Telma Matthíasdóttir þekkir það að af eigin raun hvernig það er að rífa sig í gang þegar andleg heilsa er í mikilli lægð. Hún hefur starfað sem einkaþjálfari í fjölda ára og gefur hér innsýn í eigin heilsurútínu.
„Ég er ekki ein af þeim sem hef alltaf verið í góðu formi, langt því frá. En í dag kýs ég að lifa í hraustum líkama, full af orku í andlegu jafnvægi og það er daglegt verkefni fyrir mig. Ég á mína slæmu daga þar sem ég þarf að rífa mig upp á hörkunni,“ segir Telma Matthíasdóttir, einkaþjálfari og eigandi Fitubrennsla.is.
Starfið hjálpar henni að halda sér á beinu brautinni enda er hún stöðugt að minna sig á eigin heilsu og líðan þegar hún leiðbeinir öðrum með bættan lífsstíl, bæði hvað varðar hreyfingu og matarræði. Þá segir hún að andlega hliðin megi alls ekki gleymast.
„Ég bý að því hafa gengið í gegnum þetta ferli sjálf. Ég er íþróttastelpan sem þyngdist um 30 kíló og þegar andlega heilsan var komin á botninn reif ég mig í gang. Það kostaði blóð, svita og tár að komast í gegnum fyrsta skrefið, breyta venjum og skipuleggja mig daglega, fórna því sem gaf mér gleði, eins og „ofáti“ og læra það sem þurfti til að fá hrausta og sterka líkama minn aftur. Þegar upp var staðið var það andlega líðanin skipti mestu máli.“
Hægt er að fylgjast með Telmu bæði á snapchat og instagram undir nafninu: fitubrennsla
Hvernig byrjar þú daginn?
„Ég er komin á fætur kl. 5 þá morgna sem ég byrja að þjálfa í líkamræktarstöðinni Hress. Klæði mig, hendi hárinu upp í tagl, bursta tennur, skvetti ísköldu vatni framan í mig, set á mig andlitskrem og maskara, drekk ½ líter af vatni ýmist með sítrónusafa eða eplaediki. Keyri í vinnuna og fæ mér kaffi, sérstaklega ef það er mjög kalt.
Hina morgnana byrja ég daginn nánast á sömu rútínu nema þá vakna ég kl. 7 og tek æfingu sjálf.“
Hvað færðu þér oftast í morgunmat?
„Ég fæ mér alltaf næringardrykk, hafragraut eða pönnuköku. Hráefnin eru þau sömu í grunninn, 1 skófla prótein, 1 dl haframjöl og 1 ávöxtur, ýmist banani, epli eða frosin ber. Einfalt, fljótlegt, bragðgott og næringaríkt og endalausir möguleikar.“
Hvers konar hreyfingu stundar þú?
„Mjög fjölbreytta hreyfingu. Ég æfi þríþraut, sund, hjól og hlaup. Ég geri styrktaræfingar þrisvar til fjórum sinnum í viku og er þá í HRESS eða heima. Ég lærði Foam Flex og jógakennarann og rúlla mig alla daga og fer í jóga af og til, þarf reyndar að gera meira af því. Labba líka mikið upp um fjöll og firnindi.
Hvað gerir þú til að slaka á?
„Það er nú ekki auðvelt að svara þessu þar sem ég á mjög erfitt með að slaka á og er það minn helsti galli. Mín besta leið til að slökkva á heilanum er að horfa á bíómynd, en oftast sofna ég. Að komast upp í sumarbústað, fjarri ys og þys, með fallega nátturu allt um kring er dásamleg slökun og andleg næring. Svo bralla ég mikið í eldhúsinu yfir rólegri tónlist og það fylgir því ákveðin hugarró. Spari slökun er að láta renna í heita pottinn með gott rauðvín og hlusta á 80’s lög.“
Lumar þú á góðu heilsuráði sem hefur reynst þér vel í gegnum tíðina?
„Við eigum öll að læra hvert hlutverk fæðunnar og næringarefnanna er. Maturinn á ekki eingöngu að seðja hungrið heldur á hann að veita okkur þau næringarefni sem líkaminn þarf á að halda.
Dagleg hreyfing, regla á máltíðum og hollur matur, þar sem skammtastærð og sykri er stillt í hóf er það sem þarf til að viðhalda hraustum líkama.
Það eru oft einföldustu hlutirnir sem skila mesta árangrinum, svo einfaldir að þú munt ekki skilja hvers vegna þú hefur ekki fylgt þeim alla ævi.
-Svefnin er mjög mikilvægur, án hans náum við ekki endum saman og líkaminn gefst upp.
-Vatn og aftur vatn, það á ekki að þurfa að segja þetta. Eitt vatnsglas fyrir hverja máltíð er góð regla.
-Það er auðvelt að hollustuvæða matinn sem þér finnst góður nú þegar með því að lauma inn fersku grænmeti og skoða sykurmagnið í vörunni.
-Stundaðu hreyfingu sem þú hefur ánægju af og hafðu hana fjölbreytta, þá endist þú lengur.
-Hrósaðu þér og hrósaðu öðrum, baðaðu þig í jákvæðni og notaðu fallegasta skartið sem þú átt – brosið.“
Hvert er skrýtnasta heilsuráð sem þú hefur heyrt?
„Þau eru of mörg til að geta valið á milli þeirra. Í mínu starfi fer ekkert framhjá manni, allir kúrar og öll tæki og tól sem eiga að bjarga heilsunni á augabragði. Hver man ekki eftir bumbubananum, rugguhestinum, handhristaranum, úlnliðsbandinu, megrunarplástrunum og magabeltinu? Og svo allir sveltikúrarnir sem vökva og steinefnatæmdu kroppa landsins með misalvarlegum afleiðingum.“
Hvað gerirðu þegar þú vilt gera vel við þig?
„Fer út að borða, og þá er Tilveran í Hafnarfirði í miklu uppáhaldi, fer upp í sumarbústað, panta mér tíma í nudd eða dekur, leggst upp í sófa með risastóra poppskál og gott rauðvínsglas og reglulega nýti ég mér hótelgistingar á aha.is.“
Hvað er það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
„Geri allt klárt fyrir næsta dag og áður en ég sofna fer ég með allar bænirnar sem mamma og pabbi kenndu mér.“