælt með að borða og þess háttar. Sama hreyfingin hentar ekki öllum konum, þó mælt sé með jóga þá er það kannski ekkert fyrir þig og þá að sjálfsögðu ef áhugi er ekki fyrir hendi þá stundar þú einfaldlega ekki jóga.

Það er ekki mælt með því að konur borði hráan fisk, harðfisk, grafinn fisk, kaldreyktan, súrsaðan hval, einstaka sjávarafurðir ætti að forðast, kæfu, lifur og mygluosta.
Eflaust er það eitthvað meira en þetta man ég í augnablikinu.
Hinsvegar þá eru sumar algjörlega eftir ,,bókinni‘‘ og myndu ekki með nokkru móti (svo ég ýki aðeins) finna lyktina af hráum fisk.
Aðrar fara eftir því eins og að ég held allar nema ekki bókstaflega, þær fá sér harðfiskbita ef þær langar án þess að háma í sig heilt flak.

Stöðugar áminningar um hitt og þetta á meðgöngu eru óþolandi, spurningar og annað sem hljóma frekar eins og afskiptasemi en einhver góðmennska.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here