Ský á auga

Hvað er ský á auga?

Ský á auga eða drer nefnist það sjúkdómsástand þegar augasteinninn er óskýr eða skyggður. Þetta veldur óskýrri sjón og ef sjúkdómurinn er langt á veg kominn sést að augasteinninn er grár. Slík ský geta komið samtímis á báðum augum og er mjög algeng orsök sjónskerðingar.

Hvernig myndast ský á auga?

Það er nauðsynlegt fyrir sjónina að augasteininn sé gegnsær og inniheldur hann því engar æðar. Þar sem engar æðar eru í augasteininum fær hann næringu úr augnvökvanum. Næringin í vökvanum er ekki meiri en svo að hún rétt dugar til að augasteinninn viðhaldist. Minnstu breytingar á næringarástandi til hins verra geta því verið mjög afdrifaríkar. Þess vegna geta jafnvel minnstu áverkar valdið því að sjónin verði óskýr. Það sama er uppi á teningnum ef truflanir verða á efnaskiptum sem hafa í för með sér að augasteinninn fær ekki nægilega næringu. Með aldrinum versnar sömuleiðis næringarástand hans og getur hann þá orðið óskýr. Þetta kallast „ellidrer“. Augasteinninn situr fastur í nokkurs konar hylki umlukinn vökva og vökvahlaupi sem yfirleitt helst gegnsætt og það notfæra menn sér við skurðaðgerðir til að bæta sjón þeirra sem eru með þennan sjúkdóm.

    • Helstu orsakir drers:
    • aldur
    • sykursýki
    • langtíma sterameðferð
    • augnskaðar

Hver eru einkennin?

Einkennin eru háð því hversu langt á veg sjúkdómurinn er kominn. Ef sjúkdómurinn er vægur eru engin einkenni, sjónin verður einungis þokukennd og viðkomandi blindast við sterkt sólarljós. Ef sjúkdómurinn er langt genginn veldur hann sjónskerðingu og öðrum finnst sjáaldrið vera grátt. Sjónskerðingin er áberandi á næturnar. Sjúkdómurinn versnar með tímanum. Sumir sjá stundum tvöfalt.

Hvenær er hætta á ferð?

  • Ef vart verður einhverra ofangreindra einkenna skal leita til augnlæknis.
  • Ef um sykursýki er að ræða er rétt að vera á varðbergi gagnvart breytingum á sjóninni og leitaðu til augnlæknis við minnstu breytingar. Ef viðkomandi hefur þjáðst af sykursýki í meira en 5 ár er rétt að fara í skoðun til augnlæknis a.m.k. einu sinni á ári.

Hvað er hægt að gera til að forðast að fá ský á auga?

  • Leita til læknis um leið og einkenna verður vart.
  • Vernda augun með því að nota öryggisgleraugu þegar það er nauðsynlegt.
  • Ef um sykursýki er að ræða skalt þú fylgjast vel með blóðsykrinum og blóðþrýstingnum.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Að öllu jöfnu athugar augnlæknirinn sjónina til að sjá hversu miklar breytingarnar eru. Því næst horfir hann með þar til gerðum tækjum inn í augað til að dæma hversu mikið og hvers konar drer er um að ræða.

Ráðleggingar

  • Ef breyting verður á sjóninni skal strax leitað til augnlæknis. Margir augnsjúkdómar geta valdið varanlegum skaða ef þeir eru ekki meðhöndlaðir í tíma.
  • Rétt er að vernda augu þín og nota öryggisgleraugu þegar það er nauðsynlegt.
  • Ef um sykursýki er að ræða skal fylgjast vel með blóðsykrinum og blóðþrýstingnum.
  • Nota sólgleraugu þegar það er nauðsynlegt.
  • Leita meðhöndlunar við augnsjúkdóm, þar sem hann getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Starfsgeta

Það fer eftir eðli sjúkdómsins hvort viðkomandi má setjast undir stýri eður ei, því svarar læknirinn. Daginn eftir vel heppnaða skurðaðgerð getur sjúklingur gert allt sem hann er vanur að gera nema fara í sund.

Hvað ber að varast

Án meðhöndlunar leiðir ský á auga með tímanum leiða til verulegrar sjónskerðingar og getur einnig leitt til mjög alvarlegrar gláku. Í fáum tilfellum verða erfiðleikar eftir aðgerðina.

Batahorfur

Án meðhöndlunar getur sjúkdómurinn leitt til verulegrar sjónskerðingar en með meðhöndlun næst yfirleitt eðlileg sjón aftur. Sumir þurfa að breyta styrk gleraugna sinna eftir aðgerðina. Hjá sumum sem fara í aðgerð koma fram „óhreinindi“ aftan við augasteininn nokkrum mánuðum eða árum eftir aðgerðina. Þessi óhreinindi eru fjarlægð með laseraðgerð.

Hver er meðferðin?

Með sársaukalausri aðgerð sem yfirleitt er gerð í staðdeyfingu, er gert lítið gat á augað þar sem augasteinninn er fjarlægður. Síðan er settur „gervi“augasteinn í stað þess sem tekinn var. Yfirleitt er sjúklingur útskrifaður samdægurs.

Eftir aðgerðina eru gefin lyf sem minnka þrýstinginn í auganu.

Þegar aðskotahlut er komið fyrir í líkamanum, eins og „gervi“augasteini, reynir líkaminn að losa sig við hann. Til að forðast þetta eru gefnir augndropar (sem innihalda hormón) sem og augndropar sem koma í veg fyrir bólgur. Oft eru þessi tvö efni í einum og sama augndropanum sem þarf að nota í 2-3 vikur

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE