Á fjórða tug veitingastaða taka þátt í Reykjavík Coctail Weekend í næstu viku og verða kokteilar á sérstöku tilboðsverði á stöðunum. Samhliða fer fram Íslandsmót barþjóna og sitthvað fleira. Forseti Barþjónaklúbbs Íslands segir hátíðina hluta af því að bæta vínmenningu landsins.
„Við erum að reyna að skapa ákveðna menningu og það hefur gengið ágætlega. Íslendingar eru móttækilegir fyrir því að prófa eitthvað nýtt og láta tríta sig. Þetta er fjórða árið í röð sem við höldum þennan viðburð og hann stækkar með hverju árinu,“ segir Tómas Kristjánsson, forseti Barþjónaklúbbs Íslands.
Reykavík Coctail Weekend verður haldin í næstu viku, frá miðvikudegi til sunnudags. Fjöldi bara og veitingastaða taka þátt og verða með sérstakan kokteilseðil þar sem verður að finna kokteila á tilboðsverði. Samhliða þessu fer fram Íslandsmót barþjóna og keppni veitingastaða í kokteilgerð. Undankeppni barþjóna fer fram í Gamla bíói á fimmtudagskvöld og úrslitakeppnin á sunnudagskvöld.
„Það verður allskonar húllumhæ og borgin eiginlega undirlögð af hátíðinni. Við viljum hafa þetta á sem flestum stöðum en ekki bara í einum stórum sal, að lífið sé inni á veitingastöðunum því þá geta þeir skapað sitt eigið umhverfi eins og þeir gera á hverjum degi. Ég held að fólk kunni líka að meta það að labba á milli staða og smakka spennandi kokteila sem kosta að hámarki 1.700 krónur meðan á hátíðinni stendur,“ segir Tómas.
Samhliða fer fram Íslandsmeistaramót barþjóna. „Þar er keppt í tveimur flokkum, annars vegar eftir alþjóðlegum lögum og reglum, og hins vegar er frístæl keppni. Þá geta menn verið búnir að búa til eigin síróp og fleira. Áhugafólk um vínmenningu ætti líka að kíkja Hótel Plaza á laugardeginum. Þar verða ýmsir fyrirlestrar og fróðleikur um vín. Og smökkun, fólk getur drukkið í sig fróðleik.“
Tómas segir að kokteilamenningin sé í mikilli sókn hér á landi. „Þetta byrjaði fyrir svona 5-6 árum þegar Slippbarinn opnaði og hefur verið mikið trend síðan. Barþjónar hafa drukkið í sig fróðleik og eru farnir að gera heilmikið sjálfir, „infjúsa“ og sitthvað fleira. Menn búa til eigin hluti og vilja hafa sína sérstöðu. Það gerir upplifunina meiri og nú er meira að segja hægt að ramba á milli staða og fá mismunandi útgáfur af sama kokteilnum.“
Tómas segir að markmiðið með Reykjavík Coctail Weekend sé að bæta vínmenningu okkar. „Alveg klárlega. Við höfum nálgast þetta með faglegum hætti og menningin er smám saman að breytast og batna. Við erum að draga okkur út úr þessari ómenningu þegar allir duttu í það einu sinni í viku. Nú er fólk farið að fara út á virkum kvöldum og fá sér einn og einn drykk. Góður kokteill er enda frábær með máltíðinni og getur gert hana enn betri. Mér finnst alveg frábært að sjá hvað það er orðinn mikill metnaður meðal barþjóna. Það hefur orðið ótrúleg breyting á síðustu fimm árum. Það hjálpar auðvitað að nú fáum við fleiri erlenda gesti en áður var og hingað kemur líka fólk að utan til að vinna. Þetta hjálpast allt að og við erum alltaf að læra eitthvað nýtt.“
Nánari upplýsingar um dagskrá og staðina sem taka þátt má finna á www.bar.is og á Facebook. Miðasala á viðburðina fer fram á www.tix.is.
Þessir staðir taka þátt í Reykjavík Coctail Weekend
American bar
Apotek restaurant
BarAnanas
Bazaar
Bryggjan Brugghús
Dillon
Forrettarbarinn
Frederiksen Ale House
Geiri Smart
Græna herbergið
Grillmarkaðurinn
Hard Rock Cafe Reykjavík
Hilton Reykjavik Nordica
Jacobsen Loftið
Kitchen and Wine 101 hótel
Kofinn
Kol Restaurant
Kopar
Marbar
Matarkjallarinn
MatWerk
Nauthóll
Nora magasin
Pablo Discobar
Petersen – Svítan
Public House Gastropub
Sæta Svínið
SKÝ Restuarant
Slippbarinn
Sushi Social
UNO
Vegamót
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.