Þessar dýrðlegu uppskriftir eru frá Ljúfmeti og lekkerheitum.
Sætar kartöflur fara vel með flestum mat og mér þykja þær sérlega góðar með kjúklingi og fiski. Ofnbakaðir þorskhnakkar með sætum kartöflufrönskum, kaldri sósu (uppskriftin er hér fyrir neðan) og salati er einfaldur, hollur og svo æðislega góður matur sem bæði passar hversdags eða með hvítvínsglasi í vikulok. Sósan passar með öllum mat og er sérlega góð með fiski. Ég mæli með að þið prófið!
Stökkar sætkartöflufranskar
Hitið ofninn í 130° og skerið sætu kartöflurnar niður í franskar. Dreifið úr þeim á bökunarplötu klædda bökunarpappír og bakið í um 40 mínútur án þess að hafa olíu eða krydd á þeim. Takið þær síðan úr ofninum, sáldrið ólífuolíu yfir og kryddið eftir smekk. Hækkið hitann á ofninum upp í 200-220°og bakið kartöflurnar aftur í um 20 mínútur.
Köld sósa
Hrærið saman sýrðum rjóma og sweet chilli sósu. Byrjið með ca 2 msk á móti einni dós af sýrðum rjóma og smakkið ykkur áfram.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.