Ofvirkni er truflun í hegðun og einbeitingu sem fram kemur hjá börnum fyrir 7 ára aldur. Fræðiheiti á þessu fyrirbæri eru athyglisbrestur með ofvirkni eða ofvirkniröskun, en í daglegu máli er talað um ofvirkni og verður það heiti notað í þeirri umfjöllun sem hér fer á eftir.
Hver eru einkenni ofvirkni ?
Hegðunareinkennum ofvirkni er oft skipt í þrjá flokka. Í fyrsta lagi einkenni hreyfiofvirkni, í öðru lagi einkenni athyglisbrests og í þriðja lagi hvatvísi. Einkenni hreyfiofvirkni koma m.a. fram í því að barnið á erfitt með að sitja lengi kyrrt og þegar það situr hættir því til að iða og vera stöðugt á hreyfingu í sæti sínu. Oft er ofvirku börnunum lýst þannig að þau séu sífellt á ferðinni og stöðvist lítið. Mörg þeirra eru afar málgefin og eiga erfitt með að leika sér hljóðlega.
Athyglisbresturinn kemur fram í því að barnið á erfitt með að einbeita sér að verkefnum sem það tekur sér fyrir hendur. Oft ljúka börnin ekki verkefnum sem þeim eru sett fyrir því í miðju kafi hvarflar athyglin að einhverju öðru og það sem verið var að vinna steingleymist. Börnin eru viðkvæm fyrir truflunum, minnsta utanaðkomandi truflun dregur athyglina frá því sem verið er að sinna. Oft er því líkast sem börnin heyri ekki þegar til þeirra er talað. Mörg ofvirk börn geta hins vegar vel einbeitt sér að verkefnum sem eru mjög spennandi og tilbreytingarík, t.d. tölvuleikjum. Þá getur einbeitingin líka orðið nánast fullmikil og því líkast sem barnið heyri hvorki né sjái það sem er að gerast í kringum það. Vandinn kemur hins vegar í ljós þegar vinna þarf verkefni sem eru tiltölulega einhæf og oft ekki beint spennandi, en kalla samt á mikla einbeitingu, s.s. heimaverkefni á borð við að skrifa eftir forskrift eða leysa reikningsdæmi. Athyglisbresturinn kemur einnig fram í gleymsku; ofvirka skólabarnið gleymir eða týnir skólabókunum og fatnaði ólíkt oftar en þau börn sem ekki eru ofvirk. Hvatvísin lýsir sér þannig að ofvirka barninu hættir til að framkvæma það sem því dettur í hug án þess að gefa sér tíma til að hugsa um afleiðingarnar. Þetta getur stofnað barninu í hættu, t.d. er hætta á að það hlaupi yfir götu til að skoða eitthvað áhugavert handan götunnar án þess að gefa sér tíma til að huga að umferð. Einnig leiðir hvatvísin oft til vanda í samskiptum við önnur börn þar sem ofvirka barnið á t.d. erfitt með að bíða eftir að röðin komi að því í leik.
Hafa ber í huga að þau einkenni sem hér hefur verið lýst eru töluvert aðstæðubundin. Einkennin eru venjulega í lágmarki við rólegar aðstæður, svo sem þegar barnið er eitt með foreldrum sínum. Hins vegar blossa einkennin upp við órólegri aðstæður, t.d. í barnahópi. Einnig er rétt að benda á að samsetning einkenna getur verið mismunandi milli einstaklinga. Þannig getur athyglisbrestur verið mest áberandi einkenni hjá einu ofvirku barni, en hreyfofvirkni og hvatvísi hjá öðru. Af þessu leiðir, þótt mótsagnakennt kunni að virðast, að börn geta greinst með athyglisbrest með ofvirkni án þess að falla að þeirri mynd sem flestir gera sér af ofvirkum börnum, þ.e. hreyfiofvirknin getur verið sáralítil eða engin, en athyglisbresturinn ráðandi.
