Áfengismisnotkun er eitt mesta þjóðfélagsböl samtímans. Ekki er vitað hversu margir Íslendingar þjást af áfengissýki en víst er að vandamálið er útbreitt. Stöðugt fleiri konur og ungmenni ánetjast áfengi.Langvarandi ofneysla áfengis veldur neytendum fjölþættum líkamlegum vandamálum eins og vannæringu, lifrarbólgum, briskirtilbólgum, vöðvarýrnun og ýmis konar skemmdum á heila og taugum. Hún dregur úr kyngetu karla og kvenna og getur með reykingum aukið líkur á ýmsum gerðum krabbameins allt að 6-40 sinnum. Ofneysla áfengis er gríðarlega kostnaðarsöm fyrir þjóðfélagið meðal annars vegna fósturskemmda, slysa, afbrota, sjálfsvíga, morða og vinnutaps svo að eitthvað sé nefnt. Talið er að allt að helmingur banaslysa í umferðinni megi rekja beint til ölvunar og sama prósentutala eigi við þegar morð eru framin. Tæpan þriðjung sjálfsvíga og druknana má einnig rekja beint til ölvunar.
Hvert á að leita aðstoðar?
Í dag eru til úrræði og aðstoð býðst. Það er nauðsynlegt að einstaklingur sem er í viðjum áfengisfíknar vilji sjálfur þiggja að gangast undir meðferðina.
- Á Íslandi eru meðferðarheimili þar sem allir geta komið sem óska eftir aðstoð.
- Flettu upp í símaskránni, og finndu símanúmerið eða heimilisfangið. Hafðu samband, ef þú þarft á hjálp að halda. Einnig ef þú vilt bara fræðast um möguleikana sem standa þér til boða – eða aðstandanda þínum sem á við áfengisvanda að stríða.
- Spurðu lækninn þinn því að hann er einnig fær um að styðja þig og leiðbeina, ef þú hefur farið út af sporinu og leiðst út í óreglu. Læknirinn getur einnig – ef þörf er á – mælt með því að þú farir í meðferð.
Hver getur hjálpað?
- Félagsmálaaðilar í sveitarfélaginu þínu geta veitt þér og fjölskyldu þinni aðstoð ef þú ert ófær um að ala önn fyrir þeim. Þú getur einnig gert ráð fyrir að þú eigir – að einhverju leyti – rétt á styrk frá sveitarfélaginu. Það getur verið fjárhagsaðstoð, húsnæðisbætur, heimilishjálp o.s.frv.
- Einnig eru til einkasamtök, sem veita áfengissjúklingum ómetanlegan stuðning. Þessi samtök eru rekin af fyrrverandi áfengissjúklingum sem miðla af eigin reynslu til að reyna að hjálpa öðrum að takast á við fíkn sína í áfengi, ýmist þeim sem leita til þeirra, en einnig með því að hafa upp á þeim sem eru þurfandi.
Hvað eru AA samtökin?
Alcoholics Anonymous samtökin (ónefndir áfengissjúklingar) eru stærstu alþjóðlegu samtök jálfshjálparhópa fyrir áfengissjúklinga.
- Meðferðin í þessum hópum er alfarið án íhlutunar opinberra aðila, lækna, sálfræðinga eða annars fagfólks. Þátttaka á fundum er að sjálfsögðu frjáls. Það eina sem krafist er, er einlæg ósk um að hætta að drekka.
- Félagsgjöld eru engin.
- Þar hittir þú aðra áfengissjúklinga sem hafa lent í samskonar hrakförum og þú.
Hvað er meðferðarheimili?
Hvarvetna eru sérstök meðferðarheimili sem taka á móti áfengisjúklingum til meðferðar og endurhæfingar. Læknirinn þinn eða félagsráðgjafi getur upplýst þig um þessi heimili og aðstoðað þig ef þú þarft tilvísun þangað.
Hvert á að leita?
- SÁÁ (Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann).
- Heilsugæslustöðvar og sjúkrahús
- AA Samtökin.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.