Axlarliðurinn er hreyfanlegasti liður líkamans sem gerir hann jafnframt útsettan fyrir áverkum. Axlarliðurinn er að stærstum hluta myndaður af upphandleggsbeininu og herðablaðinu og svo liðböndum og liðpoka sem styrkja liðinn. Fjórir vöðvar sem kallast rotatorcuff (subscapularis-herðablaðsgrófarvöðvi, Supraspinatus-ofankambsvöðvi, infraspinatus-neðankambsvöðvi og teres major-stóri-sívalningur) liggja frá herðablaðinu og festast á upphandleggsbeinið og tengja þessa tvo þætti saman. Sinar þessara vöðva renna saman við liðpoka axlarliðarins og er hlutverk þeirra að styrkja liðpokann og halda liðnum í réttum skorðum með því að halda efsta hluta upphandleggsbeinsins að herðablaðinu.
Helstu orsakir axlarmeina
Ýmsar orsakir geta legið að baki axlarmeinum en bólgur eða rof á sinum þessara vöðva er algengt að sjá, ekki bara hjá fólki sem stundar íþróttir heldur einnig hjá einstaklingum þar sem álag er á axlarliðinn, ýmist við leik eða störf og þeim sem komnir eru yfir miðjan aldur. Einnig geta belgmein (bursitis) valdið axlareinkennum. Allar þær íþróttagreinar þar sem mikið er um það að höndum sé lyft upp fyrir höfuð auka hættu á axlarmeinum, s.s. körfubolti, tennis, badminton, sund og lóðalyftingar. Einnig er algengt að sjá rof á þessum vöðvum hjá fólki sem dettur á útréttan handlegg.
Sinabólga (sjá sinaslíðursbólgu): Ýmsar ástæður geta legið að baki því að sinar þessara vöðva bólgna, s.s. mikið álag á axlarliðinn. Langvinnar bólgur í sin getur valdið minnkaðri hreyfingu um axlarliðinn og því að ójafnvægi kemst á styrk rotator-cuff vöðvanna og þar með styrkleika liðpokans. Bólgur geta einnig valdið því að núningur verður við aðliggjandi bein sem gerir ástandið enn verra. Ef sinabólga er ekki meðhöndluð verður sinin smám saman veikari og hættan eykst á að tognun eða slit geti orðið við áverka.
Belgmein: Á milli axlarvöðvanna annarsvegar og axlarbeinanna hinsvegar liggja litlir vökvafylltir pokar sem hafa það hlutverk að minnka núning, þeir geta einnig bólgnað upp og valdið verkjum.
Kalkútfellingar: Eftir miðjan aldur fara að koma fram öldrunarbreytingar í sinunum, þ.á.m. sjást oft kalkútfellingar sem geta valdið verkjum. Ef þær eru farnar að gefa mikil einkenni getur þurft að fjarlægja þær og er það ýmist gert með ómstýrðri ástungu eða aðgerð.
Tognun eða slit: Áverki á öxl getur valdið því að það tognar á þessum sinum eða þær rofna.
Hver eru einkenni axlarmeina?
- Verkur er helsta einkennið.
- Sársauki við að lyfta handleggnum út frá líkamanum, t.d. upp fyrir höfuð, eða aftur fyrir bak eða við að bera þunga hluti.
- Minnkuð hreyfigeta.
- Eymsl á axlarsvæðinu.
- Verkur á nóttunni.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
Sjúkrasaga og skoðun gefur miklar upplýsingar. Eymsl geta verið þreifanleg yfir skemmdri sin og hreyfingar og styrkur í öxlinni minnkaður. Ef verkur í öxl hefur varað í meira en vikutíma eða áverki verður á öxlinni er mikilvægt að leita læknis.
Meðferð
Ef um áverka er að ræða er best að byrja á að leggja kaldan bakstur við áverkann til að minnka blæðingar og bólgu, og leita strax læknis. Oft getur þurft að taka röngtenmyndir til að útiloka brot. Það fer svo eftir því hversu alvarlegur áverkinn er hver meðferðin er. Í flestum tilfellum felst meðferðin í hvíld, bólgueyðandi lyfjum og sjúkraþjálfun, en í þeim tilfellum þar sem grunur er á að fullkomið rof sé á rotator-cuff vöðvunum getur reynst nauðsynlegt að gera liðspeglun og lagfæra skaðann. Í framhaldinu er svo sjúkraþjálfun mikilvæg en markmið með henni er að styrkja vöðvana umhverfis liðinn og auka þannig á stöðugleika liðarins og að ná eins góðu hreyfiferli og mögulegt er.
Ef ekki er saga um áverka er oftast hægt að ráða bót á vandanum með hvíld og bólgueyðandi lyfjameðferð þar sem ýmist eru gefin bólgueyðandi lyf til inntöku og/eða bólgueyðandi sterum er sprautað í öxlina. Þjálfun gegnir einnig mikilvægu hlutverki og mikilvægt er að byrja eins fljótt og hægt er að hreyfa öxlina, því liðurinn er fljótur að stirðna og ef það gerist er oft erfitt að ná upp fullu hreyififerli.
Sjá einnig: 9 ráð til að bæta svefninn þinn
Almennar ráðleggingar:
Ef um minniháttar áverka er að ræða eða byrjandi verk í öxl getur verið gott að byrja að fylgja eftirfarandi:
Hvíld: hætta að gera það sem veldur verk og hætta að framkvæma þær hreyfingar sem valda verk. Ekki lyfta þungum hlutum og forðast hreyfingar upp fyrir höfuð eða þar til verkirnir hafa minnkað. Mikilvægt er þó að hreyfa öxlina svo hún stirðni ekki, t.d. með því að beygja sig fram og sveifla handleggnum í hringi eins og pendúl.
Kæling: til að minnka bólgur og verki er gott að nota kalda bakstra. Setjið kaldan bakstur við staðinn þar sem verkurinn virðist koma frá og látið liggja í 15–20 mín. Þetta er gott að gera nokkrum sinnum fyrstu dagana. Eftir 2–3 daga þegar bólga og verkur hefur minnkað má byrja að nota heita bakstra til að mýkja stífa vöðva.
Bólgueyðandi lyf: fást án lyfseðils í apótekum. Fylgið nákvæmlega þeim leiðbeiningum sem gefnar eru á umbúðum.
Þjálfun: eftir 1–2 daga er mikilvægt að byrja varlega á a& eth; hreyfa öxlina til að koma í veg fyrir að hún verði stíf.
Ef einkenni versna eða hafa ekki lagast á nokkrum dögum er ráðlagt að hafa samband við lækni.
Fleiri heilsutengdar greinar má finna á
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.