Greining
Ekki eru til líffræðilegar aðferðir til að greina ofvirkni og greiningin byggist því á nákvæmri þroska- og sjúkrasögu og mati á því hvort tiltekin hegðunareinkenni séu til staðar hjá barninu í afgerandi ríkara mæli en venjulegt er meðal jafnaldranna. Til þess að greiningin sé gerð þarf þannig að vera til staðar ákveðinn lágmarksfjöldi einkenna og þau þurfa að hamla aðlögun barnsins við fleiri en einar aðstæður og er þar venjulega miðað við skóla annars vegar og heimili hins vegar. Upplýsinga um hegðun og þroska- og sjúkrasögu er aflað í viðtali við foreldra. Einkennamatskvarðar sem foreldrar og kennarar fylla út gera kleift að bera hegðunareinkenni barnsins saman við meðaltal jafnaldrahópsins og meta þannig hvort um alvarleg frávik er að ræða. Mat á taugaþroska og/eða taugasálfræðileg athugun eru venjulega hluti af greiningarferlinu þar sem ýmis væg þroskafrávik eða misþroskaeinkenni, svo sem seinkun í mál- eða hreyfiþroska, eru tiltölulega algeng í hópi ofvirkra barna. Slík þroskafrávik geta valdið námserfiðleikum t.d. í lestri, skrift eða stafsetningu.
Sjá einnig: Ofvirkni í bernsku
Af hverju stafar ofvirkni?
Rannsóknir benda til þess að erfðir eigi stærstan hlut að máli í orsökum ofvirkni. Í fjölskyldu- og ættleiðingarrannsóknum hefur komið fram að ofvirkni er fimm- til sexfalt tíðari meðal náskyldra ættingja ofvirkra en meðal óskyldra. Ákveðin samsetning gena virðist valda frávikum í taugaþroska sem kemur fram í röskun í framleiðslu og jafnvægi taugaboðefna. Boðefnakerfi gegna lykilhlutverki í stjórn atferlis, þ.e. að setja af stað atferli, viðhalda því og hamla eftir því sem aðstæður krefjast. Í ofvirkni er það einkum hömlunarþátturinn í stjórn atferlis sem ekki starfar sem skyldi.
Hversu mörg börn eru ofvirk?
Ekki liggja fyrir ítarlegar rannsóknir á tíðni ofvirkni meðal íslenskra barna, en flestar rannsóknir á því sviði hafa verið gerðar í Bandaríkjunum. Niðurstöður þeirra benda til þess að 3-5% barna á grunnskólaaldri eigi við ofvirkni að stríða. Verulegur kynjamunur er á tíðni ofvirkni eða 3-4 drengir á móti hverri einni stúlku.
Hvernig breytast einkennin með aldri?
Ofvirknieinkennin koma snemma fram og stundum lýsa mæður því að strax í móðurkviði hafi ofvirka barnið sparkað af óvenjumiklum krafti. Um 3-4 ára aldurinn eru einkennin venjulega orðin nokkuð skýr, einkum hreyfiofvirknin. Athyglisbrestseinkennin virðast koma fram síðar, eða um 5-7 ára aldurinn. Um 8-10 ára aldurinn fer oft að draga nokkuð úr hreyfiofvirkninni, en eftir sitja athyglisbresturinn og hvatvísin. Lengi var álitið að ofvirkni eltist af börnum á unglingsárum, en rannsóknir seinustu ára hafa sýnt að það er langt frá því að vera regla. Rannsóknir á seinustu árum benda til þess að 70% þeirra sem greinast með ofvirkni í bernsku eigi enn við hana að stríða á unglingsárum. Talið er að þegar komið er fram á fullorðinsár hafi dregið svo úr ofvirknieinkennum hjá 20-50% hópsins að einkennin valdi ekki lengur vanda.
Ofvirkni er áhættuþáttur á þann máta að ofvirkum börnum er hættara við því en öðrum að þróa með sér hegðunar- og tilfinningavandkvæði sem þá bætast við ofvirknieinkennin. Þetta kemur það fram í því að hegðunin verður æ meira mótþróafull og ögrandi. Ofvirka barnið brýtur reglur og fyrirmæli vegna þess að athyglin hvarflar að öðru, barnið gleymir sér eða ræður ekki við að setja hegðun sinnu hömlur, en barn sem á við hegðunarvandkvæði að stríða brýtur boð og bönn fremur af ásetningi. Rannsóknir benda til að á unglingsárum eigi allt að 40% ofvirkra við alvarleg hegðunarvandkvæði að stríða. Í þeim hópi ofvirkra sem hefur þróað með sér alvarleg hegðunarvandkvæði í bernsku og á unglingsárum eru mjög auknar líkur á andfélagslegri hegðun og fíkniefnanotkun á fullorðinsárum. Þegar tilfinningalegir erfiðleikar bætast við ofvirknina lýsa þeir sér oftast í depurð og neikvæðri sjálfsmynd, en einnig eru áráttu- og þráhyggjueinkenni algeng.
Námserfiðleikar eru einnig algengur fylgifiskur ofvirkni, bæði vegna þess að ofvirknieinkennin sjálf hamla námsástundun, en einnig vegna hins, að ýmis væg þroskafrávik (misþroskaeinkenni) eru algeng meðal ofvirkra barna.
