Hér eru nokkrar einfaldar æfingar sem barnshafandi konur geta gert heima án þess að þurfa að fara í æfingagallann eða taka frá sérstakan tíma fyrir líkamsrækt. Þetta eru styrkjandi æfingar sem geta haft mikið að segja þegar líður á meðgönguna og undirbúa líkamann fyrir þá áreynslu sem fæðingunni fylgir. Æfingarnar bera mestan árangur ef þær eru gerðar daglega.
Magaæfingar í sófanum
Sittu með krosslagða fætur og stuðning við bakið. Leggðu hendurnar á magann. Haltu bakinu og öxlunum kyrrum á meðan þú andar inn í gegnum nefið um leið og þú þenur út magann. Andaðu út um munninn um leið og þú dregur magann inn, ýttu naflanum inn í átt að bakinu.
Styrkir maga- og grindarbotnsvöðva.
Hnébeygjur á meðan tennurnar eru burstaðar
Stattu bein, með axlabreidd á milli fóta. Haltu í borðbrún eða í vaskinn til að missa ekki jafnvægið. Beygðu þig í hnjánum eins og þú ætlir að setjast og gættu þess að lyfta ekki hælunum upp af gólfinu. Gerðu að minnsta kosti fimm hnébeygjur á hverjum degi.
Axlir styrktar á meðan þú horfir á sjónvarpið
Sittu bein í baki með fæturnar á gólfinu. Hafðu axlirnar slakar. Dragðu axlirnar aftur um leið og þú klemmir saman herðablöðin. Ímyndaðu þér að þú sért að halda á litum bolta á milli herðablaðanna. Haltu spennunni í nokkrar sekúndur. Endurtaktu 10 sinnum. Þetta bætir líkamsstöðuna og styrkir vöðva sem reynir á þegar þú ert með barn á brjósti.
Styrkir bakvöðva.
Heimildir: Fréttatíminn
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.