Hvers vegna fáum við marbletti?

Marblettir koma fram þegar háræðar undir yfirborði húðar rofna og leka blóði út í vefinn. Venjulega koma marblettir fram á útlimum eftir högg t.d. þegar rekist er í hluti. Fyrst kemur fram svartur og blár litur sem breytist síðar í græn-gulan lit og loks í ljósbrúnan eða ljósgulan. Liturinn kemur fram við niðurbrot á blóðkornunum sem er ferli sem tekur um 10 daga áður en niðurbroti er að fullu  lokið og liturinn eftir marið hverfur alveg.

Sjá einnig: Brunasár – hvað á að gera?

Hverjir fá helst marbletti?

Algengt er að krakkar fái talsvert af marblettum á útlimi vegna líflegra leikja og klifurs. Eldra fólk fær frekar marbletti en yngra, sérstaklega konur og er það vegna þess að húðin þynnist með árunum og eins minnkar húðfitan. Hvor tveggja veikir varnarhlutverk  húðarinnar fyrir mjúku vefina og hárðæðar undir húðinni.

Áhrif lyfja og fæðubótaefna á marbletti.

Magnyl, aspirin, blóðþynnandi lyf og blóðflögulyf minnka storkueiginleika blóðs og því blæðir lengur úr sárum og æðarofi en annars. Þá lekur meira blóð út í vefina og mar kemur frekar fram.

Lýsi er blóðþynnandi og því getur mar komið frekar fram á þeim sem taka lýsi.

Sterar, bæði í húðáburði og lyfjum getur valdið húðþynningu og gert húðina veikari og líklegri til að fá mar.

Meðferð

Flestir marblettir eru alveg skaðlausir og hverfa af sjálfu sér og lítið hægt að gera þegar mar er komið fram. Ef höggið er mikið getur þú dregið úr blæðingur og stærð mars með að hækka útlim og leggja kaldan bakstur á svæðið.

Sjá einnig: Hvað er beinhimnubólga

Hvenær á að leita til læknis?

Tíðir marblettir geta bent til brenglunar í blóðflögumyndun, sem er hluti af storkukerfi líkamans eða brenglunar í próteinum sem hjálpa til við blóðstorknun.

Leitaðu til læknis :

– Ef þú færð marbletti óeðlilega oft, færða stóra marbletti og sérstaklega ef marblettir koma fram á búk, baki eða andliti án sérstakrar ástæðu.

– Ef þú færð oft marbletti og átt sögu um miklar blæðingar t.d. eftir skurðaðgerð.

– Ef marblettir fara skyndilega að koma fram án sérstakra ástæðna

– Ef saga er í fjölskyldunni um óeðlilegar blæðingar og tíða marbletti.

– Ef þér finnst mar hafa aukist eftir að þú byrjar á nýjum lyfjum,ekki hætta að taka þau en leitaðu til þíns læknis.

Höfundur greinar:

Guðrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á

doktor.is logo

SHARE