Hvaða meðferð kemur að gagni?
Tvenns konar meðferðarúrræði eru best studd rannsóknum á meðferðarárangri; annars vegar lyfjameðferð og hins vegar sálfélagsleg nálgun sem byggist á aðferðum atferlismótunar.
Þótt mótsagnakennt kunni að virðast eru örvandi lyf mest notuð í lyfjameðferð á ofvirkni og áhrif þeirra best rannsökuð, og hafa fjölmargar rannsóknir staðfest áhrif þessara lyfja hjá a.m.k. 70% ofvirkra barna. Algengasta lyfið af þessu tagi er Ritalin. Helstu aukaverkanir eru lystarleysi, svefntruflanir, kviðverkir, höfuðverkur og pirringur. Hægt er að draga úr þeim algengustu, þ.e. minnkaðri matarlyst með því að gefa lyfið eftir máltíðir og svefntruflunum með því að gefa ekki lyfið eftir að komið er fram yfir miðjan dag. Einnig er algengt að ákveðnar tegundir þunglyndislyfja séu notaðar í meðferð á ofvirkni og hefur fjöldi rannsókna sýnt fram á virkni þeirra. Aðrar tegundir lyfja eru einnig notaðar og samsett lyfjameðferð (fleira en eitt lyf) hefur orðið æ algengari í meðferð ofvirkni. Lyfjameðferð er ekki endanleg lækning á ofvirknieinkennum, en heldur þeim niðri meðan lyfin eru virk og hafa þannig jákvæð áhrif á aðlögun barnsins og hjálpar því til að nýta þá hæfileika sem það býr yfir til náms og starfs. (Heimild: Læknablaðið, 6. tbl., 86. árgangur, júní 2000).
Hvað varðar sálfélagslega meðferð á ofvirkni eru aðferðir atferlismótunar best undirbyggðar rannsóknum á meðferðarárangri. Grundvallaratriði slíkrar meðferðar er að styrkja vel aðlagaða hegðun með því að umbuna kerfisbundið fyrir æskilegt atferli, ekki síst með hrósi og jákvæðri athygli. Stutt meðferð af þessu tagi breytir ekki atferli ofvirkra barna til langframa heldur þarf að breyta uppeldisumhverfi barnsins þannig að uppeldisaðferðir byggist til lengri tíma á aðferðum atferlismótunar. Þetta er gert með ráðgjöf við foreldra m.a. með því að halda svokölluð þjálfunarnámskeið fyrir foreldra (parent training) þar sem kennt er að beita viðeigandi uppeldisaðferðum. Kennarar þurfa á sama hátt að fá ráðgjöf og fræðslu um atferlismótunaraðferðir sem beita má í skólanum. Jafnframt er talið mikilvægt að foreldrar, kennarar og eftir atvikum barnið sjálft, fái fræðslu um ofvirkni, einkenni, orsakir, horfur og meðferðarúrræði.
Sjá einnig: Asperger heilkenni
Hvert á að leita?
Venjulegast eru það vaxandi áhyggjur foreldra og ábendingar frá kennurum í leik- eða grunnskóla eða ættingjum sem verða til þess að leitað er með með barn til sérfræðings vegna gruns um ofvirkni. Þeir fagmenn sem fyrst er leitað til eru oftast heimilislæknar eða skólasálfræðingar, en einnig er leitað til barna- og unglingageðlækna, barnalækna með sérhæfingu í þroska barna og sálfræðinga á einkastofum. Í flestum tilvikum á að nást fullnægjandi árangur þegar þessir sérfræðingar, foreldrar og skóli barnsins taka höndum saman í meðferðarvinnunni. Ef það hins vegar dugir ekki til geta sérfræðingarnir vísað áfram til sérhæfðarar þjónustu Barna- og unglingageðdeildar Landspítala-Háskólasjúkrahúss. Ástæða er til að hvetja foreldra ofvirkra barna til að taka þátt í starfi Foreldrafélags misþroska barna sem stendur m.a. að námskeiðum og ýmiss konar fræðslu sem margir foreldrar hafa notið góðs af. Hópur fagfólks sem hefur sérhæft sig á sviði ofvirkni rekur Eirð sf., ráðgjafar- og fræðsluþjónustu, sem veitt hefur ráðgjöf og haldið námskeið um ofvirkni fyrir foreldra og kennara, m.a. í samvinnu við Foreldrafélagið.
