Hvað er kólesteról?

Kólesteról er fituefni í blóði sem allar frumur líkamans þurfa á að halda.  Allir menn eru með kólesteról í blóðinu en magnið er mjög einstaklingsbundið og það er háð fæðu og framleðislu lifrarinnar.

Góða og slæma kólesterólið:

Kólesteról er  bundið sérstökum flutningspróteinum í blóðinu, en helstu flokkar þeirra eru HDL og LDL fitupróteinin. LDL-kólesteról hefur tilhneygingu til að setjast innan á æðaveggi og hefur því verið kallað „slæma kólesterólið“.HDL-kólesteról hins vegar sér um að flytja kólesteról úr æðaveggjum til lifrarinnar og er þannig kallað „góða kólesterólið“.

Hvað á gildi kólesteróls að vera?

Hátt kólesteról í blóði er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, en vægi þess sem áhættuþáttur er mismunandi eftir einstaklingum. Þá vega aðrir áhættuþættir einnig þungt, svo sem reykingar, sykursýki og hár blóðþrýstingur.

Viðmiðunarmörk fyrir heildarkólesteról í blóði (millimól í lítra)

Mjög hátt: meira en 8

Hátt: 6-8

Viðunandi:  5- 6

Æskilegt: minna en 5

Ef æðaþrengsli eða önnur æðakölkun er til staðar er æskilegt að kólesterólið sé enn lægra, eða minna en 4.

Hlutfall „góða“ og „slæma“ kólesterólsins í blóðinu skiptir einnig miklu máli og er talið æskilegt að „góða“ kólesterólið sé að minnsta kosti 1/4 af heildarkólesteróli í blóði.

Hvað er til ráða:

Það að hætta að reykja eitt af því mikilvægasta sem hægt er að gera í forvörnum gegn æðakölkun.

Reglubundin hreyfing 30 mínútur að lágmarki í senn alla daga vikunnar þar sem hjartað nær að slá hraðar en 100-120 slög á mínútu er almennt talin lágmark til þess að viðhalda hjartaheilsu.

Mataræði getur haft áhrif á kólesterólmagn í blóði. Hörð fita (fita sem er ekki fljótandi við stofuhita) inniheldur mikið af mettuðum fitusýrum eða svokölluðum trans-fitusýrum sem hækka slæma  kólesterólið. Mjúk fita er hins vegar gerð úr hærra hlutfalli af ómettuðum   fitusýrum sem ekki hafa slík áhrif.  Því er almennt ráðlagt að nota  magrar mjólkurafurðir, nota matarolíur við matargerð í staðinn fyrir hart smjörlíki eða smjör. Sumar fæðutegundir úr dýraríkinu innihalda kólesteról eins og til dæmis skelfiskur, innmatur og eggjarauður.  Neysla þessara fæðutegunda hefur þó ekki úrslitaáhrif á magn kólesteróls í blóði, sé  hennar neytt í hófi.

 

 

SHARE