Ofvirkni hjá fullorðnum?
Rannsóknir síðustu ára benda til þess að 50-80% þeirra sem greinast með ofvirkni í bernsku eigi enn við einhver hamlandi einkenni að stríða á fullorðinsárum. Einkennamyndin er þá venjulega breytt þannig að dregið hefur úr hreyfiofvirkninni, en önnur einkenni eru fremur áberandi t.d. skipulagsleysi, dagdraumar, gleymni, óstundvísi og einbeitingarerfiðleikar. Sú þekking sem fyrir liggur á greiningu og meðferð ofvirkni byggist fyrst og fremst á rannsóknum á börnum, en rannsóknir á ofvirkni fullorðinna eru skemmra á veg komnar. Greiningarferlið hjá fullorðnum er þó í grundvallaratriðum það sama þar sem byggt er á ítarlegri sjúkra- og þroskasögu og staðlaðir einkennamatskvarðar koma að góðu gagni. Greining á ofvirkni hjá fullorðnum torveldast stundum af öðrum geðröskunum, t.d. þunglyndi sem oft hafa bæst ofan á ofvirknina þegar komið er fram á fullorðinsár.
Hvar get ég lesið mér til?
Nokkur skortur hefur verið á fræðsluefni um ofvirkni á íslensku, en þó má benda á nokkrar greinar og bækur:
Í Ofvirknibókinni eftir Rögnu Freyju Karlsdóttur, sérkennara, er að finna almenna umfjöllun um ofvirkni og ítarlegar leiðbeiningar fyrir foreldra og kennara (Útg. höfundur, 2001)
Í Uppeldishandbókinni er allítarlegur kafli um ofvirkni ásamt umfjöllun um hegðunar- og tilfinningaerfiðleika barna (Útg. Vaka-Helgafell, 2000).
Gísli Baldursson, Páll Magnússon og Ólafur Ó. Guðmundsson: Greiningar- og meðferðarúrræði 102 barna og unglinga sem komu til Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans vegna ofvirknieinkenna frá 1. júní 1998 til 31. maí 1999. Læknablaðið, 5. tbl., 86. árgangur, maí 2000.
Gísli Baldursson, Ólafur Ó. Guðmundsson og Páll Magnússon: Ofvirkniröskun: yfirlitsgrein, Læknablaðið, 6. tbl., 86. árgangur, júní 2000.
Að auki má benda á grein í erlendu fræðiriti:
Íslensk rannsókn á erfðum ofvirkni
Um þessar mundir stendur yfir umfangsmikil rannsókn á erfðum ofvirkni á Íslandi. Að henni standa barna- og unglingageðlæknarnir Ólafur Ó. Guðmundsson, Dagbjörg Sigurðardóttir og Gísli Baldursson, barnalæknarnir Kristleifur Kristjánsson, Solveig Sigurðardóttir, Stefán J. Hreiðarsson og Steingerður Sigurbjörnsdóttir og Páll Magnússon, sálfræðingur, í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Rannsóknin fer þannig fram að haft er samband við foreldra barna og unglinga sem greinst hafa með ofvirkni á barnageðdeild og á stofum ofangreindra sérfræðinga. Foreldrar sem samþykkja þátttöku eru beðnir að útfylla spurningalista um ofvirknieinkenni sem þeir kunna að finna fyrir hjá sjálfum sér, koma í greiningarviðtal ef svo ber undir og gefa blóðsýni. Þá er einnig leitað eftir þátttöku annarra náinna skyldmenna sem tilbúnin eru að svara sams konar spurningalista. Rannsóknin er gerð með leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar og öll meðferð og eyðing gagna sem aflað er fer eftir reglum þessara aðila og upplýstu samþykki þátttakenda. Vonir standa til að aukin þekking á erfðum ofvirkni geti leitt til nákvæmari greiningaraðferða og bættra meðferðarúrræða. Íslensk þekking á ættfræði og skilvirkar rannsóknaraðferðir Íslenskrar erfðagreiningar skapa einstakar aðstæður til að auka þekkingu á þessu sviði hér á landi. Fjöldi ættingja barna með ofvirkni hefur þegar tekið þátt í rannsókninni og er vonast til að undirtektir verði áfram jafngóðar þar sem gagnasöfnun heldur áfram næstu árin og niðurstöður verða þeim mun nákvæmari sem fleiri taka þátt.
Höfundur vill færa læknunum Gísla Baldurssyni, Ólafi Ó. Guðmundssyni og Kristleifi Kristjánssyni, bestu þakkir fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar við samningu þessa pistils.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.